Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig minnkum við launamun kynjanna ?

1004376 Í haust ákvað ég að skella mér í MBA nám við Háskóla Íslands og tekst þar á við fræðin með frábærum kennurum og samnemendum sem koma úr öllum áttum samfélagsins. Ótrúlega fjölbreyttur og skemmtilegur hópur sem hefur reynt sitt af hverju.

Eitt af verkefnum okkar sl. mánuði hefur verið að vinna tillögur til að minnka kynbundin launamun á Íslandi, en einsog við þekkjum virðist okkur lítið ganga í þeim efnum. Þrátt fyrir framsækna löggjöf sem bannar mismunum á grundvelli kynferðis og víðtæka samfélagssátt um að slík mismunun sé ólíðandi virðist það staðreynd að uþb. 15% af launamun kynjanna megi rekja til kynferðis eins og sér.

Þriðjudaginn 6. febrúar mun MBA námið og Feministafélagið standa fyrir opnum fundi, þar sem 4 af þeim 8 tillögum sem MBA hóparnir unnu, verða kynntar og ræddar. Fundurinn sem verður í Öskju, stofu 132 er öllum opinn og hefst kl. 16.30.

Minn hópur leggur til að launaleynd verði afnumin með lögum hér á landi, enda er það sannfæring okkar að þar ekki síst, standi hnífurinn í kúnni. Ég ætla ekki að upplýsa frekar um innihald eða röksemdir okkar fyrir tillögunni á þessu stigi en hvet alla áhugasama um málefnið til að fjölmenna á fundinn.

Hvað finnst okkur annars um tillögu sem þessa ?

Pælum í því !

 

 


Barnaníð í skjóli hæstaréttar !

Fá brot valda manni eins miklum hryllingi og viðbjóð eins og kynferðisbrot gagnvart börnum. Mannvonskan eða sjúkleikinn sem býr að baki slíkum brotum er manni einfaldlega óskiljanlegur.

Ég verð ekki var við annað, hvorki í mínu umhverfi né almennri umræðu í þjóðfélaginu en að um þetta séu menn almennt sammála. Barnaníð sé meinsemd sem ekkert réttlæti og berjast eigi gegn með öllum tiltækum ráðum.

Dómur hæstaréttar sem gerir sér sérstakt far um að milda annars væga refsingu yfir stórtækum barnaníðingi er því í raun atlaga að siðferðisvitund þjóðarinnar. Í stað þess nýta refsirammann til fulls og taka þannig þátt í baráttunni gegn barnaníði, kýs þessi æðsta stofnun réttarkerfisins að reynast skjól fyrir barnaníðinga en ekki fórnarlamba þeirra. Framganga hæstaréttar er ófyrirgefanlegt hneyksli !

Nú er tímabært að þjóðin láti öll í sér heyra. Uppsláttur Morgunblaðsins er til fyrirmyndar og hvatning Hrafns Jökulssonar um bréfaskriftir til hæstaréttar sömuleiðis. Lesið pistil Hrafns og skrifið í kjölfarið !

Ef við gerum ekkert, þá getum við tæplega ætlast til að nokkuð breytist. Við berum öll ábyrgð.

Pælum í því !


mbl.is Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ver VG umhverfið ?

Það verður óneitanlega forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála í átökum umhverfissinna og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ um framtíð útivistarsvæðisins í Álafosskvos. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki mikið um málið fyrr en Bryndís Schram og Sigurrósardrengirnir birtust grátandi í fjölmiðlum og lögðust fyrir gröfurnar með íslenska fánann í hönd. Sviðsmynd sem undanfarin misseri hefur birst okkur æ oftar í tengslum við stjóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Það sem er óvenjulegt við myndina núna er hinsvegar það, að gröfunum stýrir VG í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, en ekki Framsóknarflokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eins og við erum vön í öðrum átökum umhverfisverndarsinna við framkvæmdaglöð yfirvöld.

Nú reynir því á hversu djúpt umhverfisástin ristir hjá VG þegar komið er í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. VG hefur ítrekað haldið því fram að þeir einir flokka láti umhverfið alltaf njóta vafans og á altari þess hefur samstarfi við Samfylkinguna verið hafnað bæði í Reykjavíkurlistanum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem VG kaus frekar að styðja Sjálfstæðisflokkin til valda.

Lætur VG umhverfið njóta vafans í Álafosskvos, eða verða gröfurnar ræstar á ný ?

 Pælum í því !

 


mbl.is Bærinn óskaði eftir því að vinnuvélar yrðu fluttar úr Álafosskvosinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoltur af Ólafi Ragnari !

Óskaplega er dapurlegt að fylgjast með nöldri ríkisstjórnaraflanna (Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins) vegna setu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta vors í Þróunarráði Indlands.

Maður hefði haldið að allir gætu fagnað af einlægni þegar einum okkar bestu bræðra er sýndur sá heiður og virðing að óska eftir framlagi hans til sjálfbærrar þróunar eins mikilvægasta hagvaxtarsvæðis heimsins. Þróunar sem mun ráða örlögum milljóna einstaklinga og hafa víðtæk áhrif á umhverfismál,  efnahagsmál og stjórnmál um allan heim á komandi árum og áratugum.   

 

Mér er nær að ætla að sjaldan eða aldrei hafi Íslendingi gefist tækifæri til að leggja lóð sitt á vogarskálar alþjóðamála með eins mikilsverðum hætti og Ólafi Ragnari gefst nú kostur á enda er vöxtur indverska hagkerfisins og sú iðnbylting sem þar á sér stað með slíkum ólíkindum að áhrifa hennar mun gæta um allan heim – líka hér á litla Íslandi.   

 

Um leið og ég harma smásálarskap ríkisstjórnaraflanna í þessari sókn að forsetanum dáist ég að framsýni og kjarki Indverja að setja á laggirnar ráð sem þetta og kalla þar til leiks þá aðila sem hafa á vettvangi alþjóðamála verið að beita sér fyrir hagsmunum heimbyggðarinnar allrar – bæði í loftslagsmálum (eins og Ólafur Ragnar hefur gert),  í baráttunni gegn fátækt (eins og Jeffrey D. Sachs hefur gert) og réttlæti í heimsviðskiptum (eins og Bjorn Stigsson hefur gert) , svo einhverjir af ráðsmeðlimunum séu nefndir. Þetta sýnir að Indverjar taka hlutverk sitt og ábyrgð í alþjóðasamfélaginu alvarlega og að þeir ætla sér að hafa sjálfbæra þróun í öndvegi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem framundan eru. Íslendingar gætu án efa talsvert af þeim lært í þessum efnum.  

 

Ríkisstjórnaröflin tala hinsvegar um þróunarráðið eins og einhverskonar útflutningsráð fyrir Indland og ýja að hagsmunaárekstrum vegna setu Ólafs Ragnars í ráðinu – hvílík della og röfl !! 

 Mikið vildi ég óska að þátttaka Ólafs Ragnars í Þróunarráði Indlands markaði vatnaskil í aðkomu Íslands að alþjóðamálum. Að framvegis yrði Ísland hluti af þeirri vaxandi sveit sem beitti sér af alefli fyrir umhverfismálum, friði, sanngjörnum leikreglum í viðskiptum og  síðast en ekki síst, bættum kjörum þeirra 1.100 milljóna einstaklinga sem búa við örbirgð í þeim löndum sem enn hafa ekki notið þeirrar iðnbyltingar sem við höfum gert.

Ég þóttist reyndar merkja slíka tóna úr Utanríkisráðuneytinu eftir að Valgerður tók þar við völdum – að nú ætti að leggja aukna áherslu á þróunarsamvinnu, friðargæslu og hjálparstörf ýmiskonar og gagnrýnislaus fylgisspekt við Bush í herleiðingu hans um heimsbyggðina væri á enda runnin.  

 

Nú er amk lag Valgerður – Ólafur Ragnar hefur reist íslenska flaggið á ný !  

 

Pælum í því !
mbl.is Embættið og persónan eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband