Raunverulegar aðgerðir eða efnahagslegar skottulækningar

Þeir sem ætla að nýta sér greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána í desember, samhvæmt nýsamþykktu frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, þurfa að sækja um úrræðið hjá sinni lánastofnun eigi síðar en 25. nóvember.

Ég óttast að fjöldi heimila fari á mis við þetta mikilvæga úrræði vegna ómálefnalegrar umfjöllunar og yfirboða. Sjálfskipaðir "talsmenn fólksins" fara nú mikinn í fjölmiðlum, boða alls kyns skyndilausnir um afnám verðtryggingar, frystingu verðtryggingar, yfirfærslu húsnæðislána í Evrur eða niðurfellingu skulda að hluta eða heild.

Þessir aðilar eiga það sameiginlegt auk skyndilausnanna að þurfa ekki með nokkrum hætti að standa ábyrgir gerða sinna hvað umfjöllunarefnið áhrærir.

Sem betur fer segi ég. Úrræði þeirra eru efnahagslegar skottulækningar.

Öll úrræði skottulæknanna ganga í raun út á eitt og hið sama. Að greiða niður skuldir þeirra húsnæðiseigenda sem á undanförnum árum hafa valið verðtryggð lán í stað annarra leiða. Ég segi "valið" vegna þess að flestir þessara aðila hefðu getað valið gengisbundin lán eða óverðtryggð lán en völdu þau ekki.

Þeir sem völdu verðtrygginguna völdu enda rétt. Undanfarna hartnær tvo áratugi hafa raunvextir á verðtryggðum lánum verið talsvert lægri en á óverðtryggðum. Þó nú syrti í álinn timabundið er ólíklegt að sú staðreynd muni breytast. Óverðtryggðir vextir eru í dag rúmlega 20% og slík vaxtakjör myndu bjóðast almenningi ef ekki væri um verðtrygginguna að ræða.

Lántakendur hafa því hagnast á verðtryggingunni undanfarna áratugi og gera það enn.

En afnám eða frysting á verðtryggingu við núverandi aðstæður hefur einnig aðra hlið og síðri. Samhvæmt niðurstöðum sérfræðingahóps sem félags- og tryggingamálaráðherra fékk til að yfirfara þá möguleika sem í stöðunni eru varðandi verðtrygginguna, myndi frysting hennar í eitt ár kosta eigendur verðtryggðra fasteignaveðlána uþb 180 milljarða króna. Mest myndi falla á Íbúðalánasjóð og nýju ríkisbankana en lífeyrissjóðirnir myndu einnig tapa miklu.

Það segir sig sjálft og er óumdeilt ef menn taka yfirhöfuð rökum, að slík ákvörðun myndi sliga Íbúðalánasjóð og fjármálakerfið ef ekki kæmi til sambærilegt framlag frá ríkissjóði. Aðgerðin myndi því annað tveggja leiða til endaloka fjármálakerfisins eða stórfelldrar skattahækkunar.

Þar með myndu byrðarnar sem skottulæknarnir lofa að létta af skuldsettum heimilum landsins leggjast með sama þunga á þjóðina, en nú alla skattgreiðendur í stað þeirra sem eiga þó eignirnar sem lánin voru nýtt í að kaupa.

Verðtryggingin eða skuldirnar hverfa nefnilega ekki og einhver mun greiða þær.

Greiðslujöfnun er leið sem er klæðskerasniðin að þeim aðstæðum sem íslenska þjóðin stendur nú í.

Greiðslujöfnun tryggir að misgengi launa og lána verði forðað og greiðslubyrði heimilanna vegna verðtryggðra fasteignaveðlána lækki í dýpsta dal hagsveiflunnar. Þegar landið fer að rísa á ný greiða menn mismuninn til baka, ekki þannig að einhvert "frestunarhögg" ríði af, heldur í samræmi við hækkandi kaupmátt og þannig aukna möguleika hemilanna til að greiða meira.

Reyndar er það svo að greiðslujöfnunarleiðin lækkar greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána meira en frysting eða afnmám verðtryggingar myndi gera á næstu misserum. Greiðslujöfnunin nýtist því betur ef markmiðið er að tryggja að heimilin í landinu nái að halda í húseignir sínar þegar þrengist að.

Pælum í því !

 


mbl.is Greiðslujöfnun líklegt til að þyngja greiðslubyrði síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir að skýra þetta Hrannar, ég ætla að sækja um þetta. kveðja

Sigurbjörg (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 19:29

2 identicon

Heyrirðu þig tala, Hrannar?

Ef valið stendur á milli

-verðtryggðs láns (verðtrygging plús x%) þar sem verðtrygging helst í hendur við launakjör í bestum allra heima ...

-myntkörfuláni þar sem krónan í frjálsu falli rústar fjárhag heimilisins

-óverðtryggðir 20% vextir

þá segi ég: Það er vitlaust gefið.

Það vantar fjórða kostinn sem takmarkar þá áhættu sem lántakandi tekur þegar náttúruöflin (=bankar og ríkisstjórnir) leika sér við hagkerfið og hækka stýrivexti, lækka krónuna og *prenta meiri peninga*. Það vantar möguleikann á að hafa vexti og verðbætur á ákveðnu, fyrirsjáanlegu og umsömdu bili.

Eins og málin standa þá fara heimilin fyrr á hausinn nú ef krónan fellur um 40, 50, 60% næsta ár eða meira, allt eftir því hvort meiri eða minni peningar (lánsfé IMF) fer úr landi þegar þeir sem geta koma sínu í skjól!

Pældu í því!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 23:31

3 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Ég heyri hátt og skýrt !

Við getum verið sammála um að krónan sé ónýt og á henni verði aldreí úr þessu byggt eðlilegt efnahagsumhverfi. Það þýðir hinsvegar ekki að aftengja eigi öll lögmál hagfræðinnar - þau gilda nú samt sem áður - hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Finndu fjármagn sem er til í að taka á sig verðbólguáhættu, útlánaáhættu og lága ávöxtun eða neikvæða - þá ertu komin með fjórðu leiðina sem þú biður um.

Kúba, Kína og Rússland voru sérfræðingar í þessu lengi....

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 00:10

4 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæll Gunnar

Ég sé ekki að ég tali um tímabundna hækkun á höfuðstóli vegna verðtryggingar. Verðtryggingin hækkar eða lækkar höfuðstólin í réttu samræmi við þróun verðlags í landinu. Ef við upplifum verðhjöðnun, eins og spáð er í næsta ári, mun höfuðstóll þessara verðtryggðu lána að sjálfsögðu lækka.

Það er ekkert bull !

bk

Hrannar

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 11:23

5 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæll aftur Gunnar.

Tilvitnunin í mig snýr að yfirburðum verðtryggðra lána, umfram önnur lánsform undanfarna tvo áratugi. Með hækkandi verðbólu má reikna með að það syrti í álinn varðandi þá yfirburði, tímabundið.

Ég átta mig vel á þeirri staðreynd að komi ekki til verðhjöðnunar, lækkar verðbótaþátturinn ekki höfuðstólinn. Til þess er leikurinn reyndar gerður - að tryggja höfuðstólinn gagnvart verðbólgu.

Viljir þú síðan efast um spár Seðlabankans um verðhjöðnun á síðast ársfjórðungi næsta árs, þá þú um það. Þannig spá þeir engu að síður.

Bestu kveðjur,

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 14:07

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Merkilegt hvað þeir sem styðja ríkisstjórnina er úrræðalausir í málflutningi sínum. Skottulæknar! Þetta er væntanlega nýjasta uppnefningin. Þeir sem eru ekki sammála eða vilja nýta sér málfrelsið eru uppnefnidir. Hrannar er þetta ekki svolítið barnalegt. Sjáður sóma þinn í að láta af svona málflutingi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 15:40

7 identicon

Verðtryggingin verndar lélega efnahagsstjórn!  Vegna verðtryggingar sem ýtir undir verðbólgu og getuleysi stjórnvalda til margra ára sitjum við uppi með úrræðið "verðtryggingu".  Við áttum ekki nógu mikla hugsuði á sínum tíma til að finna aðrar leiðir og því á bara að sitja við orðin hlut, eða hvað?    Átti ekki að gefa upp á nýtt á Íslandi?   Kvótakerfið er nú en einn glæpurinn ... auðlindir okkar voru gefnar í stað þess að nota í sameiginlega sjóði!  Nei það er á hreinu að jafnaðarmenn á Íslandi kunna ekki jöfnuð.  Þeir berjast ekki fyrir nýju lánafyrirkomulagi eða kynna sér með hvaða hætti nágrannaþjóðir okkar lána!  Ótrúlegt svo er hægt að vernda þá sem keyptu sér fáránlega dýra bíla með frumvarpi ríkisstjórnarinnar!  Greinilegt að  það vantar allt jarðsamband!  Ertu  í það minnsta sammála því Hrannar að það þurfi að breyta með hvaða hætti verðtrygging er reiknuð? 

Kveðja,

Elísabet

Elísabet (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 16:28

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Við eigum von á verðbólguskoti sem leggst við höfuðstól lána. Þótt breytt verði í evru eftir einhver ár mun unga fólkið eftir sem áður sitja uppi með þann skuldaklafa sem verið er að leggja á það núna. Hækkaður höfuðstóll er kominn til að vera hvort sem hann er borgaður í krónum eða evrum. Unga fólkið sem hefur keypt sér íbúðir eða stækkað við sig á undanförnum árum munu sitja upp með þennan skatt það sem eftir er ævinnar. Hvað réttlátt við þetta?

Allt tal um lausnir með evrópuaðil er blekking. Það er til merkis um máttleysi ríkisstjórnarinnar að vilja NÚ ganga til samninga við aðstæður sem markast af því að samningsforsendur eru afleitar fyrir Íslendinga.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 16:36

9 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Jakobína Ingunn - Ég hef reynt að útskýra í mínum pistlum hversvegna ég kalla úrræði eins og frystingu, afnám eða þak á verðtryggingu skottulækningu - hún læknar ekkert mein, færir það bara til á þjóðarlíkamanum. Slíkar samlíkingar hafa ekkert með það að gera að meina mönnum málfrelsi. Ég frábið mér slíkum dylgjum.

Halla - Sammála þér um ESB - það er í raun grunnurinn að niðurlagningu verðtryggingu að mínu mati. Úr þessu er borin von að einhver muni lána fjármuni í íslenskum krónum án þess að slík lán séu varin með verðtryggingu eða MJÖG háum vöxtum og tryggingum.

Umsóknarfresturinn er runninn út vegna desembergjalddagans enda þarf reiknistofnun bankanna að senda út greiðsluseðla strax eftir helgi. Þetta tekur allt sinn tíma í kerfinu.

Það stendur hinsvegar öllum opið að sækja um greiðslujöfnun áfram. Þeir sem sækja um fyrir 20. dag mánaðar fá jöfnunina inn næstu mánaðarmót á eftir. Síðan þarf ekki að sækja oftar um, nema menn vilji hætta í greiðslujöfnun. Það er líka hægt ef menn vilja.

Elísabet - Verðtryggingin breytist í samræmi við neyslugrunn þjóðarinnar - ég hef engar sérstakar athugasemdir við þann útreikning. Ég er hinsvegar sammála þér um það að tilurð verðtryggingarinnar má rekja til þess að hér hefur efnahagsstjórn verið frekar slöpp. Við íslendingar fundum reyndar ekki upp þessa aðferð - held að það hafi verið gert í einhverju suður-ameríkulandi.

Að síðustu vil ég undirstrika það, að við jafnaðarmenn erum líklega eini flokkurinn sem hefur bent á raunhæfa leið í því að afnema verðtryggingu og háa vexti á lánum. Sú leið liggur um stöðugra efnahagsumhverfi ESB. Við skulum vona að fleiri flokkar fari að hallast á þá sveif með okkur.

Bestu kveðjur,

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 17:10

10 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Grunnurinn að lánskjaravísitölunni er ekki endilega réttur. Það er hann sem þarf að skoða Hrannar. Ekki vísitöluna. Við sem lentum í misgenginu 1983 vitum hvað gerðist þá í um 100% verðbólgu.

Haraldur Bjarnason, 25.11.2008 kl. 17:51

11 identicon

Takk fyrir útskýringarnar Hrannar. Það er að mínu mati ekki beint verðtryggingin sem við erum á móti heldur ástandið.. Ég mundi til dæmis ekki vilja að innistæður barnanna minna á bankabókum væru óverðtryggðar. Það sem við þurfum er bara að ganga í ESB og fá stöðugan gjaldmiðil svo þetta rugl hætti. Ég skil ekki af hverju fólk hlustaði ekki á þau rök fyrr en allt var komið í óefni..

Hallbjörg Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 17:56

12 identicon

Tek undir þakkir Hallbjargar fyrir útskýringar. Ég skil að við erum í djúpum vanda og komumst ekki frá honum með góðu móti. Búið er að reyna gjaldþrota og kennitöluskiptileiðina í bankakerfinu. Búið er að fá loforð um lán sem eiga að hjálpa úr vandanum. En ég sé ekki að búið sé að tryggja að lánið haldist hérlendis og er hræddur um að þeir sem geta, muni taka með sér allt lauslegt til útlanda. Ég er líka hræddur um að þeir sem munu vera eftir til að greiða það sem stjórnmálaflokkar (líka Samfylkingin) vanræktu að gæta verðum við, almenningur. Sem munu upplifa hamfarir á komandi misserum sem Steinbeck og Remarque lýstu í sínum bókum um 1930 eða svo. Því langar mig að fá að vita nákvæmlega í hverju greiðslujöfnunarleið felst. Mig langar líka að vita hvernig innganga í ESB muni líta út og hvernig hún á að bjarga og hverju.

Þætti vænt um að fá nýjan pistil um það til pælingar!

carlos (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 19:01

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Innganga í ESB breytir engu um verðtrygginguna.

Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég sé á móti ESB inngöngu í sjálfu sér. Ég bara skil ekki af hverju það er verið að blekkja almenning með svona málflutningi.

Hrannar þú mátt útskýra hvernig innganga í ESB hefur áhrif á verðtrygginug. Ekki koma með skýringar sem tengjast gjaldmiðilsbreytingu því það er aðskilið mál. Gjaldmiðilsbreyting kemur sjálfkrafa við inngöngu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 19:39

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Síðasta setning á að vera:

Gjaldmiðilsbreyting kemur EKKI sjálfkrafa við inngöngu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 19:56

15 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæl og bestu þakkir fyrir þessar líflegu umræður. Svona á að nýta bloggið !

Það er hárrétt hjá Jakobínu Ingunni (JIÓ) að verðtryggingin hverfur ekki af sjónarsviðinu við það eitt að ganga í ESB. Hafi einhver skylið skrif mín þannig hef ég ekki talað nægilega skýrt. Það er einnig rétt hjá JIÓ að upptaka Evru er sjálfstæð ákvörðun óháð inngöngu. Ég hygg hinsvegar að upptaka Evrunnar séu ein veigamestu rökin fyrir inngöngu Íslands í ESB og þar með aðild að peningamálastefnu og efnahagslegum stöðugleika evrusvæðisins. Sú hefur amk verið stefna Samfylkingarinnar.

Ég átta mig ekki alveg á athugasemd Haraldar, þ.e. hvað í grunninum sé rangt, en hlusta með áhuga á slíkar ábendingar. Grunnurinn er endurmetinn amk árlega.

Spurningum Carlosara um Greiðslujöfnunina skal ég reyna að svara í nýjum pistli á næstum dögum, en evrópuumræðuna þætti mér vænt um að taka frekar í einhverju jólaboðinu :)

Þangað til pistillinn um greiðslujöfnunina kemur, læt ég duga að benda á meðfylgjandi slóð. Þar er þetta skýrt nokkuð vel.

http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4094

Bestu kveðjur,

Hrannar Björn Arnarsson, 25.11.2008 kl. 22:18

16 Smámynd: Karl Ólafsson

Nú skal ég taka undir það hér að greiðslujöfnunin kemur til með að hjálpa sumum yfir erfiðan hjalla, en um leið skulu menn gera sér grein fyrir því að um leið er mokað upp fjalli.

Tal um verðhjöðnun er hjóm eitt, ef menn gera sér vonir um að slíkt komi til með að vinna niður þetta fjall. Samkvæmt þjóðarhagfræði leitast stjórnvöld við að vinna gegn verðhjöðnun og líta á hana sem samdrátt ef hún stendur yfir í tvö hagtímabil, t.d. ársfjórðunga. Þá er spýtt í til að ná fram smá verðbólgu aftur og hagvexti.  Því er verðtryggingarfjallið sem við erum að moka upp í núna ekki tímabundið vandamál, við erum að ýta því á undan okkur til langrar framtíðar.

 Nú ætla ég að forðast að skrifa hér langa ritgerð til að andmæla rökum síðuhöðfundar með verðtryggingunni. Honum er frjálst að kynna sér mín mótrök á minni síðu. En tvennt vil ég gera athugasemd við í skrifum höfundar.

"Lántakendur hafa því hagnast á verðtryggingunni undanfarna áratugi og gera það enn."
Þetta er rétt svo langt sem það nær, en það þýðir ekki að ástandið hafi verið eðlilegt. Það er búið að reka þetta verðtryggingarkerfi sem bólukerfi í of langan tíma núna án þess að hleypt sé af því þrýstingi. Nú mun það gerast, með því að þúsundir munu missa heimili sín og bankar, lífeyrissjóðir og ILS munu sitja uppi með eignir þeirra. Þetta er engin bölsýn, þetta er bara eins og það er. Og hafa þessir aðilar sem sagt hagnast á verðtryggingunni? Þeim var talin trú um að þeir gætu fest kaup á húsnæði undir fjölskyldu sína með því að taka þessi lán. Það var bara ekki satt. Þetta fólk hafði ekki efni á því, en það hefði náttúrulega ekki heldur haft efni á því á 20% vöxtum. 20% vextir eru ekkert eðlilegt ástand heldur, ekki gleyma því. Ég mæli ekkert með skottulækningum og niðurfellingu skulda, en engu að síður erum við að sjá hundruðir milljarða afskrifaða hjá sumum, það má bara ekki minnast á þann möguleika að þessir sumir geti verið almenningur, húseigendur, smáfyrirtæki. Bara þessir stóru eins og bankarnir, auðmennirnir sem fengu milljarða án trygginga, bankastarfsfólk o.s.frv. Og svo eru menn hissa að það sjóði á mönnum. Og eitt enn, hvers konar vernd er það fyrir lánveitendur gegn verðbólgunni að fá í hendurnar húseignir sem standa ekki undir uppbólgnuðum lánum og ekki er hægt að selja næstu árin? Eina spurningin sem menn þurfa að svara í raun og veru er hversu marga Íslendinga erum við tilbúin til að missa úr landinu, óafturkræft?

Hitt atriðið er þetta:
"Við getum verið sammála um að krónan sé ónýt og á henni verði aldreí úr þessu byggt eðlilegt efnahagsumhverfi. Það þýðir hinsvegar ekki að aftengja eigi öll lögmál hagfræðinnar"

Hér erum við sammála hvað fyrri setninguna varðar. Ég held hins vegar að það séu vandfundnar hagfræðideildir úti í hinum stóra heimi sem fræða nemendur sína um kosti verðtryggingar. Verðtrygging spilar einmitt svo um munar á lögmál hagfræðinnar. Með henni eru búnir til peningar, sem ekki eru til fyrir í hagkerfinu, án þess að verðmæti myndist á móti. Það framkallar verðbólgu, skv. hagfræðinni. Mig grunar að hagfræði kenni mönnum líka ýmislegt um bólukerfi og hvernig þau springa, en svo virðist sem flestir sofi í þeim tímum.

Auðvitað varð úr þessu heil ritgerð hjá mér og biðst ég velvirðingar á því. Til mótvægis við rökstuðning síðuhöfundar hvet ég menn til að kynna sér ræðu Benedikts Sigurðarsonar á borgarafundinum í gær og ef ég má gerast svo frakkur að vísa líka í mínar vangaveltur um verðtrygginguna á http://karlol.blog.is

Karl Ólafsson, 25.11.2008 kl. 23:32

17 identicon

Takk fyrir þetta

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 11:30

18 identicon

Já Hrannar, svona á að nýta bloggið - það var skapað til skoðanaskipta og til að finna lausnir á aðsteðjandi hugbúnaðarvanda. Færa má til sanns að við upplifum nú massíft "user error" í stýrikerfi og gagnarásum landnsins.

Að efninu. Nú þegar ég sé hvað átt er við með greiðsludreifingu, finnst mér skammgóður vermir af því, það frestar hið óhjákvæmilega, nefnilega að lán rjúka upp úr öllu valdi og þeir sem bera ábyrgð á rokunni eru enn "stikk frí" á meðan menn borga (=eru ekki komnir á hausinn).

Vera má að ég hljómi aftan úr rauðri kommafortíð - en kerfi þar sem ábyrgðin (maðurinn sem blæðir) er sá sem tók lánið, en ekki sá sem setti allt í uppnám (bankar og stjórnvöld) er ranglátt.

Því vil ég taka undir með hagfræðingum s.s. Lilju Mósesdóttur um að stjórnvöld þurfa að gera allt sem þau geta til að halda fjármagni í landinu. T.d. með háskattlangningu á stórum millifærslum til útlanda. Gerist það ekki, munum við sjá ört fallandi gengi og verulega hnípna og reiða þjóð ...

Kannski eru engir kostir lengur í stöðunni, en ef svo er vil ég fá að heyra það frá fólki eins og þér, yfirmanni þínum og yfirmanni hennar. Minna má það ekki vera.

carlos Ferrer (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 17:49

19 Smámynd: AK-72

Nú ætla ég að gerast smá fífl að áliti margra stjórnmálamanna og annara vegna hagsmuna fjármagnseigenda, og líta á þetta frá sjónarhóli hins venjulega manns, en fyrirgefðu, verðtrygging er ekkert annað en auknar byrðir á fólk til langframa og búið til úr engu. þegar ég svo lít á leiðirnar sem verið er að bjóða okkur manneskjunum(við erum ekki bara tölur á pappír), þá er verið að setja okkur í skuldafangelsi um aldur og ævi og þessar aðgerðir sem þið eruð að boða, sjá flestir að eru eingöngu gerðar til þess að lengja í hengingarólinni um tíma og láta snöruna herðast að hálsi okkar hægt og rólega.

Er virkilega haldið að fólk muni bara taka því þegjandi og hljóðalaust og borga? Ég flyt frekar frá landi, heldur en að borga skuldir auðmannana sem eiga eignir út um allt hér og verið er að afskrifa skuldirnar hjá, af hálfu bankanna sem þið stjórnmálamennirnir hafið undir ykkar armi nú. Þetta er bara einfaldlega viðhorf flestra í kringum mig, við hættum frekar að borga og skilum lyklinum til Íbúðarlánasjóðs eða bankanna, áður en við hödlum út á flugvöll því ekki getum við lifað af komandi verðbólgu með verðtrygginguna sem er að drepa fólk.Ég sé allavega enga framtíð hér ef ekkert er gert til að létta á fólki og gera eitthvað varðandi verðtrygginguna.

Nú ætla ég að gerast enn vitlausari og benda á nokkrar tölru og varpa kannski fram einni hugdettu og lausn. Fyrir það fyrsta að verðbólguskotið sem mun dynja á okkur núna muni kosta heimilin í landinu 300 milljarða en fjármagnseigendurnir verða af 180 milljörðum ef þið takið af verðtrygginguna. Ég skil ekki hversvegna ykkur þykir það bara hið besta mál að heimilin og fólkið taki á sig 300 milljarða en þið missið í brækurnar ef fjármagnseigendur tapi einhverju. Fjármagnseigendur munu hvorteðer tapa ef enginn getur borgað og í þá átt, er stefnt með aðgerðarleysi gagnvart verðtryggingunni.

Svo er það annað, aðgerðapakkinn sem var kynntur, kostaði hvað 2 milljarða og virtist vera gerður með það eitt að vera sem minnstan tilkostnað þegar kemur að heimilum og fólki. Svo er ekkert mál að henda nokkur hundruð milljörðum í bankanna, afskrifa skuldir auðmanna svo þeir geti verið rólegir og keypt eigur á bruna-útsölu og allt kapp lagt á að bankar og auðmenn tapi sem minnst. Hvað með okkur? Hversvegna erum við almenningur svo miklu minna virði? Hversvegna er harka lögði í rukkanir og að gengið skuli að eigum okkar og okkur mismunað?

Ég legg því til, Hrannar, að þið farið að hlusta á fleiri en bara einhverja frjálshuyggjumenn í ráðuneytunum og farið að hugsa um raunhæfar aðgerðir til handa fólki. SKiðið hugmyndir sem menn út i bæ hafa komið með og hvernig þið getið aflétt hrikalegri skuldaaukningu fólks vegna verðbólgunnar og verðtrygginarinnar, og drefið þessu þannig að fjármagnseigendur taki einnig höggið á sig til jafns við almenning. Ég ætla svo að leggja til að þið finnið leiðir til að afskrifa 50% af íbúðarlánum einstaklinga svo skuldirnar haldist í við verðmæti íbúðanna næstu árin. Þú veist væntanlega að Seðlabankinn spáði að íbúðarverð myndi hrynja og ef skuldirnar eru 2-3 falt meiri en íbúðarverðið, þá fer fólk bara.

Ef þið gerið ekkert til þess að vera með raunverulagar aðgerðir að fólki finnst, þá kem ég með lykilinn minn að íbúðinni niður í ráðuneyti og læt þig fá hann um leið og ég þakka þér fyrir að hugsa bara um fjármagnseigendur og kveð þig áður en ég held út á flugövll með því loforði að snúa aldrei aftur til þessa lands ótilneyddur.

AK-72, 26.11.2008 kl. 23:21

20 identicon

Ég er einn af þeim sem hef áhyggjur af aukinni verðbólgu og var að pæla, út frá þessum neyðarlögum sem sett voru til að verja hagsmuni gömlu bankana og nú með setningu laga um gjaldeyrisviðskipti sem líka eru einhverskonar neyðarlög, af hverju við getum ekki sett lög um verðstöðvun til næstu þriggja mánuða með lengingu í huga ef gengismál verða ekki komin í jafnvægi að þeim tíma liðnum. Með verðstöðvun væri engin verðbólga og engin vísitölutryggð lán myndu þá ekki breytast umfram þá vexti sem þau bera. Einhverjir myndu tapa á þessu og þá sérstaklega þeir sem flytja inn vöru en eru þeir ekki þegar í dag að tapa á því? Fatakaupmenn t.d. sem eru að kaupa inn eru ekki að panta vöruna núna heldur var það gert snemma á árinu og þeir hafa tjáð ísg í blöðum um að þeir treysti sér ekki til að selja á því gengi sem þeir keyptu og eru því að selja vöruna með tapi í dag. Pældu í því

Benedikt Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 09:28

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Benedikt mér finnst ríkisstjórnin vera einstrengingsleg í mati sínu á lausnum við þeim vandamálum sem að steðja. Það er hagur þjóðarbúsins að losna við Jöklabréfin í tíð lélegrar krónu.

Léleg króna hvetur útflutning en letur innflutning. Útflutningstekjur aukast og meira verður til þess að ráðstafa til þess að greiða niður skuldir og borga vexti.

Ríkisstjórnin veifar skuldasúpunni eins og einhverskonar galdravendi í stað þess að leita raunverulegra lausna.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.11.2008 kl. 14:52

22 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Það má með sanni segja að verðtryggingin mildi verðbólguskot og önnur hagstjórnarmistök, með því að dreifa hækkuninni á restina af afborgunartímanum.  Þó er ljóst að skuldirnar hækka vegna verðtryggingarinnar svo til allan afborgunartímann og því er það, að bregðast ekki við með raunverulegu þaki á verðtryggðar skuldir heimilanna að varpa fjárhagslegri ábyrgð af mikilli óbilgirni á heimilin.  Langstærsti hluti skulda heimilanna eru húsnæðis- og námslán.  Annað er einn af grunnþáttum tilverunnar, það að búa og hitt hefur verið "metnaðarmál" þjóðarinna, það að auka menntun hennar.  Nú eru þeir sem hafa valið að fjárfesta í menntun og húsnæði gerðir sérstaklega ábyrgir fyrir ástandinu.  Hversu sterk pólitísk skilaboð eru það?

Verðbólgan nú er gerfiverðbólga, eingöngu til komin vegna gengisfallsins, en þar eru heimilin í gegnum verðtryggð lán gerð sérstaklega ábyrg, þó bankarnir hafi í langan tíma haft beinan hag af því að kynda upp verðbólguna á margvíslegan hátt og hagstjórnaraðgerðir ekki ráðið við neitt.  Neyslan hefur snar dregist saman, en samt er um 17% verðbólga og bullandi atvinnuleysi.   Hvaða sanngirni er í því að verðtryggð lán rjúka upp á meðan verð fasteigna fellur sem steinn?  Í slíku ástandi er ljóst að eignatilfærslan er gríðarleg.  Boðaðar skattahækkanir fjárlaga 2009 eru upp á 40 milljarða og gert ráð fyrir að ríkissjóðir verði rekinn með 100 milljarða halla það ár, en frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2009 munu heildarskuldir heimilanna hafa hækkað um 500 milljarða, ekki síst vegna verðtryggingarinnar.  Hvernig er hægt að réttlæta slíka eignaupptöku?

Í sömu fjárlögum var boðað að það ætti að verja 83% fjárlaga í að styrkja fjármálakerfið.  Þar spurði enginn hvernig það myndi hafa áhrif á heimilin og enginn var spurður hvaðan það fé ætti að koma.  Nú hins vegar þegar farið er fram á sanngirni í að deila byrðunum sem bankarnir og sofandi ríkisstjórn komu þjóðinni í þá er spurt hvers eigi lánveitendur að gjalda???

Þessar skuldir eru ekki skammtímavandamál og þær munu rýra kaupmátt heimilanna verulega og í langan tíma.  Hvaða áhrif mun það hafa til lengri tíma á einkaneysluna, uppbyggingu atvinnulífsins, verðmætamyndun og skatttekjur?  Hvað mun það kosta samfélagið að missa 20-30.000, jafnvel 40.000 manns úr landinu?  Þetta eru ekki skammtímavandamál en það að bregðast ekki við núna með sanngjarnari hætti þykir mér mjög mikil skammsýni.

Umboð ráðamanna verður endurnýjað innan skamms og þá verður vissulega farið yfir málin.  Þó stjórnmálamenn séu auðmjúkir í kosningabaráttunni vilja þeir gjarnan snúa baki við kjósendum að þeim loknum.  Allar aðgerðir nú hafa snúist um að bjarga "gullkálfinum".  Vernd innlána var ekki vegna almennings, heldur vegna bankanna.  Auknar inngreiðslur í lífeyrissjóðina eru einnig skilgeindar sem innlán í bönkunum og verðtyggðar skuldir heimilanna eru veðstólar sem ekki má rýra vegna seljanleika bankanna og lánshæfismats ríkisjóðs.  Hér er hvorki verið að hugsa um hag lífeyrisþeganna, atvinnulífsins né heimilanna.

Auðvitað á að setja þak á verðtrygginguna í bili og deila skuldunum af meira jafnræði.  Það á að gera eignanám hjá forsvarsmönnum bankanna og þeirra sem stóðu að baki mestu viðskiptanna sem hafa farið úr böndunum.  Síðan á að semja um niðurfellingu hluta skulda þeirra sem verst standa, því verðhækkanir fasteignaverðs undanfarin ár er tilbúningur lánveitenda, sérstaklega bankanna.  Standi eitthvað útaf á að taka það í gegnum skattkerfið.  Takið eftir því að gert er ráð fyrir að það taki ríkissjóð um 6 ár að greiða þessar skuldir niður, en við skulum hafa í huga að það mun taka heimilin upp að 40 ár að greiða niður óbeislaða verðtryggða eignaupptöku.  Höfum við efni á því? 

Flest lönd bregðast nú við ástandinu með því að lækka vexti og dæla fjármagni inn í atvinnulífið til að bjarga algeru hruni.  Hér er þessu öfugt farið, hér halda ráðamenn uppi fjallháum vöxtum og knýja þannig fram verðbólgu í ástandi sem einkennist af fjöldauppsögnum í svo til öllum greinum.  Það er engu líkara enn ráðamenn séu staðráðnir í að dauðrota atvinnulífið í landinu með öllum ráðum og því miður ekki til skamms tíma.

Svo virðast ráðamenn hissa á að fólk mótmæli eða sé ekki ánægt með störf þeirra.  Það er deginum ljósara að þjóðin hefur ekki efni á þessari ríkisstjórn mikið lengur, sem ber hag einnar atvinnugreinar ofar öðru atvinnulífi í landinu og notar heimilin í landinu eins og kýr í fjósi.  Við skulum ekki gleyma því að umboðið kemur þó frá fólkinu í landinu og sjaldan hafa jafn margir verið jafn vissir um að þeir hafi kosið vitlaust síðast.

Það þarf að bregðast við strax til að forða því að fólk lendi í vandræðum, ekki bara vera með úrræði þegar í hart er komið.  Það mun ekki kalla fram það traust sem ráðamenn þurfa til að fara með umboð þjóðarinnar.

Friðrik Óttar Friðriksson, 6.12.2008 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband