Athafnaskáld til fyrirmyndar

Athafnaskáldin íslensku sjá manni fyrir stöðugum spennandi fréttum þessi misserin. Á einu ári hafa tveir íslenskir bankar verið yfirteknir, nánast með fjandsamlegum hætti og farsælir bankastjórar hafa fengið að taka pokann sinn í kjölfarið - í báðum tilvikum vegna meints samstarfs við fyrrum meirihluta á kostnað hins nýja. Í sjálfu sér ekkert við þann framgangsmáta að athuga enda eðlilegt að meirihlutaeigendur og æðsti stjórnandi njóti 100% trúnaðar hvors annars.

Ég hygg hinsvegar að flestir muni sakna Bjarna úr brúnni hjá Glitni. Þetta á klárlega við um starfsmenn og viðskiptavini bankans en einnig aðra sem hafa fylgst með honum í gegnum tíðina og þeim farsæla feril sem hann á að baki. Bjarni hefur verið mjög áberandi í íslensku þjóðlífi alveg frá því að hann skaust upp á stjörnuhimin fjármálageirans fyrir ríflega 10 árum síðan. Í raun má segja að Bjarni sé einn af bestu sonum hins endurfædda íslenska fjármálageira, elskaður og dáður af flestum fyrir sína fáguðu og yfirlætislausu framgöngu. Í fljótu bragði man ég ekki eftir einu tilviki þar sem hann lent í neikvæðri umræðu vegna starfa sinna eða bankans.

Það er mjög í anda Bjarna að skilja við sinn gamla vinnustað með þeim hætti sem nú er kynnt. Hann hleypur ekki frá borði, heldur fylgir eftirmanni sínum fyrstu skrefin, heimsækir með honum öll útibú, stappar stálinu í starfsmenn bankans og styður þannig við yfirfærsluna af heilum hug. Framgangsmátinn er honum og nýjum eigendum til mikils sóma.

Það verður ekki auðvelt fyrir eftirmann Bjarna, Lárus Welding að fylla uppí skarðið sem Bjarni skilur eftir sig. Ímynd Glitnis hefur verið nánast samgróin Bjarna og það mun taka tíma að aðlaga hana nýjum manni í brúnni. Ég efast hinsvegar ekki um að það muni takast. Nýja áhöfnin, bæði eigendur og forstjóri eru öllum hnútum kunnugir í fjármálheiminum og þeir einstaklingar sem þar eru samankomnir hafa sýnt og sannað að þeir láta verkin tala - og það fljótt.

Skákmaðurinn í mér segir mér reyndar að við séum bara búin að sjá fyrstu tvo leikina í mun lengri fléttu. Nýtt nafn, nýtt félag, nýjir menn og nýjir sigrar eru án efa hinumeginn við hornið.

Og Bjarni mun ekki sitja auðum höndum lengi....

 

Pælum í því !


mbl.is Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband