Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2008 | 19:11
Stóryrði og staðreyndir
Mikið finnst mér dapurlegt þegar velmeinandi einstaklingar og samtök falla í þá gryfju að beita fyrir sig stóryrðum og hálfsannleik þegar staðreyndir liggja fyrir og yfirveguð umræða ætti ekki síður að geta þjóna málstaðnum. Yfirlýsing ASÍ, ÖBÍ og LEB finnst mér dæmi um þetta.
Lítum á nokkrar staðreyndir:
Hvað skyldi nú samkomulagið frá 17. febrúar sem samtökin segja að hafi verið svikið segja um hækkun bóta lífeyrisþega ?
"Bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög. Þá mun nefnd á vegum félags- og tryggingamálaráðherra sem hefur það meginverkefni að gera tillögur um róttækar breytingar á almannatryggingakerfinu í því skyni að einfalda það skoða leiðir til þess að setja ákveðin lágmarksviðmið í framfærslu."
Í samræmi við gildandi lög var í upphafi árs ákveðið að hækka lífeyri um 3,3% en sú prósenta var forsenda fjármálaráðuneytisins um launaþróun á árinu við gerð fjárlaga. Um áramótin fengu hinsvegar umbjóðendur ASÍ ekki neinar kjarasamningsbundnar hækkanir, enda ekki fyrirliggjandi samningur þá.
Eftir að kjarasamningur ASÍ og SA náðust og sú ánægjulega áhersla á hækkun lægstu launin lá fyrir voru forsendur fjármálaráðuneytisins endurreiknaðar til að tryggja lífeyrisþegum sambærilegar hækkanir. Á grundvelli upplýsinga frá ASÍ og SA liggur fyrir að meðaltalshækkun lægstu launa samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sé um það bil 7% frá 2007. Vegna þessa bætti ríkisstjórnin við, þegar frá 1. febrúar, þeim 4% sem nú er rætt um eins og einu aðgerð ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör lífeyrisþega.
Samanlagt hefur lífeyrir almannatrygginga hinsvegar hækkað um 7,4% frá áramótum, á sama tíma og meðaltalshækkun lægstu launa hjá ASÍ hafa hækkað um 7%.
Þessu til viðbótar er rétt að halda því til haga að umrædd 7,4% hækkun lifeyrisgreiðslna almannatrygginga er aðeins hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í á þessu ári til að bæta kjör lífeyrisþega. Reyndar er það svo að 7,4% hækkunin mun færa lífeyrisþegum u.þ.b 4 milljarða á ársgrundvelli en aðrar aðgerðir sem ráðist verður í 1. apríl, 1. júlí, 1. ágúst og um næstu áramót munu færa lífeyrisþegum 5 milljarða til viðbótar á ársgrundvelli, þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Þeir sem vilja fræðast betur um þær aðgerðir og tímasetningar þeirra geta kynnt sér málið á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið um bætt kjör lífeyrisþega á þeim þremur mánuðum sem Jóhanna Sigðurðardóttir hefur verið félags- og tryggingamálaráðherra munu því færa lifeyrisþegum u.þ.b. 9 milljarða á ársgrundvelli, þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda í lok árs.
Nær væri því að tala um ríflega 15% hækkun á lifeyri aldraðra og öryrkja en 4% eða 4000-5000 krónur eins og gert er í yfirlýsingu ASÍ, ÖBÍ og LEB. Ég hygg reyndar að ríkisstjórnin hafi á þessum skamma tíma tekið ákvaranir sem munu bæta kjör hinna lægst launuðu meðal lífeyrisþega meira en þeir lægst launuðu hjá ASÍ munu hækka vegna nýgerðs kjarasamnings. En um það getum við skorið þegar líður á árið og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar koma til framkvæmda ein af annari.
Þá er einnig rétt að hafa í huga að félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigðurðardóttir hefur sagt að þau tvö stóru skref sem þegar hafa verið stigin til að bæta kjör lífeyrisþega séu aðeins þau fyrstu á langri vegferð. Í vikunni fól hún t.d. nefnd sem vinnur að endurskoðun lífeyristrygginga og á að skila tillögum sínum þann 1. nóvember nk. að flýta vinnu sinni hvað varðar mótun sérstaks lágmarksframfærsluviðmiðs og skila því af sér fyrir 1. júlí. Umrætt framfærsluviðmið var hluti af yfirlýsingunni sem gefin var út í tengslum við samninga ASÍ og SA og er hugsað af hagsmunaaðilum til að tryggja að lífeyrisgreiðslur þróist með svipuðum hætti og lægstu laun - amk ekki síðri.
Við skulum því spara stóru orðin, byggja málflutning okkar á staðreyndum og spyrja að leikslokum. Málstaður þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum lífeyrisþega er sanngjarn og góður. Stóryrði og hálfsannleikur bæta hann ekki.
Pælum í því !
Segja ekki staðið við samkomulag um hækkun bóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2008 | 10:45
Blessað barnalán
Þá er hún loksins komin til okkar !
Í 9 mánuði höfum við fylgst með henni vaxa og dafna undir mjúku hörundi móður sinnar og beðið í ofvæni. Heilbrigð ? Strákur eða stelpa ? Næturhrafn eða svefnpurka ? Dökkhærð eins og pabbinn ?
Stóra stundin rann upp kl. 04.19 sunnudaginn 17. febrúar. Eftir hetjuleg baráttu þeirra mæðgna í heitum potti í Hreiðrinu, kom stúlkan, syndandi í fang móður sinnar og bauð okkur góðan daginn. 12 merkur, 49 cm, dökkhærð og fagureygð - allt eins og faðir hennar fyrir rúmum 40 árum !
Hvílíkt kraftaverk !
Nú þegar styttist í tveggja vikna afmælið, virðist einnig ljóst að þessi undrastúlka hefur sótt ýmislegt til móður sinnar. Blíð og yfirveguð, brosmild og athugul og það sem okkur foreldrunum þikir ekki síst ánægjulegt, hún sefur og sefur, nærist vel og tútnar út með hverjum deginum. Sannkölluð fyrirmyndarstúlka !
Þrátt fyrir þrjú eldri börn, hvert öðru yndislegra, verður maður alltaf jafn heillaður og undrandi í návist svona lítillar manneskju. Lífsviljinn og persónuleikinn skín í gegn frá fyrsta degi og daglega vinnast nýjir sigrar. Það er ekki laust við að maður öfundi kvenkynið af þeirra stórkostlega hlutverki í að ala í heiminn þessar litlu manneskjur og koma þeim á legg. Sem betur fer fáum við feðurnir sífelt meiri hlutdeild í því ævintýri með lengra fæðingarorlofi en líklega munum við þó aldrei komast með tærnar þar sem konurnar hafa hælana í þessum efnum.
Pælum í því !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
13.2.2008 | 22:59
Samstaða gegn fordómum - solidarnosk !
Frábært framtak hjá Bubba að segja "hingað og ekki lengra" og blása í herlúðra samstöðunnar gegn kynþáttahatri og fordómum á Íslandi. "Aktívistinn" Bubbi hefur greinilega engu gleymt !
Frábært einnig hjá Geir að leggja rödd sína í þennan samstöðukór Bubba enda gríðarlega mikilvægt að talsmenn umburðarlyndis láti nú vel í sér í ser heyra. Sem betur fer er ég þess full viss að þau sjónarmið eru ráðandi meðal Íslendinga og lang flestir gera sér fulla grein fyrir því að framlag innflytjenda til íslensks samfélags er ómetanlegt - ekki síst á undanförnum árum.
Um leið og ég hvet Bubba, Geir og aðra þá sem ætla að taka þátt í tónleikunum "Bræður og systur" til dáða, má ég til með birta hér annan bút úr ræðu sem ég flutti sem formaður Innflytjendaráðs á málþingi þess fyrri nokkru síðan. Umfjöllunarefnið á ágætlega við, nú þegar grasrótin lætur svo kröftuglega til sín taka í málefnum innflytjenda.
"Að mínu viti felst gríðarlegur styrkleiki í reynslu og atgerfi þess fjölmenna og fjölbreytta hóps einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja, stofnanna og sveitarfélaga sem hafa komið með mismunandi hætti að málefnum innflytjenda á undanförnum árum. Í raun má segja að fram til þessa dags hafi uppbygging þjónustu og mótun samfélagsins í málefnum innflytjenda á Íslandi byggst á frumkvæði þessara aðila, að miklu leiti án teljandi afskipta ríkisvaldsins, hvort sem litið er til lagaskyldu eða beinnar þáttöku. Fyrsta stefna ríkisstjórnar í málefnum innflytjenda var enda samþykkt á sl. ári og engin heildstæð lög eru enn til um aðlögun innflytjenda í íslensku samfélagi.
Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur á sama tíma fjölgað mjög ört á undanförnum árum. Fyrir fimm árum voru þeir vel innan við 4% mannfjöldans, en eru í dag tæp 7% , ekki færri en 21 þúsund manns. Þá eru ekki taldir þeir íslensku ríkisborgarar sem af erlendu bergi eru brotnir, en þeim hefur einnig fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Þegar norðurlöndin eru borin saman kemur í ljós að hlutfall erlendra starfsmanna á vinnumarkaði er nú orðið hæst á Íslandi, uþb 10 % , tvöfalt hærra hlutfall en hjá Svíum sem næstir koma. Sú staðreynd að þriðjungur félaganna í Eflingu eru erlendir ríkisborgarar, en voru 16% fyrir rúmu ári síðan bera þessari fjölgun skýran vott og virkri þátttöku innflytjenda á vinnumarkaði. Félagasmenn Eflingar eru nú af 134 þjóðernum. Hugsið ykkur auðlegðina ! Ég leyfi mér að efast stórlega um að nokkur félagsskapur á Íslandi geti státað af slíkum fjölbreytileika innan sinna vébanda.
En þrátt fyrir að ríkisvaldið, sveitarfélögin og í raun samfélagið allt hafi verið ílla undir það búin að taka á móti svo mikilli fjölgun innflytjenda á svo skömmum tíma, hefur okkur fram að þessu lánast alveg ótrúlega vel. Smátt og smátt hafa sprottið upp frjóangar ýmiskonar starfsemi, vítt og breytt um landið til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem innflytjendastraumurinn hefur kallað á.
Segja má að Reykjavíkurborg hafi rutt brautina með stofnun Miðstöðvar nýbúa og síðar Alþjóðahúsi í samvinnu við nágrannasveitarfélöginn. Þar var lagður traustur grunnur að öflugum vettvangi fyrir innflytjendur þar sem upplýsingamiðlun og fjölmenning er í brennidepli. Fjölmenningarsetrið á Ísafirði markaði einnig tímamót en sú starfsemi hefur í raun verið flaggskip ríkisvaldsins í málefnum innflytjenda, þrátt fyrir þröngan kost og þá staðreynd að enn er hún rekin sem tilraunaverkefni.
Á undanförnum tveimur árum hafa sífelt fleiri sveitarfélög hafist handa og starfar þar hver með sínu nefi. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur unnið sameiginlega að stefnumótun fyrir fjórðunginn, Fjarðabyggð vinnur að heildstæðu móttökuferli sem þau kalla Nýir íbúar á góðum stað. Bolvíkingar vinna að eflingu velferðarþjónustu við innflytjendur og mótun móttökuferlis. Á Húsavík er unnið að þessum málum í samvinnu sveitarfélags og verkalýðsfélagsins á staðnum og hefur verkalýðsfélagið fóstrað verkefnið. Í Reykjanesbæ er viðamikið þróunarverkefni hafið þar sem sjónum er sérstaklega beint að fólki af pólskum uppruna og svo mætti lengi telja. Aðferðirnar eru eins margar og staðirnir eru margir.
Hér gefst ekki ráðrúm til að geta allra þeirra góðu verka sem unnin eru á þessu sviði, en fjölbreytileikinn og gróskann kom skýrt fram í þeim mikla fjölda verkefna sem sóttu um styrki til Þróunarsjóðs Innflytjandamála að þessu sinni.
Ég get hinsvegar ekki látið hjá líða að nefna sérstaklega Rauðakrossinn annarsvegar og ASÍ og launþegahreyfinguna hinsvegar. Launþegahreyfingin hefur látið málefni innflytjenda sig miklu skipta á undanförnum árum og hefur gengið fram fyrir skjöldu í ýmsikonar réttindagæslu, miðlun upplýsinga og fræðslu. Þá hefur Rauði krossinn unnið ötullega að innflytjendamálum í mörg ár og eru þau reyndar efst á baugi hjá hreyfingunni um þessar mundir. Sú áhersla sem Rauði krossinn leggur á að virkja innflytjendur í félagsstarf og efla tengslanet þeirra og félagslegan styrk er afar þýðingarmikið ekki síst í því mikla kunningjasamfélagi sem ísland er.
Liðsynni þessara öflugu samtaka er málefnum innflytjenda gríðarlegur styrkur.
Lykillinn að framtíðar uppbyggingu og þróun í málefnum innflytjenda liggur í því að nýta þá þekkingu og reynslu sem til staðar er og tryggja áframhaldandi virkni og nýsköpun sem flestra í samfélaginu. Kraftmeiri aðkoma ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sem bæði er nauðsynleg og yfirlýst, verði þannig til að hlúa að og styrkja þau blómstur sem fegurst eru í aldingarði innflytjendamálanna og ekki síður tryggja að þau sem ekki hafa enn skotið lífvænlegum rótum finni frjóa mold, vaxi og dafni."
Pælum í því !
Forsætisráðherra ætlar að taka lagið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.1.2008 | 21:14
Tímamót - fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi
Á föstudaginn stóð Innflytjendaráð og félags- og tryggingarmálaráðuneytið fyrir afar vel heppnuðu málþingi um innflytjendamál. Málþingið var liður í vinnu Innflytjendaráðs við mótun framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda, en það verkefni fól félagsmálaráðherra ráðinu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Við setningu málþingsins flutti ég ávarp sem formaður Innflytjendaráðs og sagði þá m.a.:
Við stöndum á tímamótum. Á örfáum árum hefur Ísland orðið fjölmenningarlegt samfélag og sú þróun hefur nánast öll átt sér stað á jákvæðum forsendum ólíkt því sem víðasthvar hefur gerst. Krafturinn í efnahagslífinu hefur á ári hverju laðað til landsins þúsundir erlendra ríkisborgara sem með atgerfi sínu hafa gert þá efnahagsveislu sem staðið hefur yfir mögulega og breytt íslensku samfélagi til frambúðar.
Nú reynir á hvernig við nýtum þessa breyttu stöðu. Mun okkur auðnast að rækta þann mannauð sem komin er til landsins og nýta okkur styrkleika fjölmenningarsamfélagins í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem fyrirtækin okkar og samfélagið allt standa í ?
Í áramótaávarpi sínu fjallaði forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson um þá breyttu stöðu sem þjóðir heims standa nú frami fyrir vegna alþjóðavæðingarinnar og aukinna möguleika hvers einstaklings til að velja sér land til búsetu. Í raun kom hann þar að kjarna þess sem innflytjendamál snúast um, því sem hann kallaði sjálfstæðisbaráttu þessarar aldar. Ég má til með að vitna hér til ávarps forsetans:
Að tryggja nýrri kynslóð farsæla framtíð í heimalandi er í reynd sjálfstæðisbarátta þessarar aldar, kjarninn í viðleitni stjórnvalda og atvinnulífs. Án árangurs á því sviði munu þjóðirnar bíða stórfellt tjón, eiga erfitt með að sækja fram og treysta grundvöll lífskjaranna.
Unga kynslóðin í okkar heimshluta er hin fyrsta sem býr við þá stöðu að hver og einn, karl eða kona, getur kosið sér land til búsetu. Hvorki stjórnarskrá, löggjafarþing né ríkisvald veita þá tryggingu sem úrslitum ræður. Nú hefur sérhver íbúi ákvörðun í eigin hendi og dæmir sjálfur hvar best er að vera; engin vistarbönd halda þeim sem vilja hasla sér völl í öðru landi.
Ég hygg að forseti vor hafi þarna lög að mæla sem oftar. Sjálfstæðisbarátta framtíðarinnar mun snúast um fólk - mannauðinn. Árangur undanfarinna ára sýnir að Ísland hefur staðið sig vel í samkeppninni um fólk, ekki bara í því að halda íslendingum heima, heldur einnig í því að laða til Íslands þúsundir innflytjenda.
Þannig þurfum við að nálgast málefni innflytjenda að mínu viti sem sjálfstæðsibaráttu nýrrar aldar, samkeppni um fólk, ekki síðra en sú innfædda æska sem við svo gjarnan viljum efla rækta og styrkja og tryggja að finni sér farveg og rætur í íslensku samfélagi. Við eigum að fagna hverjum nýjum þegn sem vill leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, leita leiða til að styrkleikar hvers og eins fái notið sín og fjölbreytileikin blómstri .
Pælum í því !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 00:13
Stoltur faðir
Stóra stelpan mín, hún Særós Mist hefur enn einusinni gert föður sinn gapandi af undrun.
Ég verð að viðurkenna að ég tók því með hæfilegum fyrirvara þegar hún tilkynnti mér fyrri uþb hálfu ári síðan að í stað þess að sækja um hjá Vinnuskólanum, ætlaði hún að vinna sér inn aura fyrir veturinn með því að hanna og sauma nokkrar fatalínur fyrir konur og selja síðan afraksturinn. Fyrri hluta ársins ætlaði hún að nýta til að hanna, sauma og undirbúa en sumarið til að kynna afraksturinn, halda tískusýningu og selja síðan fötin í samstarfi við einhverja góða verslun.
Að sjálfsögðu kvatti ég hana til dáða, enda sagðist hún þegar búin að kaupa sér saumavél og fyrstu sniðin væru að taka á sig mynd. Þegar hún er í slíkum ham stöðvar hana enda fátt, nema hún sjálf ákveði að sveigja af leið.
Nú, nokkrum mánuðum síðar hanga á herðatrjám 21 alklæðnaður fyrir konur, tískuljósmyndir með fyrirsætum af öllum fötunum, samningur við verslun um söluna, plaköt og kynningarefni fyrir tískusýninguna og allur undirbúningur er á lokastigi. Markmiðið er nánast í höfn !
Um leið og ég óska Særós minni hjartanlega til hamingju með afrekið, hvet ég alla áhugasama um að skoða sýnishornin á síðu hennar og ekki síður mæta á tískusýninguna og kaupa sér föt !
Háleitir draumar geta svo sannarlega orðið að veruleika - þó maður sé bara 15 !
Pælum í því !
Fimmtán ára fatahönnuður heldur sýningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
2.7.2007 | 00:37
Gunnfáni jafnaðarmanna
Það var fróðlegt og skemmtilegt að lesa sunnudagsviðtöl Péturs Blöndal í Morgunblaðinu við vinstrimennina sem nú höndla sem ráðherrar með viðskipti og fjármál á Íslandi annarsvegar og Indlandi hinsvegar. Mikill samhljómur var með þeim bræðrum í andanum Björgvini Sigurðssyni viðskiptaráðherra og P. Chidambaram, fjármálaráðherra Indlands og greinilegt að þessir forystumenn jafnaðarmanna hafa áttað sig á því að alþjóðavæðing viðskiptanna er eitt af mikilvægustu tækjunum sem við eigum í baráttunni gegn fátækt og fyrir aukinni velsæld allra jarðarbúa.
P. Chidambaram hefur verið ötull baráttumaður fyrir auknu frjálsræði í viðskiptum um árabil og rekur ævintýralegan uppgang efnahagslífsins á Indlandi til slikrar þróunar. Einn þáttur í þeirri þróun er að greiða leið fjárfestinga til og frá Indlandsmarkaði og í þeim erindagjörðum var hann einmitt staddur hér á landi. Það verður gaman að fylgjast með framhaldi þess máls.
Ég hef áður fjallað um mikilvægi alþjóðavæðingarinnar og aukins viðskiptafrelsis í baráttunni gegn fátækt í heiminum og er sannfærður um að það er ein mikilvægasta forsendan fyrir raunverulegum árangri. P. Chidambaram setur málefnið hinsvegar í þannig samhengi, þegar hann lýsir áhrifum þessarar þróunar fyrir Kína og Indland að um það þarf varla að hafa fleiri orð:
Bæði ríkin munu setja mark sitt á 21. öldina og það verður öldin þar sem 2,5 milljarðar ná sömu velmegun og Evrópa nýtur í dag
Björgvin orðar þetta hinsvegar þannig með sínum kjarnyrta hætti:
Viðskiptafrelsi er hin hliðin á jafnaðarstefnunni
Ég get tekið heilshugar undir með þeim félögunum báðum en hverjum hefði nú dottið í hug fyrir svona 20 árum að einn helsti gunnfáni okkar jafnaðarmanna á 21. öldinni yrði viðskiptafrelsið ?
Pælum í því !
Maðurinn með útvarpsröddina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.6.2007 | 14:45
Já, ráðherra !
Þá er komið að enn einum kaflaskiptunum í lífi mínu, en í dag mun ég ljúka störfum hjá Mömmu ehf. til að hefja störf sem aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra.
Það er óneitanlega skrýtin tilfinning að hoppa með svo skömmum fyrirvara í djúpu laug stjórnmálanna, enda ríflega 5 ár síðan ég hætti sem borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og hef síðan átt afar skemmtilegan tíma sem markaðs- og sölustjóri hjá þremur öflugum fyrirtækjum á miklum umbrotatímum þeirra - Eddu útgáfu, 365 og Mömmu ehf.
Ekkert benti til annars en framhald yrði á þessari braut, enda á kafi í MBA-námi og framundan afar spennandi tími hjá Mömmu þar sem harðsnúinn og skemmtilegur hópur hefur undanfarið ár byggt upp öflugt þjónustu- og sölufyrirtæki sem á framtíðina fyrir sér. Ég mun sannarlega sakna þeirra góðu samstarfsmanna!
En tilboði um að starfa sem aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki hægt að hafna, hvað þá þegar verkefni hennar er ráðherradómur í því spennandi stjórnarsamstarfi sem nú er hafið. Ötulli og einlægari stjórnmálamaður en Jóhanna er vandfundinn og þau krefjandi og metnaðarfullu verkefni sem stjórnarsáttmálinn felur Félagsmálaráðuneytinu hljóta að kitla hvern þann sem getur hugsað sér að starfa á vettvangi stjórnmálanna og vill sjá hugmyndir verða að veruleika.
Ég hoppa því glaður í djúpu laugina, með barnslegan fiðring í maganum og einbeittan vilja um að gera mitt allra, allra besta. Allar þær góðu óskir og sú hvatning sem ég hef fengið undanfarna daga, bæði hér í bloggheimum og annars staðar styrkja mig mjög í þeirri för og ylja um hjartarætur. Kærar þakkir !
Eitt af því sem einkennir nefnilega stjórnmálin að mínu viti er skortur á hvatningu og jákvæðri endurgjöf þegar vel er gert. Atvinnulífið hefur fyrir löngu áttað sig á mætti hróssins í viðleitni við að ná betri árangri, en í stjórnmálunum virðast menn enn standa í þeirri trú að skammir og fúkyrði dugi best til að halda mönnum við efnið. Væri ekki ráð að breyta því ?
Pælum í því !
Bloggar | Breytt 30.6.2007 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
22.6.2007 | 15:14
Enn um þróunaraðstoð og aðkomu atvinnulífs.
Ragna Sara, sem stundar nú nám í þróunarfræðum í Kaupmannahöfn sagði frá reynslu dana í þróunarmálum, en þeir hafa reynt ýmsar leiðir til að tengja saman atvinnulíf og þróunarstaf með misjöfnum árangri. Einna best hefur reynst að fjárfesta í verkefnum þar sem heimamenn eru hafði með í ráðum allt frá upphafi, og þannig tryggt eftir föngum að þekkingin og reynslan verði eftir á staðnum þó verkefnin sjálf líði undir lok.
Þorgeir Pálsson miðlaði á hinn boginn af reynslu sinni og ráðgjafarstörfum, um mikilvægi þess að taka með í reikninginn mismunandi menningarheima og grundvallargildi menningar þess lands sem starfa ætti í. Hið mannlega eðli, grundvallargildi einstaklingsins og þjóðarsálin skipa nefnilega mestu máli þegar á hólmin er kominn, en ekki vélarnar, tæknin eða verkþekkingin sem flytja á inn.
Þó báðir fyrirlestrarnir hafi verið fluttir út frá þeirri forsendu þróunarstarfsemi á innihald þeirra við um alla atvinnustarfsemi eða verkefni skipulagsheilda að mínu viti. Bilið á milli mismunandi forsendna þeirra sem koma að málum er bara mis breytt. Inna sama landsvæðis eða atvinnugeira er það vissulega smærra en þegar heimsálfur skilja að, en mismunandi menningarheimar eða sýn á lífið er það samt. Í öllum okkar samskiptum verðum við að hafa það í huga. Rautt er nefnilega ekki alltaf rautt og blátt, blátt.
Pælum í því !
Þúsaldarmarkmið um menntun fyrir öll börn næst ekki að óbreyttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.6.2007 | 08:51
Er uppreisn í Sjálfstæðisflokkunum ?
Hvað er eiginlega í gangi í Sjálfstæðisflokknum ? Ég man varla eftir eins harkalegum orðaskiptum innan þess flokks í mörg herrans ár. Fjármálaráðherra flokksins sakar einn af þingmönnum flokksins um að grafa undan fiskveiðistjórnunarkefinu og á sama tíma ræðst fyrrum samgönguráðherra flokksins að samþingmanni sínum úr Norðvesturkjördæmi, núverandi sjávarútvegsráðherra og stendur í heitingum.
Undir þessum orðahnippingum forystumanna sjálfstæðisflokksins syngur síðan ritstjóri Morgunblaðsins hefðbundna heiftarsöngva í garð þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem leyfðu sér að vinna að núverandi stjórnarsamstarfi - ekki síst til menntamálaráðherrans sem virðist eiga að axla ábyrgðina á "skömminni".
Er Davíðsarmurinn að undirbúa uppreisn ?
Pælum í því
Telur gagnrýni Einars Odds ekki trúverðuga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 16:07
Er mannauðurinn mikilvægari í íþróttum en annarsstaðar ?
Ég las fyrir nokkru grein eftir Adrew Sikula um Fimm stærstu lygar mannauðsstjórununarinnar. Frumleg og forvitnileg grein um þessa loðnu fræðigrein og skemmtileg nálgun hjá innanbúðarmanni að ráðast með þeim hætti sem hann gerir á nokkrar af stoðum kenninganna. Reyndar er þetta allt gert á þeim forsendum að auðvelt er fyrir viðkomandi að standa við kenningarnar eftir sem áður, en ef mark væri takandi á framkvæmd mannauðsstjórnunar, er óhætt að taka undir að kenningarnar virðast ekki virka sem skildi.
Skemmtilegust fannst mér umfjöllun greinarinnar um þá klisju, að mannauðurinn væri mikilvægasta eign hvers fyrirtækis og þá eign þyrfti að meðhöndla sem slíka. Auðsætt er að það er í fæstum tilvikum raunin enda á það bent að fæst hefðbundin fyrirtæki færa mannauðinn til eignar og allt sem honum viðkemur er fært á kostnaðarhlið rekstrarreikningsins. Aðeins íþróttafélög virðast hafa getað útbúið kerfi sem raunverulega metur starfsmennina til eignar og þl. umgangast þá eign með tilhlíðilegri viðringu. Getur atvinnulífið ekki lært eithvað af íþróttafélögunum að þessu leiti ? eða eiga réttindi íþróttamanna að vera eithvað frábrugðin réttindum annarra einstaklinga þegar kemur að eingarhaldi vinnuveitenda ?
Ég hef svosem ekki hugsað þessa hugsun til enda, en mér finnst ýmislegt í aðferðafræði íþróttafélaganna áhugavert og líklegt til að bæta stöðu mannauðsmála ef hægt væri að yfirfæra þá aðferðafræði á hefðbundin fyrirtæki. Fyrirtækin gætu þannig t.d. fárfest ótæpilegar í mannauðnum í formi fræðslu, þjálfunar og menntunar vitandi að sú fjárfesting myndi skila sér til baka, annaðhvort í formi hærra söluverðs viðkomandi starfsmanns eða með aukinni færni hans innan fyrirtækisins. Fyrirtækin þyrftu einnig að hugsa sig tvisvar um áður en þau myndu reka einhverja starsmenn, enda væru þau þar með að afsala sér eignum sem þau hefðu áður fjárfest í og þess myndu sjást merki í efnahagsreikning fyrirtækisins.
Ýmis fleiri jákvæð dæmi mætti nefna og sjálfsagt einhver neikvæð líka. Spurningin er hinsvegar sú hvort ekki leynist hjá atvinnumannaíþróttaliðunum einhver lykill í mannauðsstjórnun sem hægt væri að nýta til að bæta umgegni atvinnulífsins við mannauðin sem í því býr.
Pælum í því !
Býður West Ham 12 milljónir punda í Eið Smára? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.6.2007 kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)