Færsluflokkur: Bloggar
16.2.2007 | 12:51
Siðferðinu úthýst af Hótel Sögu !
Spá mín um að stjórnendur Hótels Sögu hefðu verið plataðir til að samþykkja að verða miðpunktur alþjóðlegs klámiðnarðarþings og í framhaldi yrði því úthýst, virðist því miður ekki ætla að ganga eftir. Í Blaðinu í dag upplýsir fulltrúi Hótels Sögu að stjórnendum þess hafi um nokkurt skeið verið kunnugt um tilgang bókunarinnar og að þeir hafi ekki gert við hana athugasemd. Fulltrú Sögu bætir því síðan við að svo fremi að fulltrúar klámiðnaðarins hagi sér vel á hótelinu séu þeir velkomnir.
Þvílíkt dómgreindarleysi ! Þvílík mistök ! Þvílík vonbrigði !
Með þessari afstöðu sinna hafa stjórnendur Hótels Sögu, að mínu viti, úthýst öllu siðferði af hótelinu. Alþjóðaþing barnaníðinga, vændishúsaeigenda, mansalsskipuleggjenda, eiturlyfjasala og annarra skipulagðra glæpasamtaka eru væntanlega velkomin á Hótel Sögu, svo fremi að þeir hagi sér vel á vettvangi og væntanlega borgi reikninginn. Það er amk vonlaust að skýla sér á bak við það að þeir fulltrúar klámiðnaðarins sem munu eiga sér griðarstað á Hótel Sögu séu af allt öðru og betra sauðahúsi - því miður er þetta allt sama tóbakið.
Siðferði sem þetta er auðvitað ólíðandi, bæði hjá fyrirtækjum og almennt í mannlegu samfélagi. Með slíku siðferði verður okkur amk ekkert ágengt í baráttunni við þær meinsemdir og mannlegu eymd sem fylgir klámiðnaðinum og daglega leggur líf hundruð kvenna og barna í rúst.
En Hótel Saga hefur ákveðið að sér komi málið ekki við. Við sem neytendur eigum því næsta leik.
Pælum í því !
Stígamót skora á ráðamenn þjóðarinnar að koma í veg fyrir klámþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2007 | 19:30
Er ekki í lagi með stjórnendur Radison SAS ?
Það er nú alveg á mörkunum að maður trúi sínum augum og eyrum - ætla stjórnendur Radison SAS að hýsa klámmyndaþing á Íslandi ????????????
Ég trúi ekki öðru en að hér sé um einhverskonar mistök að ræða. "Þinginu" hlýtur að hafa verið laumað inn á hótelið undir fölsku yfirskini. Á næstu dögum verður því ábyggilega úthýst af þessu virðulega hóteli og í beinu framhaldi í burtu frá Íslandi.
Ef sú er ekki raunin hafa stjórnendur Sögu gerst sekir um ótrúlegan dómgreindarbrest sem mun reynast hótelinu dýrkeyptur. Í því tilfelli mun annað tveggja gerast - stjórnendurnir verða látnir taka pokann sinn, eða reksturinn mun riða til falls. Það verður einfaldlega ekki liðið að klámiðnaðurinn fái skjól hjá íslenskum fyrirtækjum, án þess að þau taki á sig ábyrgð á þeim íllvirkjum sem þar þrífast. Myndu stjórnendur Sögu etv hýsa ársþing barnaníðinga ? Ársþing mansalshringa ? Ársþing heróínsala ? ef þeir settu upp fallegan front á meðan á þingingu stæði ?
Nei, ég hef enga trú á því. Þeir hljóta að blása þetta af innan 24 tíma. Annars hlýtur allt að verða vitlaust !
Pælum í því !
Klámþing verður haldið hér á landi í næsta mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2007 | 10:10
Loks sér Mogginn ljósið !
Það er sannarlega fagnaðarefni að Morgunblaðið hafi nú loksins gengið til liðs við okkur sem höfum á undanförnum árum barist fyrir raunhæfum aðgerðum til að bæta loftgæði borgarbúa. Eins og fram kom í pistli mínum í gær voru á árinu 2001 lagðar fram margþættar tillögur um aðgerðir til að minnka svifryk í borginni (sjá meðfylgjandi skjal). Sú tillaga sem mestu skipti fjallaði um aðgerðir til að draga úr notkun nagladekkja og gerði m.a. ráð fyrir upptöku gjalds fyrir notkun þeirra.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn, Vefþjóðviljanum og víðar risu öndverðir gegn hugmyndinni, kölluðu hana árás á einkabílinn og forræðishyggju og kollegar þeirra á Morgunblaðinu og í ríkisstjórn þögðu þunnu hljóði. Tillagan strandaði síðan á því að ekki var framkvæmanlegt að borgin setti á slíkt gjald án atbeina ríkisvaldsins - undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Í leiðara í dag segir hinsvegar Morgunblaðið:
"Hér á landi blasir við að leggja annaðhvort slíkt gjald á nagladekk (eins og í Osló - innskot HBA) eða gera það hagkvæmara að aka á ónegldum dekkjum."
Er Sjálfstæðisflokkurinn loksins að sjá ljósið í þessu máli ? Morgunblaðið er amk komið í liðið sem er tilbúið í raunhæfar aðgerðir gegn svifryksmenguninni, það er ljóst. En hvar stæðum við, ef Mogginn hefði lagst á árarnar með okkur fyrir 6 árum síðan þegar tillögurnar komu fyrst fram ?
Pælum í því !
Börnin ekki út suma daga vegna svifryks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2007 | 22:08
Mogginn veður gulan reyk !
70% af forsíðu Morgunblaðsins í dag voru lögð undir tæplega 8 ára gamla frétt. "Borgin hirti ekki um mengun við leikskóla" var fyrirsögnin og yfir henni gnæfði risamynd af bílum akandi í mengunarmistri, væntanlega í borginni skelfilegu. Ef ég hefði ekki þekkt lítillega til umfjöllunarefnisins þá hefði ég líklega haldið mig innandyra - ekki þorað út í þessa skelfilega menguðu og vanræktu borg sem þarna var lýst, enda tilgangur greinarinnar að draga upp mynd af langvarandi sinnuleysi borgaryfirvalda í loftgæðamálum.
En svo vill til að þekki talsvert til loftgæðamála í Reykjavík enda voru þau mál mér afar hugleikin þegar ég gegndi formennsku í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur um ríflega tveggja ára skeið frá febrúar 2000 til maí 2002. Þennan stutta tíma voru loftgæðamál ítrekað á borðum nefndarinnar og í fljótu bragði get ég nefnt fjóra mikilvæga áfanga sem komu málaflokknum á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar á þessum tíma:
Desember 2000 - Samþykkt að tillögu minni að gera "úttekt á þeim úrræðum, sem borgaryfirvöld hafa tiltæk til að draga úr loftmengun í Reykjavík. "
Febrúar 2001 - Umhverfisstefna Reykjavíkur - staðardagskrá 21, samþykkt í Borgarstjórn með afar metnaðarfullum áherslum í loftgæðamálum "Reykjavík verði sú höfuðborg þar sem minnst loftmengun mælist í heiminum."
Maí 2001 - "Tillögur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar" lagðar fram í borgarstjórn - framhald samþykktarinnar hér að ofan. Meðal tillagana voru stórauknar mælingar (sbr. hér að neðan) og að kannaðir yrðu möguleikar á gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja.
Sept 2001 - Undirritaður samningur milli Hollustuverndar ríkisins og Reykjavíkurborgar um stórauknar loftgæðamælingar, fjárfestingar í mælitækjum og áframhaldandi samstarf um rannsóknir og upplýsingagjöf til almennings. Með samningnum var Íslandi gert kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um þessi mál.
Fljótlega eftir þetta urðu rauntímaupplýsingar úr loftgæðamælingum aðgengilegar almenningi í gegnum Umhverfisvef borgarinnar sem settur var upp og hafa verið það æ síðan.
Ég leyfi mér því að fullyrða að á þessum tíma hafi orðið þáttaskil í áherslum Reykjavíkurborgar í þessum málaflokki og í stað hirðuleysis sem Mogginn reynir að klína á borgina, hefur hún æ síðan leitt umræður, rannsóknir og aðgerðir í loftgæðamálum á Íslandi.
Mogginn veður því þykkan gulan reyk í þessu máli.
Pælum í því !
Borgin hirti ekki um mengun við leikskóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 12:41
Fá stúlkurnar ekki afsökunarbeiðni líka ?
Loksins einhverjar aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem hægt er að fagna. Enn er þó enginn tilbúinn til að axla ábyrgð og hver vísar á annann.
Ég trúi því hinsvegar ekki fyrr en ég tek á því að Geir Haarde ætli að láta orð sín um stúlkurnar í Byrginu standa - fá þær virkilega ekki afsökunarbeiðni frá forsætisráðherranum ?
Í mínum huga segir það allt sem segja þarf um hug ríkisstjórnarinnar og ábyrgðartilfinningu í þessu máli.
Pælum í því !
Áfallateymi vegna Byrgisins og Breiðavíkur taka strax til starfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2007 | 21:44
Kaldar kveðjur Geirs !
Maður skilur æ betur hversvegna ímyndarfræðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ráðlagt Geir Haarde að halda sig sem mest frá kastljósi fjölmiðlanna. Ég taldi í einfeldni minni að hugmyndin væri að skapa eftirspurn, líkt og Davíð sagði forsætisráðherrum hollt á sinni tíð, en ástæðan er önnur - hugarheimur forsætisráðherrans þolir einfaldlega ílla dagsins ljós.
Kvenfyrirlitningin, dómgreindarbresturinn og hrokinn er hreint ótrúlegur !
Hvert er t.d. innlegg forsætisráðherrans í þá áfallahjálp sem þolendur kynferðisofbeldisins í Byrginu þurfa nú á að halda :
"auðvitað er erfitt að fullyrða að stúlkurnar hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eða var..."
Þeir sem ekki trúa (og þeir hljóta að vera margir) geta einfaldlega horft á viðtal Egils Helgasonar við Geir Haarde í Silfri Egils sl. sunnudag.
Pælum í því !
Geðsvið Landspítalans opnað fyrir fyrrum skjólstæðinga Byrgisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2007 | 15:27
Guðrún Pétursdóttir klýfur Sjálfstæðisflokkinn !
Það var afar athyglisvert að fylgjast með Silfri Egils í dag. Veslings nýpólitíkusinn Bjarni Harðar, sem er vanastur því að geta komið í þáttinn og talað án ábyrgðar, sat einn undir þríeinni sókn "stjórnarandstöðunnar" og reyndi á sama tíma að virka "grænn" og "gagnrýninn" eins og venjulega - algerlega vonlaus staða fyrir Bjarna og ábyggilega lífsreynsla út af fyrir sig.
Félagi Össur fór hamförum og Lilja frænka líka og ekki komst hnífurinn á milli þeirra. Mikið vildi ég að hennar frjálslyndu viðhorf yrðu sterkari innan VG - þá myndi ekkert geta stöðvað framsókn stjórnarandstöðunnar í komandi kosningum !
En tiðindi þáttarins voru hinsvegar málflutningur Guðrúnar Pétursdóttur - fyrrverandi forsetaframbjóðanda og varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hún beinlínis hjólaði í Sjálfstæðisflokkinn og formann hans og skipaði sér kyrfilega á bekk með stjórnarandstöðunni. Skipbrot Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum var henni sérstaklega hugleikið og vegna þess boðaði hún brotthvarf sitt úr flokknum. Hún gaf þeim reyndar einn séns, en sagði síðan í beinu framhaldi að hún hefði ekki mikla trú á því að hann yrði nýttur.
Ég spái því að Guðrún Pétursdóttir verði ásamt Ómari og Margréti í forystu hins nýja umhverfisvæna hægri flokks sem brátt mun líta dagsins ljós. Ég spái því jafnframt að hægri flokkurinn nýi muni höggva verulega í raðir Sjálfstæðisflokksins, enda eru lausatökin á flokknum sífellt að verða ljósari þeim sem á horfa. Gleymum því ekki að Davíðsarmurinn er enn í sárum eftir hreinsanir Geirs í forystunni að undanförnu ekki síst vegna brottreksturs Kjartans og niðurlægingu Björns í prófkjörinu. Þessi hópur mun ekki gráta klofning eða kosningaskell í fyrstu kosningum Geirs. Reyndar ýjaði Björn að slikum afleiðingum strax eftir tapið í prófkjörinu.
Guðrún Pétursdóttir hefur hingað til verið innvígður fulltrúi þessa hóps. Skyldi nú vera komið að skuldadögum ?
Pælum í því !
Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2007 | 23:40
Minnisvarði um merkan innflytjanda
Það er ekki að spyrja að stórhug Björgólfs Thors - 600 milljónir í borgarsjóð og aðrar 200 til að endurbæta eitt fegursta hús miðbæjarins og glæða það lífi. Ekki síður finnst mér það vel til fundið að ætla húsinu það hlutverk að halda á lofti minningu og ævintýralegum ferli langafa Björgólfs, Thors Jensen en fá athafnaskáld íslensk hafa átt ævintýralegri feril í viðskiptum, nema ef vera skildu þeir feðgar, Björgóflur Thor og Björgólfur Guðmundsson.
Ævi og afrek Thors eiga mikið erindi til Íslendinga nútímans að mínu viti. Ekki bara vegna þeirrar þrautseigju, útsjónarsemi, stórhugs og framsýni sem hann sýndi í atvinnurekstri sínum, heldur ekki síður vegna uppruna hans og þess félagslega þanka sem var honum leiðarljós. Thor Jensen kom nefnilega til Íslands sem slippur og snauður Dani og varð á endanum, þrátt fyrir boðaföll og brotsjói, ríkasti maður Íslands. Hann lagði grunn að atvinnuuppbygginu landsins á sinni tíð og óhætt er að fullyrða að atvinnuvegir og þjóðfélagið allt hefðu þróast með öðrum hætti ef hans hefði ekki notið við.
Um þetta allt og arfleifð Thors má annars lesa í skemmtilegri bók Guðmundar Magnússonar, Thorsararnir og ætti sú bók að vera skyldulesning öllum þeim sem hyggja á frama í atvinnulífinu.
En ef "Frjálslyndiflokkurinn" hefði verið við völd á tímum Thors, hefðu þeir sjálfsagt vísað honum úr landi og öllum hans "útlensku" áhrifum.
Pælum í því !
Varanleg sýning, fundarsalir og gestaíbúð að Fríkirkjuvegi 11 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.2.2007 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 12:36
Leyndin skaðar !
Ég held að stjórnendur Wall-Mart ættu að taka samkeppnisaðila sinn úr matvörugeiranum, Whole Food Markets til fyrirmyndar og opna bókhaldið uppá gátt. Ef satt reynist að ekki sé verið að brjóta á konum, ætti óveðrinu að linna og sátt að skapast innan fyrirtækisins. Það getur amk ekki verið fyrirtækinu til hagsbóta að viðhalda innri átökum sem þessum.
Eða eins og stofnandi og aðalstjórnandi WFM orðar það:
...one of the great things about taking the salaries and wages and putting them in the light of day is that if there is any unjustice og unfairness, it gets discovered.(John Mackey CEO and co-founder of WFM).
Enn ein rökin fyrir því að afnema launaleynd á Íslandi.
Pælum í því !
Lögsækja má Wal-Mart fyrir kynjamismunun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2007 | 17:37
Enn um launamun kynjanna
Það urðu talsverðar umræður á fundi Femínistafélagsins og MBA námsins sem haldinn var í dag um 4 af tillögum nemenda um hvernig mætti minnka launamun kynjanna.
Fyrsta tillagan sem var kynnt gerði ráð fyrir stofnun Jafnréttiseftirlits í stað núverandi Jafnréttisstofu og að hin nýja eftirlitsstofnun myndi vinna með svipuðum hætti og Samkeppniseftirlitið vinnur í dag. Jafnréttiseftirlitið á þannig að hafa frumkvæðisskyldu og möguleika á mun harðari aðgerðum gagnvart þeim fyrirtækjum sem brjóta gegn jafnréttislögum heldur en Jafnréttisstofa hefur í dag. Hópurinn taldi hinsvegar ekki þörf á að breyta jafnréttislögunum að öðru leiti.
Önnur tillagan gerði ráð fyrir því að árlega myndi VR útnefna Jafnréttisfyrirtæki ársins. Útnefningin myndi byggjast á fjórum þáttum: Formlegu skipulagi í jafnréttismálum, upplifun starfsmanna á framistöðu fyrirtækisins í jafnréttismálum, því svigrúmi sem fyrirtækið veitti starfsfólki sínu til fjölskyldulífs og fjölda kvenna í stjórnunarstöðum. Hugmyndafræði tillögunnar byggir á því að umræða innan fyrirtækisins og sú jákvæða ímynd sem í útnefningunni myndi fylgja, myndi leiða til jákvæðrar þróunnar í þessum efnum.
Þriðja tillagan var unnin af mínum hóp og gerði ráð fyrir því að launaleynd yrði afnumin með lögum, þannig að allir starfsmenn sem hefðu unnið í amk eitt ár hjá sama launagreiðanda, fengju amk árlega upplýsingar um laun allra sem störfuðu hjá sama launagreiðanda. Jafnréttisstofu yrði falið eftirlitshlutverk með lögunum og fengju heimildir til beitingu dagsekta, allt að 20% af ársveltu viðkomandi fyrirtækis, þar til brotunum myndi linna. Hugmyndafræði tillögunnar gerir ráð fyrir því að núverandi lög um bann við launamismunun á grundvelli kynferðis dugi, almenningsálitið sé alfarið gegn kynbundinni launamismunun en það sem uppá vanti sé að brotin verði persónugerð - verði af holdi og blóði en ekki nafnlausar tölur í skýrslum. Um leið og laun allra innan sama fyrirtækis yrðu ljós gætu menn borið sig saman og "glæpurinn" þannig koma í ljós. Allir myndu í framhaldinu leita leiða til að koma í veg fyrir kynbundna mismunun - bæði launagreiðandi og launþegar.
Eitt helsta tromp hópsins var að benda á að eitt af framsæknustu smásölufyrirtækjum Bandaríkjanna, Whole Food Markets hefur um árabil starfað með opið launabókhald og lítur á það sem eitt af sínu mikilvægasta samkeppnisforskoti. Aðferðafræðin eyði tortryggni innan fyrirtækisins og gefi starfsmönnum þess skýr skilaboð um til hvers sé ætlast, enda sé umbunað fyrir slíkt í launakerfinu.
Fjórða tillagan fjallaði um að upplýsingar um launakjör í atvinnulífinu yrði mikilvægur hluti af námsráðgjöf HÍ. Þannig yrði umræða um launamun starfsstétta háværari og einnig er líklegt að upplýsingarnar myndu stýra námsvali nemenda, bæði kvenna og karla, í átt til hærri launa.
Ýmsar vangaveltur komu fram í umræðunum sem fylgdu, jafnvel um það hvort kynbundin launamunur væri raunverulega til staðar, en almennt voru fundargestir ánægðir með tillögurnar. Ekki síst lýstu fundarmenn ánægju sinni með að þessar tillögur kæmu frá MBA nemum, enda væru þeir vafalaust í hópi stjónenda framtíðarinnar.
Þeir sem vilja kynna sér verkefnið um afnám launaleyndar geta fundið það hér í heilu lagi. Næsta verkefni er væntanlega að koma sér í stöðu til að framkvæma tillöguna !
Pælum í því !
Bloggar | Breytt 7.2.2007 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)