Guðni - riddari svörtulofta ?

Þeir sem hlýddu á ræðu formanns Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssonar á Alþingi sl. miðvikudag, hafa eflaust margir átt erfitt með að átta sig á hvert eða hvað Framsóknarflokkurinn væri að fara þessa dagana. Flestir líta enda svo á að formaður flokks tali fyrir hönd flokksins alls.

Ég hef síðan þá ekki komist að neinni einni niðurstöðu enda stangaðist ýmislegt í ræðu Guðna á við áherslur annarra þingmanna flokksins og að ekki sé nú talað um fyrri yfirlýsingar flokksstofnanna Framsóknarflokksins og Guðna sjálfs.

Í gær rakst ég hinsvegar á all ítarlega greiningu Friðriks Jónssonar, formanns framsóknarfélagsins á Akranesi á ræðu formannsins. Pistill Friðriks er í leiðinni fróðleg greining á því politíska uppgjöri sem nú fer fram í Framsóknarflokknum og fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þróast.

Um leið og ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa pistil Friðriks má ég til með að gefa honum orðið: 

Ræða formannsins er til þess fallin að gefa byr undir báða vængi þeirri kenningu að honum sé í raun fjarstýrt af tveimur fyrrum valdamönnum Sjálfstæðisflokksins, þeim sem nú situr á Svörtuloftum og þeim sem áður ríkti á Hádegismóum. Ræða þessi kristallaði jafnframt þann vanda Framsóknarflokksins, sem er frjálslyndur og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur, að núverandi formaður hans virðist hvorugt, hvorki frjálslyndur né umbótasinnaður.

Pælum í því !


En í hvað fara peningarnir ?

Sannarlega ánægjulegt að Kaupþing fái svona góð kjör og enn ein traustsyfirlýsing við bankann. Íslenskt efnahagslíf þarf svo sannarlega á því aðhalda um þessar mundir.

Ég verð hinsvegar að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á samhenginu í þessu hjá Kaupþingi. Fyrr í sumar buðu þeir út samskonar flokk og öfluðu bankanum 4,8 milljarða til húsnæðislána. Þá stóð ég í þeirri trú að útlán til fasteignakaupa myndu aukast verulega hjá Kaupþingi og loks sæi fyrir endan á því lánsfjárfrosti sem fram að því hafði ríkt í bankakerfinu um nokkurt skeið, þegar kom að fasteignalánum.

Ég lét mig dreyma um að aftur yrðri til virkur og lifandi húsnæðismarkaður með aðkomu bankanna enda hafði Íbúðalánasjóður þegar stigið fram og gert sitt í þeim efnum. Hækkað hámarkslánið í 20 milljónir og tekið upp markaðsviðmið í stað brunabótaviðmiðs.

En það gerðist ekki neitt hjá bönkunum - útlán þeirra voru í sögulegu lágmarki í júní og júlí samhvæmt tölum frá Seðlabankanum og samhvæmt Fasteignamatinu hafa engar markverðar breytingar orðið á fjölda kaupsamninga eða upphæð þeirra í ágúst heldur.

Heildarútlán alls bankakerfisins til fasteignakaupa í júní og júlí voru rúmar 400 milljónir í hvorum mánuði og Kaupþing hefur varla verið með meira en helming af því. Það virðist því ljóst að 4,8 milljarðarnir hafa farið í eitthvað allt annað en ný fasteignalán - amk sjást ekki merki þeirra á íslenska markaðnum, því miður.

Á þessu geta auðvitað verið eðlilegar skýringar. Ein gæti t.d. verið sú að ekki hafi verið eftirspurn eftir þessu fjármagni hjá Kaupþingi. Fólk hafi einfaldlega ekki viljað vextina sem í boði voru eða sé almennt að bíða með fasteignakaup. Í þessu sambandi er samt athyglisvert að horfa til þess að þær aðgerðir sem Íbúðalánasjóður greip til skiluðu sér strax í verulegri útlánaaukningu. Þörfin fyrir aukið lánsfé til fasteignakaupa virðist því vera til staðar.

Hvað sem þessu líður eru fréttir af nýjasta útboði Kaupþings ánægjuefni. Í því felst traustyfirlýsinga á bankann, vextir af íbúðalánaum bankans lækka og ef fjármagnið skilar sér út á fasteignamarkaðinn í þetta sinn, ætti það að hleypa auknu lífi í hrollkaldann markaðinn.

Pælum í því !


mbl.is Kaupþing lækkar vexti á íbúðalánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naktir í fang Buffetts

GKJWB2008Risinn er greinilega að rumska. Buffett búinn að opna veskið og byrjaður að versla fyrirtækin sem hann telur undirverðlögð vegna skelfingarástandsins sem ríkir á mörkuðum heimsins.

Nú er hann í essinu sínu !

Fyrir nokkrum árum síðan, þegar hver fjármálasnillingurinn af öðrum reis upp á Wallstreet á öldutoppum hins ódýra fjármagnsflóðs sem knúið hefur hagvaxtarfélar undanfarinna ára, lét Buffett hafa eftir sér að þegar fjaraði myndi koma í ljós hverjir syntu naktir. Enn virðist Buffet hafa haft rétt fyrir sér og nú flýja hinir nöktu sundmenn í fang Spámannsins frá Omaha.

Þeir sem vilja læra af snillingnum ættu að drífa sig út í búð og fjárfesta í nýútgefinni bók Mikaels Torfasonar, Warren Buffett aðferðin. Bókin er skemmtileg aflestrar, vel þýdd yfir á íslensku og full af fróðleik og áhugaverðum sögum úr viðburðaríku viðskiptalífi Buffetts. Frábær skemmtun og fyrir suma etv leiðin að aukinni velgengni í fjármálum.

Bréfin í Bershire Hathaway rjúka amk upp þessa dagana hvað sem fjármálakreppunni líður.

Pælum í því !


mbl.is Warren Buffett fjárfestir í Goldman Sachs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru konur í stjórn ?

Í ræðu sem ég hélt á landsþingi jafnréttisnefnda í dag, sagði ég frá áhugaverðri rannsókn sem Creditinfo á Íslandi gerði á mögulegu samhengi greiðsluhæfi og kynjasamsetningu stjórna. Ég má til með að deila þessu með ykkur: 

Fyrir ekki margt löngu gerði fyrirtækið Creditinfo Ísland athuganir sem birtu meðal annars upplýsingar um tengsl vanskila fyrirtækja og samsetningar kynja í stjórnum þeirra. Niðurstöður leiddu í ljós að minni líkur eru á að þau fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og jafnframt að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Í stuttu máli bentu niðurstöðurnar til þess að fyrirtækjum kæmi best að hafa jafnt konur og karla við stjórnvölinn.

Áður hefur komið fram, m.a. í finnskri rannsókn að fyrirtæki sem stjórnað er af konum eru einnig líklegri til að skila arði til hluthafa sinna. Ýmislegt bendir því til þess að óháð hefðbundnum jafnréttissjónarmiðum, ættu fyrirtæki að leitast við að auka hlut kvenna í stjórninni og í raun óskyljanlegt að það gangi eins hægt og raun ber vitni.

Gæti aukin hlutur kvenna í stjórn fyrirtækja etv verið ein af leiðum Íslands úr kreppunni ?

Pælum í því !


mbl.is Bankar bjóða í eignir Nýsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólympíumót mannsandans !

Íslensku afreksmennirnir á Olympíumótinu ásamt Jóhönnu og Sveini ÁkaÞessa dagana er ég staddur í Beijing og fylgist með Ólympíumóti fatlaðra, fjölmennasta móti gervallrar írþróttahreyfingar heimsins á eftir Ólympíleikunum sjálfum. Hingað komast aðeins þeir bestu til keppni, ríflega 4000 fatlaðir íþróttamenn sem skara framúr í sínum greinum. Meðal þeirra eru að þessu sinni 5 íslenskir afreksmenn: Sonja Sigurðardóttir, Eyþór Þrastarson, Þorsteinn Magnús Sölvason, Jón Oddur Halldórsson og Baldur Ævar Baldursson.

Það hefur verið dýrmæt lífsreynsla að fá að fylgjast með þeim ótrúlegu líkamlegu afrekum, listrænu hæfileikum og eldmóði þeirra fjölmörgu fötluðu einstaklinga sem Ólympíumótið hefur varpað kastljósi sínu á undanfarna daga. Eithvað sem mun lifa með manni alla ævi og breyta heimsmyndinni.

Opnunarhátiðin var tilfinningaþrungið sjónarspil sem ekkert sem ég hef áður séð kemst í námunda við. Fatlaðir einstaklingar léku lykilhlutverk í allri hátíðinni og þeir 80.000 áhorfendur sem fylgdust með hlógu, grétu, sungu og fögnuðu og horfðu hugfangnir á þessa fjögurra klukkustunda veislu andans. Ef ekki hefðu verið hjólastólarnir, gerfifæturnir, blindrastafirnir og upplýsingarnar um listamennina ritaðar í dagskrá hátíðarinnar, hefði engum dottið í hug þar væru á sviði fatlaðir einstaklingar. Framistaða þeirra einkenndist af fullkomnun.

Afrekin sem unnin voru í sundhöll Olympíumótsins í dag voru ekki síður opinberun þeim sem á horfðu. Hverjum sem ekki sér, dettur í hug að nánast útlimalausir einstaklingar geti synt 50 metra á innan við mínútu ? Hvernig í ósköpunum getur blindur einstaklingur synt "beint af augum" og tekið snúninga á 50 metra fresti, án nokkurra hjálpartækja og án þess að bera af leið ? Og hvílíkur innri kraftur hlýtur að búa í hetju dagsins hjá okkur Íslendingum, Sonju Sigurðardóttur sem synti til sigurs yfir þeim ágenga hörnunarsjúkdóm sem hún berst við - synti á sínum besta tíma undanfarin tvö ár !

Frami fyrir afrekum þessara einstaklinga fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér hvernig við leyfum okkur að flokka einstaklinga í fatlaða og ófatlaða. Ekkert okkar er nefnilega fullkomið og öll höfum við okkar takmarkanir sem við tökumst á við. Öll þurfum við líka stuðning til að ná þeim árangri sem við náum og ekki síður þarf umhverfi okkar og aðstæður að falla að hæfileikum okkar eigi þeir að njóta sín og við þannig að blómstra. Við réttar aðstæður og með réttum stuðningi blómstrum við öll, hvert á sínu sviði.

Ég leyfi mér að efast um að margir einstaklingar hafi öflugri viljastyrk og sjálfsbjargarviðleitni en þeir ríflega 4000 afreksmenn sem þessa dagana taka þátt í Olympímótinu í Beijing. Ef þessir mannlegu eiginleikar væru lagðir til grundvallar þegar við greindum í sundur fatlaða og ófatlaða en ekki líkamlegt atgerfi ýmiskonar eða eða þroski væri ég ekki í nokkrum vafa um útkomuna. Ég væri þá líklega staddur á Ólympíumóti mannsandans.

Pælum í því !


mbl.is Sonja synti vel en komst ekki í úrslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðna Ágústssyni svarað

Svargrein mín til Guðna Ágústssonar birtist loks í Fréttablaðinu í dag. Birti hana að sjálfsögðu einnig hér á síðunni:

Staðreyndir í stað stóryrða

Það fór líkt og mig grunaði. Engan finnur Guðni Ágústsson raunverulegan grundvöll fyrir stóryrðum sínum og svikabrigslum vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja. Hann viðurkennir hins vegar ekki mistök sín og dregur hvorki til baka hinar röngu fullyrðingar um „svik á Ásmundarsamkomulaginu“ né stóryrðin „drottinsvik“, „hundsbit“ eða „lágkúru“ ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi. Guðni bætir bara í, virðist stappa niður fótunum um leið og hann skrifar með þjósti, en án raka: „Víst voru þeir sviknir“.

Rétt skal vera rétt

Í mínum huga er þetta mál afar einfalt hvað sem líður öllum stóryrðum. Fullyrðingar Guðna um að Ásmundarsamkomulagið hafi verið svikið með ákvörðunum núverandi ríkisstjórnar í lífeyrismálum eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hvergi í þeim texta kemur fram að þróun lífeyris almannatrygginga ætti að miðast við dagvinnutryggingu launafólks, hvað þá að eitthvert slíkt ímyndað viðmið væri ígildi kjarasamnings eins og Guðni heldur fram.

Þvert á móti segir skýrt og skorinort í 14. gr. Ásmundarsamkomulagsins að ákvarðanir um endanlegar bætur lífeyrisþega í framhaldinu eigi að ráðast „af ákvæðum laga um almannatryggingar“.

Í samræmi við gildandi lög var í upphafi árs ákveðið að hækka lífeyri um 3,3% en sú prósenta var forsenda fjármálaráðuneytisins um launaþróun á árinu við gerð fjárlaga. Um áramótin fengu hins vegar umbjóðendur Alþýðusambands Íslands ekki neinar kjarasamningsbundnar hækkanir, enda var ekki fyrirliggjandi samningur þá.

Eftir að kjarasamningur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins var undirritaður voru forsendur fjármálaráðuneytisins endurreiknaðar til að tryggja lífeyrisþegum sambærilegar hækkanir. Á grundvelli upplýsinga frá Alþýðusambandi Íslands og Samtaka atvinnulífsins liggur fyrir að meðaltalshækkun lægstu launa samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sé um það bil 7% frá 2007. Vegna þessa bætti ríkisstjórnin við 4% frá 1. febrúar.

Á grundvelli laga um almannatryggingar og í samræmi við Ásmundarsamkomulagið hefur lífeyrir almannatrygginga því hækkað um 7,4% frá áramótum, á sama tíma og meðaltalshækkun lægstu launa hjá Alþýðusambandi Íslands var um 7%.

Auk þessa hefur ríkisstjórnin síðan tekið ýmiss konar ákvarðanir í lífeyrismálum sem á heilu ári munu færa öldruðum og öryrkjum ríflega 5 milljarða króna til viðbótar. Um 10% þeirrar fjárhæðar má með velvilja rekja til Ásmundarsamkomulagsins, en 90% er hrein viðbót núverandi ríkisstjórnar.

Samanlagt nema þessar hækkanir á lífeyri um 9 milljörðum króna á heilu ári og jafngilda um 17% hækkun lífeyrisgreiðslna ef miðað er við árið 2007.

Aldrei eins mikið á eins skömmum tíma

Staðreyndin er því sú, hvað sem líður síendurteknum rangfærslum Guðna í þessum málum, að sjaldan eða aldrei hefur eins mikið verið gert í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja á eins skömmum tíma og í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það virðist einnig ljóst að hagsmunasamtök aldraðra og öryrkja hugsa ekki sérstaklega hlýtt til þeirra tólf ára sem Framsóknarflokkurinn fór með lífeyrismálin í ríkisstjórn, hvað sem glýju Guðna yfir eigin árangri líður. Hagsmunasamtök lífeyrisþega hafa reyndar séð sérstaka ástæðu til að fagna breyttum tíma í ályktunum enda hafa þau átt afar gott samstarf við okkur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í því umbótaferli í lífeyrismálum sem nú er hafið.

Guðna til heiðurs vitna ég að lokum til ályktunar sambandsstjórnarfundar Landssambands eldri borgara sem haldinn var í síðasta mánuði, en þar var fjallað um lífeyrismálin af þeim sem reynsluna hafa: „Eftir margra ára vanrækslu stjórnvalda er ljóst að það tekur tíma að móta nýjan og nútímalegan farveg.“ Þetta eru orð að sönnu og ég lýsi mig reiðubúin til uppbyggilegra rökræðna við Guðna um málið, bæði „vanrækslu“ár Framsóknarflokksins og hinn nýja tíma Samfylkingarinnar. Mér geðjast enda mun betur að staðreyndum en stóryrðum.

Pælum í því !


Guðni svarar

guðniÓlíkt Bjarna Harðarsyni hefur Guðni Ágústsson svarað athugasemdum mínum við málflutning framsóknarmanna í lífeyrismálum með ágætri grein í Fréttablaðinu í gær. Þar sem ég birti grein mína hér á síðunni vil ég ekki síður vekja athygli lesenda síðunnar á grein Guðna.

Ég hef þegar skilað nýrri grein til Fréttablaðsins með athugasemdum við grein Guðna og mun birta hana hér, um leið og hún hefur birst í Fréttablaðinu.

Ætli við Guðni verðum sammála að lokum?

Pælum í því !


Enn segir Guðni ósatt

Í eldhúsdagsumræðunum um daginn fór Guðni Ágústsson mikinn að vanda. Ýmislegt í ræðunni var greinilega aðeins hugsað til skemmtunar en í ljósi raðfullyrðinga formannsins um að ríkisstjórnin hafi svikið aldraða í lífeyrismálum er óhjákvæmilegt að líta svo á að þar hafi Guðni verið að tala í fullri alvöru. Framsóknarmenn á þingi hafa líka hver af öðrum apað vitleysuna upp eftir formanninnum. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafa þeir hins vegar látið hjá líða að rökstyðja mál sitt enda mun það reynast þeim örðugt.

Áskorun til Guðna Ágústssonar

Í tilefni af þessum síendurteknu ósönnu fullyrðingum er óhjákvæmilegt að undirstrika að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í lifeyrismálum hafa að sjálfsögðu verið í fullu samræmi við lög, fullu samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og staðreyndin er sú að aðgerðirnar ganga mun lengra en yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna gáfu tilefni til. Milljarðar króna renna nú til lífeyrisþega umfram þær skuldbindingar sem ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kváðu á um. Fullyrðingar um annað eru beinlínis rangar.

Hvergi í umræddum yfirlýsingum ríkisstjórna frá 2002 eða 2006 er kveðið á um að lægstu bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun dagvinnutryggingar.

Ég skora á Guðna Ágústsson, eins og ég hef áður skorað á Bjarna Harðarson, að benda á staðreyndir svikabrigslum sínum til stuðnings eða biðjast afsökunar á stóryrðunum ella.

Níu milljarðar á einu ári – tólf ára vonbrigði framsóknar

Rangfærslur framsóknarmanna hagga ekki þeirri staðreynd að sjaldan eða aldrei hefur eins mikið verið gert í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja og á þeim skamma tíma sem Samfylkingin hefur farið með málefni lífeyrisþega. Heildarfjárhæð aukinna lífeyrisgreiðslna munu nema um 9 milljörðum króna á heilu ári og jafngildir það um það bil 17% hækkun lífeyris, miðað við síðasta ár. Á tólf ára valdatíma framsóknarmanna komust þeir ekki með tærnar þar sem Samfylkingin hefur hælana í þessum efnum.

Pælum í því !


mbl.is Steingrímur talaði mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með svartan blett á samviskunni ?

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa farið mikinn undanfarna daga og vænt núverandi ríkisstjórn um svik, jafnvel "drottinsvik" við lífeyrisþega. Engu er líkara en þar éti þeir vitleysuna hver upp eftir öðrum og hún stigmagnast dag frá degi. Háttarlagið bendir eindregið til að þingmenn Framsóknarflokksins hafi svartan blett á samviskunni vegna framistöðu sinnar í lifeyrismálum undanfarinn áratug og er það að vonum. Hápunkti vona ég hinsvegar að rangfærslurnar hafi nú náð með "magnaðri" grein Bjarna Harðarsonar á bloggsíðu sinni um helgina.

Meðfylgjandi pistill er tilskrif mitt til Bjarna í athugasemdafærslu vegna greinar hans. Svarið á erindi til fleiri þingmanna Framsóknarflokksins og því deili ég því með ykkur á þessari síðu.

Sæll Bjarni

Í þessari stuttu grein þinni er svo mikið af rangfærslum að maður trúir vart sínum eigin augum. Að þingmaður skuli láta svona frá sér er þungbærar en tárum taki.

Þér og grandalausum lesendum þínum til fróðleiks er rétt að fram komi að  þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör lifeyrisþega sem þú vísar til munu kosta ríkissjóð 2.700 milljónir á þessu ári og 4.300 milljónir á því næsta en ekki 700 milljónir eins og þú heldur fram.

Áður, á vormánuðum 2007 hafði ríkisstjórnin ákveðið að afnema frítekjumark lífeyrisþega 70 ára og eldri. Útgjöld ríkissjóðs vegna þeirrar ákvörðunar nema um 700 milljónum. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara aðgerða til að bæta kjör lífeyrisþega nema því uþb 5 milljörðum á heilu ári.

Ítarlegri útlistun má lesa á meðfylgjandi slóð

Þá heggur þú í sama knérun og samflokksmenn þínir undanfarna daga og vænir núverandi stjórn um svik við samninga fyrri stjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Meint svik eiga að felast í því að hækkanir lífeyris hafi ekki fylgt hækkunum almennra kjarasamninga og er þá iðulega vísað til 18000 kr grunnhækkunar lægstu taxta eða viðmiðunar við dagvinnutekjutryggingu.

Staðreyndin er sú að EKKERT í samningum, yfirlýsingum eða lögum frá fyrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ber með sér slík loforð - EKKERT ! Eina tryggingin sem lifeyrisþegar höfðu um kjarabætur eftir hinn langbæra framsóknaráratug, var sú trygging sem til staðar er í lögum um almannatryggingar og eftir þeim lögum hefur að fullu verði unnið.

Dragir þú þessa fullyrðingar mínar í efa, skora ég á þig að vísa beint í texta máli þínu til stuðnings.

Staðreyndin er einnig sú, að þann 1. ágúst nk. þegar þeir ellilífeyrisþegar sem ekkert hafa fengið greitt úr lífeyrissjóðum fá einskonar lífeyristryggingu að andvirði kr. 25.000 á mánuði, verða þeir elliífeyrisþegar sem verst eru settir með hærri tekjur en þeir hafa nokkru sinni haft, undanfarin 12 ár. Þessi hópur hefur þá hækkað umtalsvert meira en þeir lægst launuðu gerðu hjá ASÍ í kjölfar síðustu samninga.

Allt þetta eiga þingmenn að vita og þetta vita þingmenn Framsóknarflokksins sjálfsagt einnig þó þeir haldi öðru fram. Ég skil það reyndar vel að það svíði þeim sárt að sjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks standa myndarlegar að kjarabótum til lífeyrisþega, ekki síst þeirra verst settu á fyrsta starfsári sínu, heldur en fyrri ríkisstjórnum Framsóknarflokksins tóks á síðastliðinum 12 árum, en það fríar Framsóknarmenn ekki undan sannleikanum.

Pælum í því !


Spámaðurinn frá Omaha

Það hefur reynst mörgum happadrjúgt að hlusta vel eftir sjónarmiðum Buffetts. Stundum hafa menn reyndar freistast til að telja hann "elliæran" eða "gamaldags" og skellt við skollaeyrunum  en þeir hinir sömu hafa yfirleitt þurft að lúta í gras fyrír dómi sögunnar. Vonandi hefur Buffett einnig rétt fyrir sér í þetta sinn.

Warren Buffett er auðugasti maður heims og ríkidæmi sitt hefur hann alfarið byggt á ævintýralegu gengi Berkshire Hathaway. Hann keypti Berkshire Hathaway og gerði það að vettvangi fjárfestingastarfsemi sinnar árið 1965. Í dag er félagið almenningshlutafélag, skráð á New York Stock Exchange. Buffett hefur verið stjórnarformaður og leiðtogi félagsins frá árinu 1969 og er nú með um 31% eignarhlut. Á þeim 43 árum sem félagið hefur verið í eigu Buffetts hefur verðmæti þess aukist um 21,4% að jafnaði á hverju einasta ári. Á sama tíma hefur hlutabréfavísitalan S&P 500 vaxið um 10,4% á ári. Þetta þýðir að sá sem fjárfesti  $ 1.000 í Berkshire Hathaway árið 1965 ætti í dag u.þ.b. $ 2.800.000 en sá sem á sama tíma fjárfesti í hlutabréfa­vísitölunni S&P 500 ætti u.þ.b. $ 58.000.

 samanburður á BH og S&P 500

Þegar haft er í huga að S&P 500 er með betri fjárfestingakostum sem hafa verið í boði á umræddu tímabili er ekki að undra að Buffett sé talinn einn af fremstu fjárfestum sögunnar. Árangur Berkshire Hathaway segir allt sem segja þarf í þeim efnum.

Nú verður spennandi að sjá hvort enn reynist Buffett sannspár. Það kæmi mér amk ekki á óvart þó þessi yfirlýsing hans ein og sér, myndi hreyfa við hitamælunum á hlutabréfamörkuðum heimsins næstu dagana. Slíkur er áhrifamáttur "spámannsins frá Omaha".

Pælum í því !


mbl.is Buffett segir vera að rofa til á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband