Færsluflokkur: Bloggar

Forsætisráðherra og fjölmiðlar

Forsætisráðherrar eiga aldrei frí. Samt er það svo að í flestum öðrum löndum en á Íslandi er viðurkennt að þeir eigi rétt á að taka sér frí, a.m.k. einhvern hluta af venjulegum sumarleyfistíma. Það eru hins vegar engir venjulegir tímar á Íslandi og ráðherrar jafnt sem þingmenn hafa verið í nánast stöðugri vinnulotu síðan í október á sl. ári. Um núverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur gildir þetta reyndar um undanfarin rúm tvö ár. Það mætti því teljast eðlilegt að skilningur væri á því að forsætisráðherra væri utan Stjórnarráðsins nokkra dagparta í september til þess að safna kröftum fyrir þingbyrjun 1. október og veturinn sem allir vita að verður annasamur og erfiður. Því er ekki að heilsa eins og við sjáum í fjölmiðlum þessa dagana.  

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur undanfarna 7 mánuði leitt ríkisstjórnarsamstarf tveggja ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri Grænna á einhverjum erfiðustu og kröfuhörðustu tímum sem íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tíma starfað á. Afköst og árangur ríkisstjórnarinnar þennan tíma er án nokkurs vafa meiri en nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í lýðveldissögunni. Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi. 

Á sama tíma ríkir einhugur og samstaða í Samfylkingunni og er flokkurinn óumdeild kjölfesta íslenskra stjórnmála eftir glæsilegan kosningasigur flokksins undir forystu Jóhönnu. 

Hver forsætisráðherra hefur sitt eigið verklag eins og dæmin sanna. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gengið lengra í valddreifingu og samráði innan sinnar ríkisstjórnar en flestir forverar hennar. Sú staðreynd ætti enda að blasa við að tími forsætisráðherra er afar dýrmætur og verkefnum hans þarf því að forgangsraða. Forsætisráðherra svarar fyrir störf ríkisstjórnarinnar í heild. Í því felst að sjá til þess að þau verk sem stjórnin setur sér og henni eru falin af Alþingi nái fram að ganga. Ráðherrar stjórnarinnar fylgja eftir sínum sérsviðum og svara fyrir þau á opinberum vettvangi. 

Gagnrýnt er að forsætisráðherra sé ekki nægilega á tali við fulltrúa erlenda fjölmiðla. Það er að sönnu ekki efst í forgangsröð ráðherrans en þar með er ekki sagt að erlent fjölmiðlafólk sé vanrækt af ríkisstjórninni.  Þeir erlendu blaðamenn sem Morgunblaðið hefur til að mynda leitt fram á síðum sínum hafa fengið og tekið viðtöl við ráðherra í ríkisstjórninni og ekki annað vitað en að þeir hafi fengið umbeðin svör svikalaust.  

Aðgengi að ráðamönnum á Íslandi er almennt heldur gott miðað við það sem annarsstaðar þekkist. Þegar litið er til baka verður ekki komist hjá því að álykta að núverandi forsætisráðherra gefi forverum sínum í embætti ekkert eftir þegar kemur að sýnileika og virkum samskiptum við fjölmiðla. Af þessu tilefni er rétt að undirstrika að forsætisráðherra hefur undantekningalítið haldið 1-2 fundi með íslenskum blaðamönnum í hverri viku undanfarna sjö mánuði. Á sama tíma hefur forsætisráðherra haldið fjóra fjölmenna blaðmannafundi með erlendum fjölmiðlum auk ýmissa annarra samskipta við erlenda fjölmiðla. 

Undanfarinn hálfan mánuð hefur ekkert frést af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Á meðan er endurtekið kvartað yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé ekki nógu sýnileg þótt haldnir hafi verið tveir blaðamannafundir eftir ríkisstjórnarfundi í sl. viku. Stef af þessu tagi, þegar menn þykjast ekki sjá það sem gert er, eru kunnugleg úr pólitískri  umræðu og þurfa því ekki að koma á óvart. Fólk getur velt því fyrir sér hvaða tilgangi það þjónar að hamra sífellt á því að forsætisráðherra sé ekki að sinna verkum sínum. 

Þrjátíu ára ferill í stjórnmálum hefur sýnt að Jóhanna Sigurðardóttir vinnur sleitulaust í þágu almennings í landinu þótt það sé ekki alltaf í kastljósi fjölmiðla. Hún kann að stíga fram á réttum tíma með sinn boðskap. Þann tíma velur hún sjálf en hvorki fjölmiðlar né andstæðingar í stjórnmálum.

Pælum í því !
mbl.is Fóru ekki tómhentir heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánshæfismati Íslands bjargað ?

Upphrópanirnar, gífuryrðin og öfugmælin sem höfð eru uppi í umræðunni um Icesave-samkomulagið eru með miklum ólíkindum. Er ástandið í þjóðfélaginu virkilega orðið þannig að það sé hægt að segja hvað sem er án þess að vera krafinn raka fyrir stóryrðunum ?

Hvernig í ósköpunum geta menn t.d. fundið það út að lánshæfismati Íslands sé stefnt í voða með gerð samkomulagsins um Icesave ? Sömu menn leggja reyndar sumir til að Ísland lýsi því yfir að það muni ekki greiða skuldir sínar, en þar með yrði lánshæfismat Íslands að sjáfsögðu ekkert. Ég hef ekki séð fjölmiðla elta undarlega röksemdafærslu þessara manna.

En óttist einhverjir í raun að samkomulagið um Icesave hafi neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands, þá bið ég þá að hugleiða eftirfarandi:

a) Það er ekkert sem gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við IMF og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir.

b) Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt.

c) Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla.

d) Samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við. Það ætti ótvírætt að bæta lánshæfismat ríkisins að búið er að tryggja þetta.

e) Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar.

f) Reynsla annarra ríkja af fjármálakreppum gefur ekki ástæðu til annars en að ætla að samdráttur vegna þeirra geti orðið djúpur en snarpur og að ekki taki mörg ár að ná aftur upp hagvexti. Engin ástæða er til annars en að ætla að það verði einnig raunin hér, þótt hrun íslenska fjármálakerfisins hafi verið verra en flest fordæmin. Þegar við náum vopnum okkar aftur búa Íslendingar að sama mannauði, sömu innviðum og náttúruauðlindum og áður en fjármálakreppan skall á. Ekki er ástæða til annars en að ætla að okkur takist að nýta þetta sem fyrr til að halda uppi blómlegu efnahagslífi sem skilar góðum lífskjörum til almennings og verulegum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga.

g) Langtímahorfur eru því ágætar og lánshæfismat íslenska ríkisins mun endurspegla það þegar um hægist og mestu óvissunni hefur verið eytt. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.

 Allt tal um að samkomulagið um IceSave hafi neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands virkar því á mig eins og öfugmælavísa af verstu sort, ekki síst þegar slíkt tal kemur frá einstaklingum sem bera ekki meiri umhyggju fyrir lánshæfismati Íslands en svo, að þeir vilja að það lýsi því yfir að það muni ekki greiða skuldir sínar. Slík yfirlýsing myndi á augabraði tryggja að lánshæfismat Íslands yðri að engu !

Pælum í því !


mbl.is Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lykiláfangar í efnahagsáætlun stjórnvalda að nást

Ég má til með að deila með ykkur meðfylgjandi texta, en hann lýsir afar vel þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru á vettvangi stjórnvalda:

Ríkisstjórnin, ásamt fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga, vinnur ötullega að því að ná lykilaföngum í þeirri ítarlegu áætlun um efnahagslega endurreisn sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar samkvæmt samstarfsyfirlýsingu.

Þeir áfangar sem verið að ljúka nú í sumar eru eftirfarandi:

  • Samningar við Breta og Hollendinga um uppgjör Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna lágmarksábyrgða á sparifé í erlendum útibúum íslensku bankanna liggja fyrir.
  • Lánasamningur við vinaþjóðir okkar vegna eflingar gjaldeyrisvaraforðans til viðbótar við lánsloforð Alþjóðagjaldeyrissjósins eru á lokastigi.
  • Áætlun um endurheimt jafnvægi í ríkisfjármálum verður lögð fram þar sem annars vegar er farið yfir aðgerðir á árinu 2009 og hins vegar hvernig unnið verður ár frá ári fram til 2013.
  • Uppgjör milli nýju og gömlu bankanna og endurfjármögnun hins endurreista bankakerfis á þeim grunni lykur á næstu vikum.
  • Stöðugleikasáttmáli aðila á vinnumarkaði er í burðarliðnum þar sem tryggður er friður á vinnumarkaði og unnið gegn atvinnuleysi.
  • Í júlí verður efnahagsáætlunin endurskoðuð í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, mat lagt á framvindu og næsti áfangi útgreiðslu á gjaldeyrisláni AGS fer fram.

Í raun eru þetta stærstu áfangarnir í áætluninni og skilgreind markmið þeirra eru að skapa grundvöll fyrir stöðugra gengi krónunnar, fyrstu áföngunum í afnámi gjaldeyrishaftanna og mun hraðari lækkun stýrivaxta í takt við lækkandi verðbólgu.

Jöfnuður vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd er jákvæður sem styður við stöðugra gengi krónunnar. Þá styrkir gengið samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina og íslenskrar framleiðslu á kostnað innflutnings. Þetta ásamt sóknarstefnu í atvinnumálum, samstarfi við aðila vinnumarkaðar og meðhöndlun endurreistra banka á skuldavanda fyrirtækja mun leggja grunn að því að atvinna aukist á ný.

Sagan sýnir að viðsnúningurinn tekur tíma en flestum ber saman um að sveigjanleiki íslenska hagkerfisins og aðlögunarhæfni, auk menntaðs vinnuafls, öflugra lífeyrissjóða og endurnýjanlegra orkuauðlinda, leggi grunninn að því að við munum komast tiltölulega hratt út úr samdráttarskeiðinu svo framarlega sem við höldum stefnunni og grípum ekki til neinna dýrkeyptra örþrifaráða.

Pælum í því !


Þá og nú...

Fyrir um 6 mánuðum síðan samþykkti Alþingi að fara samningaleiðina við lausn Icesave deilunnar. Þá flutti Bjarni Benediktsson fína ræðu og tíundaði rökin fyrir þeirri leið sem valin var - leið sem nú hefur verið leidd til lykta með betri niðurstöðu en flestir þorðu að spá fyrir um eða vona.

Í ræðu sinni sagði Bjarni m.a. þetta:

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin, en eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag? Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.

Ræðu Bjarna má lesa í heild á vef Alþingis.

Ég leyfi mér að óska Íslendingum til hamingju með þann mikilvæga áfanga sem nú hefur náðst til lausnar Icesave deilunni og þann mikilvæga áfanga sem sú lausn felur í sér fyrir endurreisn íslensks efnahags. Icesave málið í heild er og verður svæsið hundsbit fyrir þjóðina en nú getur sárið loks byrjað að gróa.

Pælum í því !


mbl.is Öll óvissa á kostnað Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Flest loforðin efnd"

Ég má til með að gefa Jónasi Kristjánssyni orðið í tilefni af óþolinmæli Sigmundar Davíðs. Jónas hittir oft naglann á höfuðið. Þessa færslu setti hann inn á jonas.is þann 28.03.2009:

Flest loforðin efnd

Borgarahreyfingin telur, að Samfylkingin og vinstri grænir svíki frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing og persónukjör. Hún telur, að stjórnin hefði átt að fylgja því fastar eftir. Hefði átt að hafna lögfræðiáliti skrifstofu Alþingis um, að tvo þriðju hluta atkvæða þyrfti. Mér finnst hins vegar flokkarnir hafa fylgt málinu fram á yztu nöf í tímahraki. Mér finnst líklegt, að málin verði samþykkt, þegar nýtt þing kemur saman með tilskildum meirihluta. Ríkisstjórnin hefur staðið við flest loforð, sem hún gaf. Tími uppgjörs við fortíðina er hafinn og tími endurreisnar er jafnframt hafinn.

Svo mörg voru þau orð (undirstrikanir mínar) - Jónas hefur lög að mæla.

Pælum í því !


mbl.is Þolinmæði framsóknarmanna þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markvissar aðgerðir fyrir skuldsett heimili

Forsætisráðherra hefur boðað að Alþingi verði ekki frestað, fyrr en þau mikilvægu mál sem ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leiti og lúta að aðgerðum til að styðja við skuldsett heimili, verði samþykkt. Undir þetta hyllir nú og líklega munu þau öll í höfn í næstu viku.

Meðfylgjandi yfirlit sýnir svo ekki verður um villst að aðgerðir stjórnvalda er margvíslegar og markvissar að því leiti, að þær ættu að nýtast öllum skuldsettum heimilum, hverju með sínum hætti.

Aðgerðirnar eru á sama tíma ábyrgar, enda ljóst að ríkisstjóður hefur hvorki svigrúm né bolmagn til að greiða fyrir óábyrgar skyndilausnir þar sem öllum er lofað gulli og grænum skógum - óháð raunverulegum vanda viðkomandi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings skuldsettum heimilum eru annars þessar:

 
  1. Skuldajöfnun verðtryggðra lána – 10-20% lægri greiðslubyrði en ella
  2. Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána – 40-50% lægri greiðslubyrði
  3. 25% hækun vaxtabóta – hjón með 3-8 milljóna árstekjur hækka um rúm 170 þús, úr 314 þús í 487 þús á ári.
  4. Útgeiðsla séreignasparnaðar – milljón á einstakling, tvær milljónir á hjón
  5. Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs stórefld og samkomulag gert við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig.
    1. Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður
    2. Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár.
    3. Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.
    4. Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir
  6. Greiðsluaðlögun samningskrafna
  7. Lækkun dráttavaxta
  8. Skuldfærsla barnabóta uppí skattaskuldir bönnuð
  9. Skuldfærsla hverskonar inneigna hjá ríkinu uppí afborganir Íbúðalánasjóðs afnumdar
  10. Frestun nauðungaruppboða fram til loka ágúst
  11. Lenging aðfarafresta úr 15 dögum í 40
  12. Aukin stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota
  13. Greiðsluaðlögun fasteingaveðlána
  14. Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.

Með ofangreindum aðgerðum hefur ríkisstjórnin slegið skjaldborg um heimilin í landinu og lagt traustan grunn að endurreisn þeirra sem lenda í vanda, samhliða batnandi efnahag lands og þjóðar.

Pælum í því !


mbl.is Hafnar flatri niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferskleiki og jafnræði kynja á listum Samfylkingar

Þá hefur Samfylkingin lokið prófkjörum sínum í öllum kjördæmum. Niðurstaðan um efstu sætin liggur fyrir og ljóst að mikil endurnýjun hefur átt sér stað og konur verulega styrkt stöðu sína í forystusveit flokksins. Mér er til efs að svo stór flokkur hafi áður gengið í gegnum eins mikla endurnýjun í aðdraganda kosninga í annan tíma.

Ef horft er til 30 efstu sætanna á listum SF 2007 og sömu sæta samhvæmt niðurstöðum prófkjöranna eru fimmtán nýir að koma inn í forystusveitina. Þetta er rúmur helmingur hópsins (53%) og er þá ekki liltið til þess að enn fleiri hafa aðeins verið í forystusveitinni í tvö ár - komu nýir inn við síðustu kosningar.

Ef aðeins er litið til þeirra 18 sæta sem síðast gáfu þingsæti eru sjö þingmenn algerlega nýir og tveir til viðbótar hófu sinn þingmannsferil fyrir tveimur árum.

En hvernig skyldi kynjabókhaldið líta út ?

Eftir síðustu kosningar voru tólf karlar og sex konur í þingflokki SF. Hlutfall kynjanna var því 67/33 körlunum í hag. Verði úrslit komandi kosninga eins fyrir Samfylkinguna og sömu þingsæti falli henni í skaut, munu níu konur skipa þingflokkinn og níu karlar. Yrði það niðurstaðan yrði það í fyrsta sinn í íslandssögunni sem svo fjölmennur þingflokkur hefði á að skipa jöfnu hlutfalli kynja.

Mér sýnist því óhætt að fullyrða að krafan dagsins um endurnýjun og aukin hlut kvenna hafi endurspeglast vel í úrslitum prófkjara Samfylkingarinnar. Þau hafa skilað Samfylkingunni öflugum liðstyrk nýrra félagsmanna og sú félagslega virkni sem einkennt hefur þjóðfélagið undanfarin misseri hefur fundið sér farveg innan hreyfingar jafnaðarmanna. Sú staðreynd er í góðu samræmi við vaxandi fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum.

Nú þarf Samfylkingin að kjósa sér öflugan formann og varaformann, halda áfram að brillera í ríkisstjórn og þá eru henni allir vegir færir í næstu kosningum. Ætli hennar tími sé kominn ?

Pælum í því !

 

 


Fréttablað Sjálfstæðisflokksins

Þorsteinn Pálsson missir sig æ oftar sem ritstjóri Fréttablaðsins í hið pólitíska hlutverk og hagsmunagæslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Leiðari Þorsteins í dag (14.03.2009) er afar skýrt dæmi um þetta. Staðreyndum snúið á haus í þeim tilgangi að koma höggi á forsætisráðherra - smellpassar í hernaðarplan Sjálfstæðisflokksins enda er Þorsteinn greinilega diggur liðsmaður þess flokks hér eftir sem hingað til.

Það er bull að fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hamli inngöngu í Evrópusambandið eins og Þorsteinn heldur fram - þvert á móti auðvelda þær inngöngu.

Það er bull að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta á Alþingi eins og Þorsteinn heldur fram - núverandi stjórn er minnihlutastjórn.

Það er bull að forsætisráðherra gefi misvísandi skilaboð um vilja sinn í peningamálum eins og Þorsteinn heldur fram - hann er mjög skýr : ESB og Evra.

Það verður æ skýrara að með Þorstein Pálsson í ritstjórastóli er það hinsvegar bull að Fréttablaðið geti talist óháð dagblað - það verður að lesast sem flokksmálgagn Sjálfstæðisflokksins - því miður.

Ætli það sé annars tilviljun að þegar Samfylkingin fellur um 2-3% í könnunum er í Fréttablaðinu talað um hrun eða dalandi fylgi en þegar hún vex um sömu stærðir er talað um engar fylgisbreytingar ?

Pælum í því !


Málþóf sjálfstæðismanna gegn lýðræðinu

Politískt innræti þingmanna Sjálfstæðisflokksins kemur berlega í ljós þessa dagana. Í fjölmiðlum kvarta þeir sáran yfir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar en í þingsölum berjast þeir með málþófi gegn framgangi mála sömu ríkisstjórnar.

Þetta telja þeir sig komast uppmeð og treysta bersýnilega á þöggun fjölmiðla á málinu. Þeirra menn enda á öllum póstum og yfirleitt dugar það langt í aðdraganda kosninga.

Í allan dag hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks raðað sér í ræðustólinn, flutt sömu ræðurnar með mismunandi orðalagi, lesið greinargerðir, minnisblöð og texta hvor eftir annan i samhengislausum orðaflaum. Þeir hafa meira að segja gengið svo langt að spyrja hvorn annan út úr um ræður hvors annars - eithvað sem ætti að eiga heima á þingflokksfundum sjálfstæðismanna en ekki í ræðustól Alþingis.

Ég hvet menn til að fylgjast með leikritinu á meðfylgjandi slóð: http://www.althingi.is/vefur/netvarp.html

Tilgangur Sjálfstæðismanna er að koma í veg fyrir að þau 39 þingmál sem ríkisstjórnin hefur samþykkt til umfjöllunar á Alþingi, nái fram að ganga.

Þeir vilja lýðræðisumbæturnar feigar.

Þeir vilja aðgerðir til bjargar heimilunum feigar.

Þeir vilja aðgerðir til að efla atvinnulífið feigar.

Sjálfstæðismönnum dugar ekki að ríkisstjórnarflokkarnir séu með minnihluta þingmanna á bak við sig og þurfa því á stuðningi annarra flokka að halda, heldur þurfa Sjálfstæðismenn að beita málþófi til að berjast gegn góðum málum ríkisstjórnarinnar.

Nú vantar ekki verkstjórnina hjá Sjálfstæðismönnum - þeir kunna til verka þegar þarf að drepa góð mál.

Pælum í því !


Geir hleypur ílla á sig - biðst vonandi afsökunar.

Óskaplega var dapurlegt að fylgjast með Geir H. Haarde á Alþingi í dag. Í æsingnum  og þránni til að koma höggi á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, grípur hann misskilið hálmstrá úr samskiptum sínum við fyrrum samstarfsfélag hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og vænir forsætisráðherra um ósannsögli um samskipti ráðuneytis hennar við  sjóðinn.

Hefði Geir nálgast málið með öðrum hætti en þeim, að vilja koma höggi á ríkisstjórnina hefði hann eflaust, eins og flestir aðrir áttað sig á því að fullyrðingar hans höfðu enga stoð í raunveruleikanum. Það er enda komið í ljós og höggið sem eignað var forsætisráðherra hittir hann harðast fyrir sjálfann.

Svofelld yfirlýsing var send frá forsætisráðuneytinu í kvöld:

Ljóst er að misskilnings gætir í túlkun Geirs H. Haarde, alþm., á samskiptum forsætisráðuneytisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem gerð voru að umtalsefni á Alþingi og í fjölmiðlum í dag.  Ef farið er yfir þessi samskipti virðist ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vísar í tölvupósti sínum til Geirs H. Haarde, dags. 12. febrúar sl., til endanlegrar umsagnar sjóðsins til forsætisráðuneytisins, sem birt var á heimasíðu forsætisráðuneytisins þann sama dag, þ.e. 12. febrúar sl. Þetta hefur nú fengist staðfest í símtali við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur hins vegar bent á að í fyrri ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var margítrekað að um þær gilti trúnaður, eins og skýrt kemur fram í tölvupóstsamskiptum forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú hafa verið birt opinberlega.

Nú þegar málið liggur ljóst fyrir verður forvitnilegt að sjá hvort Geir yðrast og biður forsætisráðherra afsökunar.

Í raun ætti þjóðin einnig skilið afsökunarbeiðni vegna málsins, enda er uppákoma þessi enn eitt byrtingarformið á ómálefnalegu háttarlagi þingmanna Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur. Þeim virðist enn sem komið er fyrirmunað að fjalla um raunverulega hagsmuni þjóðarinnar en hrópa og kalla um aukaatriði sem litlu breyta. Allt í þeim tilgangi að vekja ótta, óöryggi og vanlíðan hjá þjóðinni.  

Pælum í því !


mbl.is Tölvupóstsamskipti við gjaldeyrissjóðinn birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband