Færsluflokkur: Bloggar

Amen á eftir efni Viðskiptaráðs

Það er ekki á hverjum degi sem undirritaður getur leyft sér að gera afstöðu Viðskiptaráðs alfarið að sinni. Sú stund samstöðu er hinsvegar runnin upp það ég best fæ séð.

Rétt fyrir hádegi sendi Viðskiptaráð frá sér "skoðun" sína og leyfi ég mér að birta hana hér í heild:

Traust til stjórnsýslu, stjórnvalda og Alþingis hefur beðið talsverða hnekki í því umróti sem fylgt hefur falli bankanna. Ein birtingarmynd þessarar stöðu voru háværar kröfur um gagngerar breytingar innan ríkisstjórnar og ákveðinna stofnana hins opinbera. Þessi afstaða kom skýrt fram hjá aðildarfélögum Viðskiptaráðs í nýlegri viðhorfskönnun, en um 9 af hverjum 10 aðildarfélögum töldu nauðsynlegt að stokka upp í ríkisstjórn og gera mannabreytingar hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd. Ríkjandi vantraust undanfarinna vikna og mánaða hefur komið í veg fyrir skjóta og skilvirka ákvarðanatöku og hefur staðið nauðsynlegu uppbyggingarstarfi fyrir þrifum.

Eins og þekkt er þá hafa talsverðar breytingar þegar orðið í þessum efnum þar sem ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og ýmsir embættismenn horfið frá störfum. Til viðbótar hefur verið boðað til Alþingiskosninga nú í vor. Með þessu má gera ráð fyrir að öldur vantrausts og tortryggni lægi tímabundið en hér skiptir þó öllu að ekki sé tjaldað til einnar nætur. Nýta þarf tímann fram að kosningum til að leggja grunn að endurreisn hagkerfisins og fylgja þeirri vinnu eftir með markvissum hætti í kjölfar kosninga, hver sem niðurstaða þeirra verður. Sá grunnur verður ekki lagður nema þingheimur sameinist um aðgerðir sem miða að því að um starfsemi hins opinbera ríki víðtækt traust. Þetta traust verður að ríkja jafnt gagnvart sitjandi ríkisstjórn hverju sinni sem og öðrum fulltrúum hins opinbera, s.s. stjórnar Fjármálaeftirlitsins, stjórnar Seðlabankans, stjórnenda ríkisbankanna og annarra embættismanna.

Á tímum sem þessum er því mikilvægt að huga að leiðum til að styrkja almennt traust til stjórnsýslu, óháð því hvar menn standa í pólitík. Stjórnvöld og embættismenn ættu að sýna gott fordæmi með því að láta flokkadrætti og pólitískan hégóma víkja fyrir þjóðarhagsmunum og leggja alla áherslu á að veita góðum og mikilvægum verkefnum brautargengi fram að kosningum. Skjótar aðgerðir í átt að endurreisn atvinnulífs, stöðugra atvinnustigi, bættum hag heimila, markvissri upplýsingagjöf og virku samstarfi við erlenda aðila eru stoðirnar sem endurvakið traust mun byggja á. Vinnubrögð þurfa að einkennast af heiðarleika, gagnsæi, upplýsingagjöf og samvinnu.

Að mínu mati er hér um mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðuna og ég get heils hugar tekið undir hvert orð.

Pælum í því !


mbl.is Þarf að hugsa málið upp á nýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið og Stöð2 falla í gildru

Fyrsta jafnréttisþingið í samræmi við nýsamþykkt jafnréttislög var haldið með pompi og prakt í gær. Hátt í 500 manns skunduðu til þingsins og áttu áhugaverðar og gefandi umræður. Ýmsir töluðu um tímamót í jafnréttisbaráttunni en það verður sagan að leiða í ljós hvort satt reynist.

Nú bregður svo við að einstaklingur að nafni Ólafur Hannesson ákveður að senda út ályktun í nafni Jafnréttindafélags Íslands þar sem fram koma ýmsar fullyrðingar og skoðanir um ræðu félags- og tryggingamálaráðherra og jafnréttismálin almennt.

Tveir af stærstu fjölmiðlum landsins, Morgunblaðið og Stöð2 falla í gildruna, gleypa við innihaldi ályktunarinnar og gera henni álíka hátt undir höfði í miðlum sínum og hinu 500 manna lögbundna þingi og ávarpi ráðherra.

Staðreyndin er hinsvegar sú að svo virðist sem Jafnréttindafélag Íslands sé í raun ekki til !

Á bak við ályktunina virðast því standa einn eða tveir menn sem að því er virðist hafa ekki einusinni mætt til jafnréttisþingsins, lögboðins samræðu- og stefnumótunarvettvangs þeirra sem vilja gera sig gildandi í jafnréttisumræðunni. Þvílík fréttamennska !

Ætli miðlarnir sjá sóma sinn í að biðja lesendur sína afsökunar á þessum vinnubrögðum ?

Pælum í því !


mbl.is Segja félagsmálaráðherra ekki skilja hugtakið jafnrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningur hjá hagsmunasamtökum lífeyrisþega

Athyglisvert er að hagsmunasamtök lífeyrisþega virðast bregðast við framkomnum fjárlagatillögum, með allt öðrum og jákvæðari hætti en forseti ASÍ. Hagmunaaðilarnir sjálfir virðast sýna mun meiri skilning á aðstæðunum.

Halldór Sævar formaður Öryrkjabandalagsins segir öryrkja ekki fara halloka í frétt á Smugunni og segir greinilega viðleitni til að verja hina verst settu birtast í frumvarpinu. 

Tillögur félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna fjárlaga næsta árs fá góða einkunn hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Bætur almannatrygginga hækka úr 150 þúsund krónum í 180 eða um 19,9 prósent fyrir þá sem lægstar bætur hafa.

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandlagsins segir að greinileg viðleitni sé til þess í félags- og tryggingamálum að verja velferðina. „Ég hefði viljað sjá meira lagt í velferðarmálin í góðærinu, en miðað við stöðu þjóðfélagsins nú förum við ekki halloka í þessu frumvarpi.

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara ályktaði einnig í dag um framkomnar tillögur og hveður þar við svipaðan tón. Ríkur skilningur á erfiðri stöðu efnahagsmála virðist ríkjandi.

Framkvæmdastjórn LEB lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem íslenskt samfélag er komið í um þessar mundir.

Landssambandið gerir sér grein fyrir þeim mikla vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Jafnframt leggur framkvæmdastjórnin ríka áherslu á, að sambandið hefur háð harða baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara og sú barátta hefur aldrei verið brýnni en nú.

Framkvæmdastjórnin skorar á stjórnvöld að hlutur ellilífeyrisþega verði í engu skertur frá því sem nú er og að staðið verði við öll þau loforð um kjarabætur sem taka gildi 1. janúar 2009.

Ætli fari ekki best á því að hver hagsmunahópur tali fyrir sig í þessum efnum.

Pælum í því !


mbl.is ASÍ segir hátekjuskatt lagðan á ellilífeyrisþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli forseta ASÍ

Hann sparar ekki stóryrðinn forseti ASÍ í umfjöllun sinni um fjárlögin. Ég skil hinsvegar ekki hvað honum gengur til enda virðist orðaflaumurinn í litlu samhengi við innihald fjárlaganna, amk hvað varðar hag hinna verst settu.

Samhvæmt fjárlagafrumvarpinu munu allar bætur lífeyrisþega hækka um 9.6% um áramótin og hið sama mun eiga við um frítekjumörk og viðmið sem lúta að útreikningi bótanna. Umrædd hækkun mun bæta að fullu þróun verðlags yfirstandandi árs og veita talsverða viðspyrnu inní það næsta, m.v. fyrirliggjandi spár. Líklegt er þó að einhver kjaraskerðing eigi sér stað vegna efnahagsástandsins meðal lífeyrisþega sem ekki njóta lágmarksbóta.

Þá liggur það fyrir að fyrirheit um hækkun persónuafsláttar munu ganga eftir og hækkun skatta mun því fyrst og fremst bitna á þeim sem hafa hærri tekjurnar. Þeir sem eru með lægstu tekjurnar munu borga minna í skatt á næsta ári heldur en í ár, ef fjárlagafrumvarpið mun ganga eftir og auk þess njóta hærri barnabóta og vaxtabóta eigi það við.

Það sem skiptir hinsvegar mestu máli, og Gylfi virðist algerlega líta framhjá, er að lágmarksframfærslutrygging lífeyrisþega mun hækka um 19,9% um áramótin og fara úr 150.000 í 180.000 ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt. Um fjórðungur lífeyrisþega mun njóta umræddrar tryggingar ef af líkum lætur.

Í desember 2007 voru lægstu tekjur lífeyrisþega ríflega 126 þús hjá einstæðingum og ríflega 103 þús hjá sambúðarfólki og því munu tekjur þessa hóps, sem verst stendur í samfélaginu hækka um ríflega 50 þúsund á einu ári, um hátt í 50% !

Hvernig í ósköpunum getur forseti ASÍ haldið því fram að ráðist sé að öldruðum og öryrkjum sem verst standa í ljósi staðreyndanna ?

Á sama tíma mun davinnutekjutrygging launþega hjá ASÍ, hækkað úr 125 þús í 157 þús, eða um 25,6%. Samanburður lægstu tekna lífeyrisþega og lægstu taxta hjá ASÍ hefur ekki verið lífeyrisþegum hagfeldari í annan tíma - amk ekki svo lengi sem mínar tölur sýna.

Öllum sanngjörnum mönnum hlýtur því að vera ljóst að með fyrirliggjandi fjárlögum er ríkisstjórnin að gera sér sérstakt far um standa vörð um kjör hinna verst settu. Ég  átti satt best að segja von á því að því myndi talsmaður ASÍ fagna.

Formaður Öryrkjabandalagsins kemst enda að allt annari niðurstöðu og hrósar ríkisstjórninni fyrir að verja velferðina og öryrkja í erfiðu ástandi.

Pælum í því !


mbl.is Endurskoðun samninga frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skylduáhorf um húsnæðis- og lánamál

Það hefur ekki verið neinn skortur á skyndilausnum á vanda fólks með húsnæðislán í umræðunni að undanförnu. Frysting eða afnám verðtryggingar, yfirfærsla í evrur á gömlu gengi og nú síðast "hættum að borga".

Ég hef áður fjallað um afleiðingar þess að afnema eða frysta verðtryggingu og hef ekki séð neitt í umræðunni síðan sem breytt hefur þeim skoðunum mínum. Ef eithvað er hefur óvænt styrking krónunnar eflt mig í þeirri trú að verðbólguskotið verði ekki eins kröftugt og svartsýnustu spámenn hafa óttast og því verði vandi þeirra sem hafa verðtryggð lán ekki eins mikill og vænta mátti. Fari svo ættu þegar kynnt úrræði ríkisstjórnarinnar, greiðslujöfnun, aukin greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs og frysting gengislána að koma til móts við flesta sem sjá framá fjárhagsþrengingar næstu misserin eða árin.

Við Magnús Stefánsson fyrrum félagsmálaráðherra ræddum þessi mál í Kastljósi um daginn og má nálgast þann þátt á meðfylgjandi krækju.

En síðustu daga hafa sprottið upp einstaklingar sem mæla með því að fólk hætti að borga af lánum sínum og boða að í því felist lausn. Um þetta var fjallað á faglegan og málefnalegan hátt í Kastljósi í gær. Það liggur við að ég geti gert þá umfjöllun í heild að mínum sjónarmiðum og legg til að allir gefi sér stund til að horfa á þáttinn. Eitt besta sjónvarpsefni um þessi mál í langan tíma. Hann má nálgast á meðfylgjandi krækju.

En etv tekur óvænt styrking krónunnar af okkur ómakið í þessum efnum og verðbólgan verður komin í skaplegt horf í byrjun ársins. Það væri nú sannarlega ánægjuleg áramótagjöf til þjóðarinnar.

Pælum í því !

 


mbl.is Krónan styrkist áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegar aðgerðir eða efnahagslegar skottulækningar

Þeir sem ætla að nýta sér greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána í desember, samhvæmt nýsamþykktu frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, þurfa að sækja um úrræðið hjá sinni lánastofnun eigi síðar en 25. nóvember.

Ég óttast að fjöldi heimila fari á mis við þetta mikilvæga úrræði vegna ómálefnalegrar umfjöllunar og yfirboða. Sjálfskipaðir "talsmenn fólksins" fara nú mikinn í fjölmiðlum, boða alls kyns skyndilausnir um afnám verðtryggingar, frystingu verðtryggingar, yfirfærslu húsnæðislána í Evrur eða niðurfellingu skulda að hluta eða heild.

Þessir aðilar eiga það sameiginlegt auk skyndilausnanna að þurfa ekki með nokkrum hætti að standa ábyrgir gerða sinna hvað umfjöllunarefnið áhrærir.

Sem betur fer segi ég. Úrræði þeirra eru efnahagslegar skottulækningar.

Öll úrræði skottulæknanna ganga í raun út á eitt og hið sama. Að greiða niður skuldir þeirra húsnæðiseigenda sem á undanförnum árum hafa valið verðtryggð lán í stað annarra leiða. Ég segi "valið" vegna þess að flestir þessara aðila hefðu getað valið gengisbundin lán eða óverðtryggð lán en völdu þau ekki.

Þeir sem völdu verðtrygginguna völdu enda rétt. Undanfarna hartnær tvo áratugi hafa raunvextir á verðtryggðum lánum verið talsvert lægri en á óverðtryggðum. Þó nú syrti í álinn timabundið er ólíklegt að sú staðreynd muni breytast. Óverðtryggðir vextir eru í dag rúmlega 20% og slík vaxtakjör myndu bjóðast almenningi ef ekki væri um verðtrygginguna að ræða.

Lántakendur hafa því hagnast á verðtryggingunni undanfarna áratugi og gera það enn.

En afnám eða frysting á verðtryggingu við núverandi aðstæður hefur einnig aðra hlið og síðri. Samhvæmt niðurstöðum sérfræðingahóps sem félags- og tryggingamálaráðherra fékk til að yfirfara þá möguleika sem í stöðunni eru varðandi verðtrygginguna, myndi frysting hennar í eitt ár kosta eigendur verðtryggðra fasteignaveðlána uþb 180 milljarða króna. Mest myndi falla á Íbúðalánasjóð og nýju ríkisbankana en lífeyrissjóðirnir myndu einnig tapa miklu.

Það segir sig sjálft og er óumdeilt ef menn taka yfirhöfuð rökum, að slík ákvörðun myndi sliga Íbúðalánasjóð og fjármálakerfið ef ekki kæmi til sambærilegt framlag frá ríkissjóði. Aðgerðin myndi því annað tveggja leiða til endaloka fjármálakerfisins eða stórfelldrar skattahækkunar.

Þar með myndu byrðarnar sem skottulæknarnir lofa að létta af skuldsettum heimilum landsins leggjast með sama þunga á þjóðina, en nú alla skattgreiðendur í stað þeirra sem eiga þó eignirnar sem lánin voru nýtt í að kaupa.

Verðtryggingin eða skuldirnar hverfa nefnilega ekki og einhver mun greiða þær.

Greiðslujöfnun er leið sem er klæðskerasniðin að þeim aðstæðum sem íslenska þjóðin stendur nú í.

Greiðslujöfnun tryggir að misgengi launa og lána verði forðað og greiðslubyrði heimilanna vegna verðtryggðra fasteignaveðlána lækki í dýpsta dal hagsveiflunnar. Þegar landið fer að rísa á ný greiða menn mismuninn til baka, ekki þannig að einhvert "frestunarhögg" ríði af, heldur í samræmi við hækkandi kaupmátt og þannig aukna möguleika hemilanna til að greiða meira.

Reyndar er það svo að greiðslujöfnunarleiðin lækkar greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána meira en frysting eða afnmám verðtryggingar myndi gera á næstu misserum. Greiðslujöfnunin nýtist því betur ef markmiðið er að tryggja að heimilin í landinu nái að halda í húseignir sínar þegar þrengist að.

Pælum í því !

 


mbl.is Greiðslujöfnun líklegt til að þyngja greiðslubyrði síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysisbætur bæti lækkað starfshlutfall - leið gegn fjöldaatvinnuleysi

Fjöldi fyrirtækja horfist nú í augu við þann veruleika að þurfa að minnka umsvif sín vegna þeirra efnahagsþrenginga sem þjóðin gengur í gegnum. Hefðbundnar leiðir fyrirtækja í slíku ástandi eru að fækka starfsfólki og/eða lækka laun en hvorutveggja eru afleitir kostir, ekki síður fyrir fyrirtækin en einstaklingana sem fyrir aðgerðunum verða. Mannauður tapast, starfsandinn drabbast niður og uppbyggingin verður erfiðari þegar birta tekur á ný.

Nú hefur félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir tekið uppá sína arma, hugmyndir aðila vinnumarkaðarins um breytt lagaumhverfi atvinnuleysisbóta sem myndi opna nýja og betri leið til mæta þörf fyrirtækjanna til samdráttar.

Hugmyndin gengur út á það að í stað þess að segja starfsfólki upp eða lækka við það launin yrði samið um lækkað starfshlutfall og á móti myndi atvinnuleysistryggingasjóður greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur vegna þess starfshlutfalls sem sagt yrði upp. Launþeginn myndi þannig halda stærstum hluta tekna sinna hjá fyrirtækinu en atvinnuleysisbæturnar myndu dekka allt að 70% af því sem uppá myndi vanta.

Ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 50% myndi launþeginn halda 85% af fyrri launum sínum í allt að 6 mánuði en ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 75% myndi launþeginn halda 92,5% af fyrri launum í allt að 12 mánuði. Dæmin eru auðvitað háð því að laun viðkomandi hafi ekki verið hærri en reglur atvinnuleysistryggingarsjóðs gera ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr sjónum verði. Í dag er sú fjárhæð 220.729 kr. á mánuði.

Nánar má lesa um tillögur þessar á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að þessi leið gæti auðveldað mörgum fyrirtækjum og einstaklingum að halda sjó í gegnum þrengingarnar sem framundan eru. Fjöldi einstaklinga sem ella yrði sagt upp gætu haldið tengslum við sinn vinnustað, haldið stærstum hluta tekna sinna og nýtt þann tíma sem lækkað starfshlutfall myndi skapa til annarra hluta - annarra tekjuleiða, náms, fjölskyldusamveru, tómstunda eða annað. Fyrirtækin gætu náð markmiðum sínum um minni umsvif án þess að glata mannauði sínum og væru betur í stakk búin til að eflast á ný þegar tækifærin bjóðast.

Löggjöf vegna þessa verður kynnt í ríkisstjórn og á alþingi á næstu dögum og því ættu öll fyrirtæki sem huga nú að því að rifa seglin að geta nýtt sér þetta úrræði á næstu mánuðum. Þessi leið gæti forðað okkur frá fjöldaatvinnuleysi ef allir leggjast á eitt. Í öllu falli mun hún vinna verulega gegn því ef hún verður nýtt.

Pælum í því !


mbl.is Bjóða lægra starfshlutfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirboði um Evru ?

Forferður okkar og mæður hefðu nú ekki verið í vandræðum með að lesa skilaboð frá almættinu úr ljósagangi sem þessum. Í morgunútvarpi Bylgjunar voru menn strax komnir á svipaðar þjóðlegar slóðir, veltu fyrir sér hvort hér væri um geimverur að ræða, komnar til að liðsinna þjóð í nauðum.

Ég er á því að þetta hafi verið fyrirboði um endalok peningastefnunnar. Hún leysist upp í frumeindir sínar fyrir allra augum. Gott ef þetta var ekki íslenska krónan sem þarna fuðraði upp - sbr greiningin á málminum.

Vaxtahækkun dagsins staðfestir þetta. 100% viðsnúningur frá vaxtalækkun sem tilkynnt var fyrir nokkrum dögum. Upphaf nýs tímabils sem vonandi ber með sér vöxt, framfarir og hamingju eftir skammvinnt tímabil þrenginga. Ætli Evran taki ekki við...

Ég er viss um að áar okkar Íslendinga hefðu orðið sammála hagfræðingum IMF um að nú værum við komin á rétta braut, eftir að hafa séð ljósagang gærdagsins.

Pælum í því !


mbl.is Litríkt loftsteinahrap á himni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni alltaf góður !

Formaður Framsóknarflokksins lætur ekki óhagstæða niðurstöðu í skoðanakönnun slá sig út af laginu frekar en annað. Hann á í mínum huga athugasemd dagins - ef ekki ársins, þegar hann í frétt á visi.is brást við með þessum hætti.

„Þetta er ekki marktæk skoðanakönnun en í henni liggja þó mikil tíðindi" 

Pælum í því !


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KB - Karlabankinn !

Ýmsir hafa talað um að hrun bankakerfisins á Íslandi kallaði á endurmat á þeim gildum sem ráðið hafa ríkjum innan fjármálakerfisins. Menn hafa talað um að hin karllægu gildi yrðu að víkja, tími ofurlaunanna, áhættunnar og græðginnar væri liðinn. Nú yrðu konurnar að taka við - ábyrgðin, samhjálpin og jafnræðið.

Eithvað takmarkað af þessari umræðu virðist hafa borist til eyrna nýrra stjórnenda Kaupþings banka.

Þeir birtu nýtt skipurit í dag.

Bankastjórinn er karl. Stjórnarformaðurinn er karl. Níu af tíu æðstu stjórnendum eru karlar.

Þá virðast laun bankastjórans þau hæstu hjá ríkinu og stjórnarformaðurinn heldur því fram að slík laun séu nauðsynleg til að einhver hæfur einstaklingur fáist til að takast á hendur svo ábyrgðarmikið og erfitt starf.

Ég verð að viðurkenna að allt þetta hljómar í mínum eyrum eins og ómur fortíðar. Bergmál liðins tíma sem bíður þess eins að deyja út.

KB banki byrjar ekki vel!

Ætli konur þessa lands séu ánægðar með kveðjuna sem þær fengu frá KarlaBankanum á þessum góða degi, kvennafrídeginum?

Pælum í því !


mbl.is Vöxtur síðustu þriggja ára horfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband