Tímamót - fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi

Á föstudaginn stóð Innflytjendaráð og félags- og tryggingarmálaráðuneytið fyrir afar vel heppnuðu málþingi um innflytjendamál. Málþingið var liður í vinnu Innflytjendaráðs við mótun framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda, en það verkefni fól félagsmálaráðherra ráðinu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Við setningu málþingsins flutti ég ávarp sem formaður Innflytjendaráðs og sagði þá m.a.:

Við stöndum á tímamótum. Á örfáum árum hefur Ísland orðið fjölmenningarlegt samfélag og sú þróun hefur nánast öll átt sér stað á jákvæðum forsendum ólíkt því sem víðasthvar hefur gerst. Krafturinn í efnahagslífinu hefur á ári hverju laðað til landsins þúsundir erlendra ríkisborgara sem með atgerfi sínu hafa gert þá efnahagsveislu sem staðið hefur yfir mögulega og breytt íslensku samfélagi til frambúðar.

Nú reynir á hvernig við nýtum þessa breyttu stöðu. Mun okkur auðnast að rækta þann mannauð sem komin er til landsins og nýta okkur styrkleika fjölmenningarsamfélagins í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem fyrirtækin okkar og samfélagið allt standa í ?

Í áramótaávarpi sínu fjallaði forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson um þá breyttu stöðu sem þjóðir heims standa nú frami fyrir vegna alþjóðavæðingarinnar og aukinna möguleika hvers einstaklings til að velja sér land til búsetu. Í raun kom hann þar að kjarna þess sem innflytjendamál snúast um, því sem hann kallaði “sjálfstæðisbaráttu þessarar aldar”. Ég má til með að vitna hér til ávarps forsetans:

“Að tryggja nýrri kynslóð farsæla framtíð í heimalandi er í reynd sjálfstæðisbarátta þessarar aldar, kjarninn í viðleitni stjórnvalda og atvinnulífs. Án árangurs á því sviði munu þjóðirnar bíða stórfellt tjón, eiga erfitt með að sækja fram og treysta grundvöll lífskjaranna.

Unga kynslóðin í okkar heimshluta er hin fyrsta sem býr við þá stöðu að hver og einn, karl eða kona, getur kosið sér land til búsetu. Hvorki stjórnarskrá, löggjafarþing né ríkisvald veita þá tryggingu sem úrslitum ræður. Nú hefur sérhver íbúi ákvörðun í eigin hendi og dæmir sjálfur hvar best er að vera; engin vistarbönd halda þeim sem vilja hasla sér völl í öðru landi.”

Ég hygg að forseti vor hafi þarna lög að mæla sem oftar. Sjálfstæðisbarátta framtíðarinnar mun snúast um fólk - mannauðinn. Árangur undanfarinna ára sýnir að Ísland hefur staðið sig vel í samkeppninni um fólk, ekki bara í því að halda íslendingum heima, heldur einnig í því að laða til Íslands þúsundir innflytjenda.

Þannig þurfum við að nálgast málefni innflytjenda að mínu viti – sem sjálfstæðsibaráttu nýrrar aldar, samkeppni um fólk, ekki síðra en sú innfædda æska sem við svo gjarnan viljum efla rækta og styrkja og tryggja að finni sér farveg og rætur í íslensku samfélagi. Við eigum að fagna hverjum nýjum þegn sem vill leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, leita leiða til að styrkleikar hvers og eins fái notið sín og fjölbreytileikin blómstri .

Pælum í því !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Hrannar.

Átti þess ekki kost að sækja þessa ráðstefnu, en vil segja það eitt að það er að mörgu að hyggja í þessum málum, og fyrr en síðar þurfum við að staldra við og spyrja okkur um hve marga í einu við Íslendingar getum mögulega raunverulega boðið velkomna, hvað varðar það atriði að við séum með réttu að bjóða fólk velkomið í samfélag jöfnuðar millum manna , hvað lífskjör varðar.

Við höfum ekki staðið okkur nógu vel að bjóða erlendu verkafólki möguleika til þess að læra vort tungumál svo eitt atriði sé nefnt og geta þannig aðlagast þjóðfélaginu og áskapað afkomendum betri möguleikum hér til lengri tíma litið.

En takk fyrir þetta.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.1.2008 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband