Atvinnuleysisbætur bæti lækkað starfshlutfall - leið gegn fjöldaatvinnuleysi

Fjöldi fyrirtækja horfist nú í augu við þann veruleika að þurfa að minnka umsvif sín vegna þeirra efnahagsþrenginga sem þjóðin gengur í gegnum. Hefðbundnar leiðir fyrirtækja í slíku ástandi eru að fækka starfsfólki og/eða lækka laun en hvorutveggja eru afleitir kostir, ekki síður fyrir fyrirtækin en einstaklingana sem fyrir aðgerðunum verða. Mannauður tapast, starfsandinn drabbast niður og uppbyggingin verður erfiðari þegar birta tekur á ný.

Nú hefur félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir tekið uppá sína arma, hugmyndir aðila vinnumarkaðarins um breytt lagaumhverfi atvinnuleysisbóta sem myndi opna nýja og betri leið til mæta þörf fyrirtækjanna til samdráttar.

Hugmyndin gengur út á það að í stað þess að segja starfsfólki upp eða lækka við það launin yrði samið um lækkað starfshlutfall og á móti myndi atvinnuleysistryggingasjóður greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur vegna þess starfshlutfalls sem sagt yrði upp. Launþeginn myndi þannig halda stærstum hluta tekna sinna hjá fyrirtækinu en atvinnuleysisbæturnar myndu dekka allt að 70% af því sem uppá myndi vanta.

Ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 50% myndi launþeginn halda 85% af fyrri launum sínum í allt að 6 mánuði en ef starfshlutfallið yrði lækkað úr 100% í 75% myndi launþeginn halda 92,5% af fyrri launum í allt að 12 mánuði. Dæmin eru auðvitað háð því að laun viðkomandi hafi ekki verið hærri en reglur atvinnuleysistryggingarsjóðs gera ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr sjónum verði. Í dag er sú fjárhæð 220.729 kr. á mánuði.

Nánar má lesa um tillögur þessar á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að þessi leið gæti auðveldað mörgum fyrirtækjum og einstaklingum að halda sjó í gegnum þrengingarnar sem framundan eru. Fjöldi einstaklinga sem ella yrði sagt upp gætu haldið tengslum við sinn vinnustað, haldið stærstum hluta tekna sinna og nýtt þann tíma sem lækkað starfshlutfall myndi skapa til annarra hluta - annarra tekjuleiða, náms, fjölskyldusamveru, tómstunda eða annað. Fyrirtækin gætu náð markmiðum sínum um minni umsvif án þess að glata mannauði sínum og væru betur í stakk búin til að eflast á ný þegar tækifærin bjóðast.

Löggjöf vegna þessa verður kynnt í ríkisstjórn og á alþingi á næstu dögum og því ættu öll fyrirtæki sem huga nú að því að rifa seglin að geta nýtt sér þetta úrræði á næstu mánuðum. Þessi leið gæti forðað okkur frá fjöldaatvinnuleysi ef allir leggjast á eitt. Í öllu falli mun hún vinna verulega gegn því ef hún verður nýtt.

Pælum í því !


mbl.is Bjóða lægra starfshlutfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Var búin að heyra um þetta og það er illskásti kostuirnn fyrir marga. Þetta þarf hins vegar að gerast hratt, uppsagnirnar eru að eiga sér stað núna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.10.2008 kl. 00:57

2 identicon

Þetta er flott í þessu leiðinda ástandi.Annars trúi ég því að þetta ástand verði ekki lengi.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 09:08

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þú talar um að menn geti nýtt tíman í nám. Er ekki rétt að menn missa atvinnuleysisbætur ef menn fara í meira en sex vikna nám? Ef svo er eru á einhverjar hugmyndir uppi um að breyta þeirri reglu?

Sigurður M Grétarsson, 30.10.2008 kl. 13:00

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Hrannar.

Ég held að þessi leið sé af hinu góða og því fyrr því betra sem þetta getur náð fram að ganga.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.11.2008 kl. 01:13

5 identicon

Þetta er góð leið til að allir, eða sem flestir hafi einhverja vinnu.

Ég læt mér það lynda að vera öryki, þó vilji til vinnu sé fyrir hendi og einhver vinnugeta

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 11:42

6 Smámynd: Calvín

Vel unnið í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Hins vegar varar Calvín við þeim ,,kreppuhugsunarhætti" sem er farinn að einkenna umræðuna og hefur smitast inn í ráðuneytin. Ríkisvaldið á ekki að halda að sér höndum á þessum tíma heldur keppast við að halda öllum gangandi og ráðast í framkvæmdir. Af hverju? Jú, ef ríkið sjálft dregur sig inn í skel og treystir sér ekki í nauðsynlegar framkvæmdir þá er þetta búið. Það eru röng skilaboð. Það verður að þreyja þorrann. Þessi aðgerð ríkisvaldsins er jákvætt innlegg og ber að fagna.

Calvín, 1.11.2008 kl. 13:16

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ég er sammála því að þetta er jákvætt skref og vonandi að, sem flestir atvinnurekendur fari þá leið að lækka frekar starfshlutfall en að segja upp fólki. Í því efni þurfa opinberir aðliar eins og ríki og sveitafélög að reyna eins og hægt er að fara á undan með góðu fordæmi. Það gætu þau gert þannig að ráða tvo starfsmenn í 50% starf fyrir hvert starf, sem losnar. Einnig væri hægt að setja það, sem skilyrði í útboðum fyrir verk á vegum þessara aðila að hluti starafa verði með slíku starfshlutfalli.

Ég er einnig sammála Calvin að ríki og sveitafélög eiga nú að vera með eins miklar framkvæmdir og mögulegt er að afla fjár fyrir. Þannig er ekki bara verið að halda uppi atvinnustigi heldur er einfaldlega ódýrara að gera þetta þegar ástandið er svona heldur en þegar full vinna er til staðar. Reyndar held ég að nú sé rétti tíminn til að sinna viðhaldsframkvæmdum enda þær almennt mannaflsfrekari en nýbyggingar auk þess, sem viðhaldsverkefni hafa að talsverðu leyti legið á hakanum síðustu ár enda skortur á mannafla til slíkra framkvæmda verið mikill.

Sigurður M Grétarsson, 2.11.2008 kl. 10:52

8 Smámynd: Andrés Jónsson

Ánægður með þessar tillögur. Við þurfum að rifja hratt upp hvernig atvinnuleysi virkar. Þar fylgja margvísleg félagsleg vandamál en einmitt líka þekkingarleki, með því að fólk fær ekki verkefni við hæfi.

Ég er persónulega með hugann við svona starfsnám eða internsship eins og er algengt víða.

Andrés Jónsson, 3.11.2008 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband