Lykiláfangar í efnahagsáætlun stjórnvalda að nást

Ég má til með að deila með ykkur meðfylgjandi texta, en hann lýsir afar vel þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru á vettvangi stjórnvalda:

Ríkisstjórnin, ásamt fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga, vinnur ötullega að því að ná lykilaföngum í þeirri ítarlegu áætlun um efnahagslega endurreisn sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar samkvæmt samstarfsyfirlýsingu.

Þeir áfangar sem verið að ljúka nú í sumar eru eftirfarandi:

  • Samningar við Breta og Hollendinga um uppgjör Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna lágmarksábyrgða á sparifé í erlendum útibúum íslensku bankanna liggja fyrir.
  • Lánasamningur við vinaþjóðir okkar vegna eflingar gjaldeyrisvaraforðans til viðbótar við lánsloforð Alþjóðagjaldeyrissjósins eru á lokastigi.
  • Áætlun um endurheimt jafnvægi í ríkisfjármálum verður lögð fram þar sem annars vegar er farið yfir aðgerðir á árinu 2009 og hins vegar hvernig unnið verður ár frá ári fram til 2013.
  • Uppgjör milli nýju og gömlu bankanna og endurfjármögnun hins endurreista bankakerfis á þeim grunni lykur á næstu vikum.
  • Stöðugleikasáttmáli aðila á vinnumarkaði er í burðarliðnum þar sem tryggður er friður á vinnumarkaði og unnið gegn atvinnuleysi.
  • Í júlí verður efnahagsáætlunin endurskoðuð í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, mat lagt á framvindu og næsti áfangi útgreiðslu á gjaldeyrisláni AGS fer fram.

Í raun eru þetta stærstu áfangarnir í áætluninni og skilgreind markmið þeirra eru að skapa grundvöll fyrir stöðugra gengi krónunnar, fyrstu áföngunum í afnámi gjaldeyrishaftanna og mun hraðari lækkun stýrivaxta í takt við lækkandi verðbólgu.

Jöfnuður vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd er jákvæður sem styður við stöðugra gengi krónunnar. Þá styrkir gengið samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina og íslenskrar framleiðslu á kostnað innflutnings. Þetta ásamt sóknarstefnu í atvinnumálum, samstarfi við aðila vinnumarkaðar og meðhöndlun endurreistra banka á skuldavanda fyrirtækja mun leggja grunn að því að atvinna aukist á ný.

Sagan sýnir að viðsnúningurinn tekur tíma en flestum ber saman um að sveigjanleiki íslenska hagkerfisins og aðlögunarhæfni, auk menntaðs vinnuafls, öflugra lífeyrissjóða og endurnýjanlegra orkuauðlinda, leggi grunninn að því að við munum komast tiltölulega hratt út úr samdráttarskeiðinu svo framarlega sem við höldum stefnunni og grípum ekki til neinna dýrkeyptra örþrifaráða.

Pælum í því !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er gott og blessað og ósköp fínt, en hvar eru áætlanirnar um verndun starfa, uppbyggingu atvinnulífsins, byggja upp greiðslugetu heimilana, framtíð Íslands o.s.frv.?  Allt atriði sem hefði verið gott að byrja á síðast liðið sumar, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar átti að vera ljóst hvað stefndi í en kaus að hunsa.  Nú eru rúmir 15 mánuðir frá falli krónunnar og rúmir 8 frá hruni bankakerfisins.  Af hverju hefur tíminn ekki verið betur nýttur til uppbyggingarstarfs í staðinn fyrir að bíða bara og bíða?  Af hverju var vinna neyðarhópanna sem settir voru á fót í október undir stjórn Ásmundar Stefánssonar ekki nýtt neitt svo heitið getur?  Og af hverju er Alþingi og hagsmunaaðilum ekki falið stærra hlutverk í þessu starfi en raun ber vitni?  Það eru hagsmunahópar út um allt þjóðfélag sem hafa lagt fram fullt af hugmyndum, en á þá er ekki hlustað.  Þeir eiga bara taka því sem að þeim er rétt, í staðinn fyrir að vera kallaðir að borðinu á vinnslustigi til að fá að koma með sitt innlegg.  Kannski kemur betri lausn út úr slíkur.  Það er aldrei að vita.

Þú berð þér á brjósti með því sem þú vilt að við pælum í, en ég vil gjarnan að þú pælir í því sem ég bendi á og komir með haldbær svör við því.  Og ekki afsaka sig með því að núverandi ríkisstjórn sé bara nokkurra vikna gömul.  Samfylkingin er búin að vera í stjórn í 2 ár.

Marinó G. Njálsson, 12.6.2009 kl. 12:09

2 Smámynd: Björn Jónsson

Tek undir með Marinó G. Þetta eru ótrúlegir Allatojar sem sitja í þessari svokallaðri ,, ríkisstjórn " og ekki bæta aðstoðar menn þeirra vinnubrögðin.

Björn Jónsson, 12.6.2009 kl. 22:15

3 Smámynd: Björn Finnbogason

GO Marinó!

Björn Finnbogason, 13.6.2009 kl. 02:10

4 identicon

Hrannar ! Ætla ráðherrar Samfylkingar ekki örugglega að sjá um það að Eva Joly fái það sem hún þarf til að komast að sannleikanum um hrunið? Hvernig stendur á því að hún er ekki komin með skrifstofuaðstöðu? Hvaða seinagangur er þetta eiginlega?

Svo tek ég undir með Marínó að vissu leyti en ég er sannfærð um það að engin uppbygging eða sátt verður í þjóðfélaginu nema hrunið verði rannsakað og þeir sem því ollu látnir bera ábyrgð, embættismenn, eftirlitsaðilar og pólítíkusar ásamt útrásarglæpamönnum.Þjóðin vill réttlæti. Punktur.

Ína (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 03:31

5 identicon

Við almúginn, sem stöndum utan "kastalaveggja" ríkisstjórnarinnar, erum eflaust ákaflega auðmjúk og þakklát, fyrir þá "brauðmola", sem þér, auðmjúkum þjóni ríkisstjórnarinnar hefur hlotnast að deila með okkur, sem ráðvillt stöndum utan veggja kastalans.  Þessum "brauðmolum", munum við  deila með okkur, svo lengi sem okkar "háu herrum" þóknast. 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 10:32

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég vil þakka Hrannari fyrir að koma fram i þessa umræðu og leyfa komment á hana. Því miður líðst hér á mbl-blogginu að menn geti sett fram skoðanir sínar án þess að hægt sé að andmæla þeim eða bæta við athugasemdum þegar við á. Það ætti að vera sértakt einræðublogg fyrir slíka og síðan samræðublogg fyrir okkur hin.

Ég lít svo á að geti ríkisstjórnin ekki komið fram meginmarkmiðunum sem Arnar setur hér fram þá sé tómt mál að tala um 'björgun' heimilanna. Efnahagslíf einstaklinganna er undir heildinni komið. Geriði svo vel að kommentera á þessi markmið. Magnús Steinar má alveg bæta sig. Páll má líka alveg sleppa því að fá minnimáttarkast fyrir hönd þjóðarinnar. Rannsóknin á efnahagshruninu er undir því komin að við getum samið við aðrar þjóðir um skuldbindingar og aðra þá lausu enda sem uppi eru. Verkin þarf að vinna eftir forgangsröðun. Spurningin er heldur erum við sammála því sem Arnar vill raða í forgang. Íslendingar eru í töluðum orðum efnahagslega ósjálfstæð þjóð. Verður þá ekki fyrsta verk ríkisins að vinna okkur aftur sjálfstæði? Við höfum ekki starfhæft bankakerfi, eiginlega bara sýndarbanka sem FME notar til að hér skapist ekki alger glundroði. Verðum við ekki að fá banka sem geta lánað? ( þetta snýst ekki bara um vaxtastig) Við höfum ekki raunhæfa mynt lengur. Er það ekki vandi heimilanna?. Ég hef miklar áhyggjur af því ef menn telja að ríkisstjórn hverjir sem hana skipa geti haft önnur markmið en þessi sem nú eru sett. Endurreisn efnahagskerfisins er endurreisn heimilanna og sjálfstæði þjóðarinnar undir því komin.

Gísli Ingvarsson, 13.6.2009 kl. 11:10

7 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Marinó - Í pistlinum sem þú varst að lesa og bregðast við er reynt að útskýra þá sýn sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna eftir, allt frá því að 100 daga stjórnin tók við. Sú sýn gengur ekki síst út á að endurreisa atvinnulífið og fjárhag heimilana og á grundvelli þessaar sýnar hefur verið gripið til óteljandi aðgerða á þeim 130 dögum sem núverandi stjórnarflokkar hafa starfað saman - reyndar einnir fjölmargra hjá fyrri ríkisstjórn einnig. Hafi þetta farið framhjá þér hvet ég þig til að kynna þér málið - klukkustundar viðvera á island.is myndi án efa veita þér betri innsýn í þær aðgerðir sem gripiði hefur verið til í þessum efnum.

Ína - það hefur aldrei staðið á ráðherraum Samfylkingarinnar að veita Evu þá aðstöðu sem hún hefur kallað eftir og ég á ekki von á því að svo verði. Þvetr á móti hafa ráðherrar Samfylkingarinnar, eins og ríkisstjórnin öll staðið að því að stórauka framlög til þessa rannsóknarstarfs í samræmi við ráðleggingar Evu - allt eftir að núverandi stjórnarflokkar tóku upp samstarf. Þannig var fjárframlag til rannsóknarinnar aukið úr 50 milljónum í 190 milljónir á þessu ári og á næsta ári var fyrir þó nokkru búið að ákveða að það myndi hækka í tæpar 300 milljónir. Ef þú hefur fylgst með umræðu um þessi mál sl. daga, þá vænti ég að þú kannist við ítrekaðar yfirlýsingar forsætis og fjármálaráðherra um að enn verði bætt í, telji menn það nauðsynlegt. 

Öllum samsæriskenningum um að Samfylkining vinni gegn þessari rannsókn er því óhætt að vísa til föðurhúsanna, enda sýna aðgerðir hennar allt annað. Það má líka benda á það að ekkert í umræddri rannsókn fellur undir ráðherra Samfylkingarinnar að öðru leiti en því sem almennt má segja um samábyrgð allra ráðherra í ríkisstjórninni. Fullur einhugur er í því liði um mikilvægi þessa máls.

Annars þakka ég fyrir athugasemdirnar og hlýleg orð í minn garð og annarra sem vinna á vettvangi stjórnvalda um þessar mundir. Ég get fullvissað ykkur um að þar leggja menn nótt við dag í leit að lausnum ekki síður en annarsstaðar í þjóðfélaginu.

Hrannar Björn Arnarsson, 13.6.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband