Færsluflokkur: Bloggar

Stjórn hinna miklu skatta !

50541Það er athyglsivert að eitt af óumdeildum afrekum þessarar ríkisstjórnar er og verður sífellt hækkaðar skatttekjur og hækkuð útgjöld hins opinbera.

Í dag sendi Glitnir út meðfylgjandi töflu sem sýnir þessa þróun ágætlega fyrir fyrsta ársjórðung undanfarinna ára.   

Ætli þessi 65% sem vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í næstu ríkisstjórn hafi óskir um að áfram verði haldið á þessari braut ? - stefnu aukinna skatta og ríkisútgjalda !

Pælum í því !


mbl.is Flestir vilja Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geymt en ekki gleymt úr ranni ríkisstjórnar

Enn ein könnunin staðfestir nú stórsókn Samfylkingarinnar og i ljósi þess að svörum í nýjustu könnun Capacent hefur verið safnað saman á vikutímabili má gera ráð fyrir því að staða Samfylkingarinnar sé í raun enn betri en þar kemur fram. Ég finn það enda allt í kringum mig að einstaklingar sem hafa verið óákveðnir um nokkurt skeið, jafvel verið að velta fyrir sér VG eða Sjálfstæðisflokki (sitt hvor hópurinn) eru að gera upp hug sinn og melda sig til Samfylkingarinnar.

Það sem mestu máli skiptir núna er að kjósendur geri það upp við sig, hvort þeir vilja skipta um stjórn eða ekki. Ef menn vilja skipta um stjórn, verða menn að kjósa aðra flokka en Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk. Þeir sem eru hræddir við stjórnarsetu VG geta ekki leyft sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í þeirri von að hann vinni ekki enn einusinni með Framsókn og þeir sem vilja að Framsókn snúi sér til vinstri verða að kjósa til vinstri. Yfirlýsingar forystumanna stjórnarflokkanna og gerðir þeirra sl. ár, ekki síst í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna sýna svo ekki verður um villt að þeir munu vinna saman ef þess gefst nokkur kostur.

Vilji menn stjórnarskipti VERÐA menn því að kjósa aðra flokka en stjórnarflokkana - svo einfalt er það.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar hefur tekið saman fróðlegan og hnitmiðaðan lista yfir 40 atriði af "afrekaskrá" ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hann telur mikilvægt að ekki falli í gleymsku á lokaspretti kosninganna.

Íraksstríðið, átökin við öryrkjana, átökin við aldraða, biðlistarnir, fjölmiðlamálið og Baugsmálið eru meðal þeirra atriða sem þar koma fram, en óhætt er að mæla með lestrinum. Það er hreint ótrúlegt hvað maður er fljótur að gleyma.

Síðan er bara spurningin - viljum við lengja "afrekaskránna" enn frekar eða taka nýjan kúrs ?

Pælum í því !


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsókn Samfylkingar !

Frábært að sjá hverja könnunina á fætur annarri, staðfesta að Samfylkingin er komin á flug og fylgið vex dag frá degi. Öflugur málflutningur flokksins frá landsfundi er að ná eyrum kjósenda og áhersla flokksins á velferðarmálin hittir beint í mark. Þar og í efnahagsstjórninni skynjar þjóðin veikleika stjórnarflokkanna og treystir Samfylkingunni greininlega best til að breyta um kúrs án kollsteypna.

Það er hinsvegar athyglsivert að sjá hvernig fjölmiðlar matreiða niðurstöður þeirra kannan sem nú birtast. Það er ekki borið saman við niðurstöður síðustu kannanna, heldur miðað við kosningafylgi síðast. Öðru vísi mér áður brá, þegar Samfylkingin var á niðurleið. Þá var hvert tækifæri nýtt til að varða breytingarnar á milli kannanna - ekki síst í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.

En þjóðin lætur ekki plata sig. Hún man að fyrir uþb mánuði síðan var Samfylkingin með tæplega 19% fylgi. Á nokkrum vikum hefur það vaxið um tæp 50% og enn eru 9 dagar til stefnu.

Ég leyfi mér að spá áframhaldandi vexti og að Samfylkingin endi réttu megin við 30%. Þá fyrst komast velferðarmálin og traust efnahagsstjórn á dagskrá ríkisstjórnarinnar - ríkisstjórnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Pælum í því !


mbl.is Framsóknarflokkur tapar fylgi í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálfræðihernaður eða raunveruleg ógn ?

IMG_3136Það er greinilegt að keppinautar Westham óttast að Eggerti og félögum muni takast hið ótrúlega, að bjarga Westham frá falli með ótrúlegum endaspretti. Liðið hefur spilað mjög vel í síðustu leikjum sínum og það var hrein unun að fylgjast með liðinu yfirspila Everton á Upton park fyrir rúmri viku síðan. Ég kann ekki skýringar á slöku gengi félagsins á tímabilinu, en leikur liðisins er greinilega að smella saman og það er allt of gott til að falla úr úrvalsdeildinni ensku.

Eigum við ekki að segja að íslenski andinn sé loksins farin að blása þeim eldmóð í brjóst Smile

Hótun keppinautanna um að halda baráttunni um sætið í úrvalsdeildinni áfram innan réttarsala, í stað þess að sætta sig við að lúta í gras á vellinum sjálfum er ótrúlega lúaleg. Ekki síst í ljósi þess að nýjir eigendur hafa tekið við liðinu, allsendis ótengdir og ábyrgðarlausir af þeim málum sem fjallað er um og ómögulegt er að halda því fram að félagið hafi hagnast á þessum æfingum - amk gaf framistaða þess framanaf tímabilinu ekki slíkt til kynna.

Ég vona að hér sé aðeins um sálfræðihernað að ræða og allir aðilar sætti sig við úrslitin eins og þau falla á vellinum. Það væri amk ömurlegt ef Westham myndi bjarga sér frá falli en verða á endanum dæmt úr úrvalsdeildinni, vegna mistaka eða misgjörða fyrrum eigenda.

Pælum í því ! 


mbl.is Whelan: Samtök um að kæra ákvörðunina um West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningasvör Sjálfstæðisflokksins

Það er athyglisvert að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast nota sama svarið við öllum erfiðum spurningum sem þeir fá þessa dagana. Þeir svara þeim ekki efnislega, heldur vísa þeim frá á þeim forsendum að þetta séu dæmigerðar "kosningaspurningar". Þar með telja þeir greinilega að málið sé afgreitt ?!

Klúður Sturlu Böðvarssonar, Samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins vegna Grímseyjarferjunnar fær þannig afgreiðslu, enda sjálfsagt ekki málefnalegri svara að vænta þaðan, frekar en fyrri daginn. Nokkur hundruð milljónir af almannafé eru greinilega ekki slíkar tölur í huga ráðherrans að það taki því að ræða um slík mál, hvað þá að svara fyrir ákvarðanir sem leiða til slíkrar sóunnar.

Mig rak líka í rogastans þegar ég heyrði svar Geirs H. Haarde, Forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins við spurningu aldraðrar konu, þegar hann mætti í Kastljósið sl. mánudag. Þessi kona, sem upplýsti í leiðinni að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hefðu bætt kjör hennar um heilar 800 krónur á mánuði, spurði Forsætisráðherrann hvort hann treysti sér til að lifa á sambærilegri fjárhæð og hún fær greidda sem ellilífeyri í mánuði hverjum. N.b. ellilífeyri sem ákveðin er af stjórnvöldum hverju sinni og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gert sér sérstakt far um að láta dragast aftur úr almennri kaupmáttarþróun í landinu.

Og hvert skildi nú hafa verið svar Forstætisráherra Sjálfstæðisflokksins við spurningu þessarar öldruðu konu:

Þetta er svona klassísk spurning sem kemur alltaf fyrir kosningar.

... og síðan var slegið úr og í og lofað inní framtíðina um betri tíð með blóm í haga. Ætli séu miklar líkur til þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins velti þessari spurningu aftur fyrir sér í ljósi svars Forsætisráðherrans ?

Pælum í því !


mbl.is Ómálefnaleg gagnrýni lituð af kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnaðarmenn til forystu !

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins er í dag og milljónir manna um allan heim krefjast bættra kjara og bjartari framtíðar. Kröfurnar eru auðvitað margbreytilegar og í samræmi við ástand mála á hverjum stað, en allsstaðar eiga þær samsvörun í grundvallarhugmyndum jafnaðarstefnunnar um jafnrétti, réttlæti og bræðralag mannkyninu til handa.

  

Í mínum huga er 1. maí, því alþjóðlegur baráttudagur jafnaðarmanna um allan heim.

  

Á Íslandi ber svo við, að 1. maí ber upp 11 dögum fyrir kosningar og málefnaumræða um áherslur næstu ríkisstjórnar er í hámarki. Þar hafa tekist á sjónarmið núverandi stjórnarflokka sem boða óbreytta stjórnarstefnu fái þeir til þess fylgi og hinsvegar félagslegar áherslur jafnaðarmanna um endurreisn velferðarkerfisins og ábyrga efnahagsstjórn undir forystu Samfylkingarinnar.

  

Af ræðum dagsins hjá forystumönnum launþegahreyfingarinnar má merkja að krafa þeirra er um tafarlausar breyttar áherslur í ríkisstjórn. Launþegahreyfingin vill að sjónarmið jafnaðarstefnunnar verði lögð til grundvallar við stjórn landsins og snúið verði af braut núverandi stjórnarstefnu.

  

Eftir 11 daga kemur í ljós hvort kjósendur verða við skýrum kröfum launþega þessa lands.

  Pælum í því !
mbl.is „Velferð fyrir alla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athafnaskáld til fyrirmyndar

Athafnaskáldin íslensku sjá manni fyrir stöðugum spennandi fréttum þessi misserin. Á einu ári hafa tveir íslenskir bankar verið yfirteknir, nánast með fjandsamlegum hætti og farsælir bankastjórar hafa fengið að taka pokann sinn í kjölfarið - í báðum tilvikum vegna meints samstarfs við fyrrum meirihluta á kostnað hins nýja. Í sjálfu sér ekkert við þann framgangsmáta að athuga enda eðlilegt að meirihlutaeigendur og æðsti stjórnandi njóti 100% trúnaðar hvors annars.

Ég hygg hinsvegar að flestir muni sakna Bjarna úr brúnni hjá Glitni. Þetta á klárlega við um starfsmenn og viðskiptavini bankans en einnig aðra sem hafa fylgst með honum í gegnum tíðina og þeim farsæla feril sem hann á að baki. Bjarni hefur verið mjög áberandi í íslensku þjóðlífi alveg frá því að hann skaust upp á stjörnuhimin fjármálageirans fyrir ríflega 10 árum síðan. Í raun má segja að Bjarni sé einn af bestu sonum hins endurfædda íslenska fjármálageira, elskaður og dáður af flestum fyrir sína fáguðu og yfirlætislausu framgöngu. Í fljótu bragði man ég ekki eftir einu tilviki þar sem hann lent í neikvæðri umræðu vegna starfa sinna eða bankans.

Það er mjög í anda Bjarna að skilja við sinn gamla vinnustað með þeim hætti sem nú er kynnt. Hann hleypur ekki frá borði, heldur fylgir eftirmanni sínum fyrstu skrefin, heimsækir með honum öll útibú, stappar stálinu í starfsmenn bankans og styður þannig við yfirfærsluna af heilum hug. Framgangsmátinn er honum og nýjum eigendum til mikils sóma.

Það verður ekki auðvelt fyrir eftirmann Bjarna, Lárus Welding að fylla uppí skarðið sem Bjarni skilur eftir sig. Ímynd Glitnis hefur verið nánast samgróin Bjarna og það mun taka tíma að aðlaga hana nýjum manni í brúnni. Ég efast hinsvegar ekki um að það muni takast. Nýja áhöfnin, bæði eigendur og forstjóri eru öllum hnútum kunnugir í fjármálheiminum og þeir einstaklingar sem þar eru samankomnir hafa sýnt og sannað að þeir láta verkin tala - og það fljótt.

Skákmaðurinn í mér segir mér reyndar að við séum bara búin að sjá fyrstu tvo leikina í mun lengri fléttu. Nýtt nafn, nýtt félag, nýjir menn og nýjir sigrar eru án efa hinumeginn við hornið.

Og Bjarni mun ekki sitja auðum höndum lengi....

 

Pælum í því !


mbl.is Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski stjórnunarstíllinn !

Í síðustu viku fór ég til London og heimsótti ásamt samnemendum mínum í  MBA við Háskóla Íslands, þrjú af þeim íslensku útrásarfyrirtækjum sem starfa í Englandi og hafa verið að gera það gott á undanförnum misserum. Við vorum svo lánsöm að helstu stjórnendur þessara fyritækja tóku á móti okkur, gáfu okkur dýrmæta innsýn í reksturinn og leyfðu okkur að spyrja sig spjörunum úr um þá ævintýralegu velgengni sem þessi íslensku fyrirtæki hafa upplifað að undanförnu.   

 

Jafnvel þó mikið hafi verið fjallað um íslensku útrásarfyrirtækin í íslenskum fjölmiðlum verð ég að viðurkenna að árangur þessara fyrirtækja og umfang þeirra í bresku efnahagslífi kom mér verulega á óvart. Göngutúr eftir Oxfordstræti, þar sem búðir Baugs eru nánast alltaf í augsýn segir að vísu mikla sögu, en þegar fjöldi þeirra starfsmanna sem vinna hjá íslensku fyrirtækjum í Bretlandi er skoðaður kemur í ljós að þeir eru komnir vel á annaðhundrað þúsundið – 120.000 var talan sem ég heyrði þarna úti. Á íslenskum vinnumarkaði skilst mér hinsvegar að séu uþb 180.000 vinnandi einstaklingar. Með sama áframhaldi verður þess ekki langt að bíða að starfsmenn íslenskskra fyrirtækja í Bretlandi verði fleiri en allir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði !  

 

Annað sem mér fannst athyglisvert og var sem rauður þráður í máli stjórnenda þeirra fyrirtækja sem við hittum, var hversu mikilvægur þáttur í árangri íslensku útrásarfyrirtækjanna hinn “íslenski stjórnunarstíll” var. “Íslenski stjórnunarstíllinn” er að vísu ekki það orð sem viðmælendur okkar notuðu, en allir lýstu þeir svipuðum eiginleikum eða aðferðafærði sem mér finnst vel meiga kalla þessu nafni. Stuttar boðleiðir í æðstu stjórnendur, þáttaka þeirra í öflun og ræktun viðskiptasambanda, áræðni og “just do it” hugarfar í flestu tilliti. Auðvitað ekki nein ævintýramennska eða fífldyrfska, heldur fagleg vinnubrögð með krafti og áræni frumkvöðulsins.   

 

Þegar haft er í huga að íslensku útrásarfyrirtækin standa andspænis stofnanavæddu “nýlenduskipulagi” bresks efnahagslífs er maður ekki undrandi á að “íslenski stjórnunarstíllinn” nái yfirhöndinni. Þessari staðreynd eru æ fleiri að átta sig á og þess vegna sækjast æ fleiri eftir samvinnu og viðskiptum við íslensku útrásarfyrirtækin. “Íslenski stjórnunarstíllinn” nýtur orðið trausts og vinsælda og mun sjálfsagt komast í tísku áður en langt um líður. Það má því með góðu móti halda því fram að nýjasta og mikilvægasta útflutningsvara okkar Íslendinga sé stjórnunarþekking. Á þeirri þekkingu eru íslensk fyrirtæki á uþb 10 árum búin að nánast tvöfalda mannaflan sem vinnur undir íslenskum merkjum og skilar þjóðarbúinu tekjum.  

 

Pælum í því !
mbl.is Björgólfur Thor sá 23. ríkasti í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldulesning !

... og talandi um stíl.

Þórhildur Þorleifsdóttir hittir naglann á höfuðið í nýjustu grein sinni á Trunó. Greinin er óborganleg lesning, eiginlega skyldulesning fyrir alla áhugamenn um stjórnmál. þeir sem vilja njóta meistaralegs sjónarhorns leikstjórans eða hlæja og skemmta sér eiga líka fullt erindi í greinina.

Pælum í því !


Nýr stíll í boði.

426051BÞá er landsfundi Samfylkingarinnar lokið og 4 vikna kosningabarátta framundan til að smita þeim krafti, bjartsýni og þeim hugmyndum og lausnapólitík sem fundurinn einkendist af, til kjósenda. Skýr og ígrunduð stefnumörkun liggur fyrir í öllum helstu málaflokkum og ég fullyrði að enginn íslenskur flokkur kemst með tærnar þar sem Samfylkingin hefur hælana í þessum efnum.

Tilfinningin sem ég upplifði svo sterkt í gær og deildi með ykkur í bloggi næturinnar, um að nú væri öflugi jafnaðarmannaflokkurinn loksins fæddur, bjó greinilega í brjóstum fleiri landsfundarfulltrúa en mín. Allir sem á vettvangi voru skynjuðu tímamótin og ég er sannfærður um að það mun þjóðin einnig gera í framhaldinu.

Fyrir utan þessi mikilvægu tímamót í sögu jafnaðarmanna á Íslandi vil ég nefna þrennt sem mér fannst merkast af þessum fundi:

1) Samfylkingin fyrst flokka samþykkti að stefnt skildi að umsókn um Evrópusambandið. Forysta og sérstaða hennar í þessu efni verður ekki af henni tekin. Yfir 60% þjóðarinnar hefur lýst sig sammála þessu markmiði Samfylkingarinnar.

2) Samfylkingunni er einni treystandi til raunhæfra aðgerða í jafnréttismálum. Launmunur kynjanna var settur afgerandi á dagskrá og Ingibjörg Sólrún hefur ein íslenskra stjórnmálamanna sýnt og sannað að þar gerir hún meira en tala. Í Reykjavíkurborg minnkaði hún með markvissum aðgerðum launamun kynjanna svo um munaði og boðar nú amk helmings minnkun hjá ríkinu á næsta kjörtímabili komist Samfylkingin til valda. Nú geta þeir sem raunverulega leggja áherslu á þetta mikilvæga jafnréttismál sýnt í verki hvort þeir vilji tala áfram, eða kjósa aðgerðir undir forystu Ingibjargar.

Liðsinni Bjarna Ármanssonar, forstjóra Glitnis og formanna sænsku og dönsku jafnaðarmannanna, Monu og Hella gaf þessum mikilvæga málaflokk aukna vikt og sýndi í verki hvar Samfylkingin vill leggja áherslur sínar. Forystulutverk Samfylkingarinna í jafnréttismálum er og verður vonarneisti þeirra sem þar vilja raunverulegar breytingar.

3) Síðast en ekki síst var glæsileg framganga Ingibjargar Sólrúnar eins og ferskur andblær í stjórnmálin. Full sjálfstrausts, yfirveguð og baráttuglöð býður hún þjóðinni uppá nýja tíma. Öfgalausa forystu þar sem hlustað verður eftir hjartslætti samfélagsins en ekki stjórnað með boðum og bönnum. Umhyggju og sanngyrni í stað einstaklingshyggju og óréttlætis. Hún býður þjóðinni uppá kvenlega forystu ríkisstjórnar í fyrsta skipti í sögu líðveldisins - nýjan stíl í stjórnmálin.

Nú er bara að sjá hvað þjóðin segir - ekki síst kvenþjóðin.

Pælum í því !

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erum orðin fullmótaður flokkur jafnaðarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband