Amen á eftir efni Viðskiptaráðs

Það er ekki á hverjum degi sem undirritaður getur leyft sér að gera afstöðu Viðskiptaráðs alfarið að sinni. Sú stund samstöðu er hinsvegar runnin upp það ég best fæ séð.

Rétt fyrir hádegi sendi Viðskiptaráð frá sér "skoðun" sína og leyfi ég mér að birta hana hér í heild:

Traust til stjórnsýslu, stjórnvalda og Alþingis hefur beðið talsverða hnekki í því umróti sem fylgt hefur falli bankanna. Ein birtingarmynd þessarar stöðu voru háværar kröfur um gagngerar breytingar innan ríkisstjórnar og ákveðinna stofnana hins opinbera. Þessi afstaða kom skýrt fram hjá aðildarfélögum Viðskiptaráðs í nýlegri viðhorfskönnun, en um 9 af hverjum 10 aðildarfélögum töldu nauðsynlegt að stokka upp í ríkisstjórn og gera mannabreytingar hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd. Ríkjandi vantraust undanfarinna vikna og mánaða hefur komið í veg fyrir skjóta og skilvirka ákvarðanatöku og hefur staðið nauðsynlegu uppbyggingarstarfi fyrir þrifum.

Eins og þekkt er þá hafa talsverðar breytingar þegar orðið í þessum efnum þar sem ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og ýmsir embættismenn horfið frá störfum. Til viðbótar hefur verið boðað til Alþingiskosninga nú í vor. Með þessu má gera ráð fyrir að öldur vantrausts og tortryggni lægi tímabundið en hér skiptir þó öllu að ekki sé tjaldað til einnar nætur. Nýta þarf tímann fram að kosningum til að leggja grunn að endurreisn hagkerfisins og fylgja þeirri vinnu eftir með markvissum hætti í kjölfar kosninga, hver sem niðurstaða þeirra verður. Sá grunnur verður ekki lagður nema þingheimur sameinist um aðgerðir sem miða að því að um starfsemi hins opinbera ríki víðtækt traust. Þetta traust verður að ríkja jafnt gagnvart sitjandi ríkisstjórn hverju sinni sem og öðrum fulltrúum hins opinbera, s.s. stjórnar Fjármálaeftirlitsins, stjórnar Seðlabankans, stjórnenda ríkisbankanna og annarra embættismanna.

Á tímum sem þessum er því mikilvægt að huga að leiðum til að styrkja almennt traust til stjórnsýslu, óháð því hvar menn standa í pólitík. Stjórnvöld og embættismenn ættu að sýna gott fordæmi með því að láta flokkadrætti og pólitískan hégóma víkja fyrir þjóðarhagsmunum og leggja alla áherslu á að veita góðum og mikilvægum verkefnum brautargengi fram að kosningum. Skjótar aðgerðir í átt að endurreisn atvinnulífs, stöðugra atvinnustigi, bættum hag heimila, markvissri upplýsingagjöf og virku samstarfi við erlenda aðila eru stoðirnar sem endurvakið traust mun byggja á. Vinnubrögð þurfa að einkennast af heiðarleika, gagnsæi, upplýsingagjöf og samvinnu.

Að mínu mati er hér um mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðuna og ég get heils hugar tekið undir hvert orð.

Pælum í því !


mbl.is Þarf að hugsa málið upp á nýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Hrannar.

Jú ég býst nú við maður geti tekið undir þetta.

Spurningin er hins vegar um forgangsröðunina.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.2.2009 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband