19.6.2009 | 15:53
Lánshæfismati Íslands bjargað ?
Upphrópanirnar, gífuryrðin og öfugmælin sem höfð eru uppi í umræðunni um Icesave-samkomulagið eru með miklum ólíkindum. Er ástandið í þjóðfélaginu virkilega orðið þannig að það sé hægt að segja hvað sem er án þess að vera krafinn raka fyrir stóryrðunum ?
Hvernig í ósköpunum geta menn t.d. fundið það út að lánshæfismati Íslands sé stefnt í voða með gerð samkomulagsins um Icesave ? Sömu menn leggja reyndar sumir til að Ísland lýsi því yfir að það muni ekki greiða skuldir sínar, en þar með yrði lánshæfismat Íslands að sjáfsögðu ekkert. Ég hef ekki séð fjölmiðla elta undarlega röksemdafærslu þessara manna.
En óttist einhverjir í raun að samkomulagið um Icesave hafi neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands, þá bið ég þá að hugleiða eftirfarandi:
a) Það er ekkert sem gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við IMF og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir.
b) Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt.
c) Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla.
d) Samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við. Það ætti ótvírætt að bæta lánshæfismat ríkisins að búið er að tryggja þetta.
e) Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar.
f) Reynsla annarra ríkja af fjármálakreppum gefur ekki ástæðu til annars en að ætla að samdráttur vegna þeirra geti orðið djúpur en snarpur og að ekki taki mörg ár að ná aftur upp hagvexti. Engin ástæða er til annars en að ætla að það verði einnig raunin hér, þótt hrun íslenska fjármálakerfisins hafi verið verra en flest fordæmin. Þegar við náum vopnum okkar aftur búa Íslendingar að sama mannauði, sömu innviðum og náttúruauðlindum og áður en fjármálakreppan skall á. Ekki er ástæða til annars en að ætla að okkur takist að nýta þetta sem fyrr til að halda uppi blómlegu efnahagslífi sem skilar góðum lífskjörum til almennings og verulegum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga.
g) Langtímahorfur eru því ágætar og lánshæfismat íslenska ríkisins mun endurspegla það þegar um hægist og mestu óvissunni hefur verið eytt. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.
Allt tal um að samkomulagið um IceSave hafi neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands virkar því á mig eins og öfugmælavísa af verstu sort, ekki síst þegar slíkt tal kemur frá einstaklingum sem bera ekki meiri umhyggju fyrir lánshæfismati Íslands en svo, að þeir vilja að það lýsi því yfir að það muni ekki greiða skuldir sínar. Slík yfirlýsing myndi á augabraði tryggja að lánshæfismat Íslands yðri að engu !
Pælum í því !
Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki málið það, að þetta er ekki skuld íslenska ríkisins. Er ríkisábyrgð á Tryggingarsjóði innistæðueigenda í Evrópu?
Hérna var undirritaður að hugleiða þetta og ekki ástæða til að endurskrifa það hér.
Kveðja,
Axel.
Axel Jóhann Axelsson, 19.6.2009 kl. 16:31
Heyr heyr- Það er hreint út sagt ótrúlegt og hálf sorglegt að sjá íslendinga APAST upp út af þessu máli. Það er allt dramatíserað til andskotans í stað þess að kynna sér málin og sjá á svörtu og hvítu hvað raunverulega er að gerast.
Brynjar Jóhannsson, 19.6.2009 kl. 16:38
Mikilvægt er að þegar farið er í samninga milli ríkja að sanngirni, nærgætni og heiðarleika sé gætt. Jafnframt skal þess gætts að mætast á miðri leið, sé staðan "járn í járn". M.ö.o. báðir aðilar gefa eftir.
Þetta hefur ekki verið reyndin varðandi vinnslu þessa samkomulags.
Það sem skeði var að íslendingar sendu út nokkra embættismenn en mættu heilum her lögmanna. Afleiðingin er þetta plagg sem nú liggur til skoðunar og samið var af evrópusambands-lögmönnunum með hagsmuni innistæðueiganda - og Evrópusambandsins alls að leiðarljósi.
M.a. er verið að reyna að þvinga íslendinga til að játast lögsögu breta í þessu og afsala sér rétt á því að fara með málið undir alþjóðlegan, hlutlausan dómsstól. Þetta er grimmileg og alvarleg atlaga siðlausra aðila á land og þjóð. Aðila sem hafa ekki snefil af virðingu fyrir okkur hér. Í þessu nær fáránleikinn hæstu hæðum og vandamálin byrja fyrir alvöru.
Ég á ekki "til orð yfir" þetta í raun, þó ég sé að reyna að koma hugsunum mínum á blað - ég svo hneykslaður á vanhæfi nefndarinnar og þeirra stjórnmálamanna sem studdu við bakið á þeim - að láta sér detta í hug að samþykkja þetta afsal.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 16:48
Sæll Hrannar
Liður e, vakti athygli mína " Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar" hvað eru langtímahorfur langar hjá þér, það þætti mér gaman að vita, þetta er eins og með verðbólguna, langtímahorfur áttu að vera góðar, en til skammstíma slæmar, þetta er maður búinn að heyra frá 2000 og enn er verðbólguhorfur slæmar til skammstíma og nú er 2009, því væri gott ef þú gætir sagt hvað langtímahorfur væru langur tími. Reyndar tel ég að Langtímahorfur og til skammstíma séu ofnotuðustu hugtök stjórnmálamanna þegar að þeir þurfa að fegra eitthvað.
Birkir Hrannar Hjálmarsson
Birkir Hrannar hjálmarsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 19:24
Erlendar skuldir þjóðarbúsins fyrir ICESAVE eru um 8-faldur vöruútflutningur okkar eða 5-faldur vöru- og þjónustuútfluttningur okkar, en aðeins gjaldeyristekjur geta greitt þá gerð af skuldum enda taka þeir ekki íslenskar. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 var jákvæður vöru- og þjónustujöfnuður um 7,5% af heildar vöru- og þjónustuútflutningi sem er að því er ég best fæ sé met. Til að við getum greitt vexti af þessum lánum þjóðarbúsins verðum við að 4-falda þennan met vöru- og þjónustujöfnuð og þá er ekki einu sinni hugað að neinum afborgunum. Þetta verður varla gert nema innflutningur verði skorinn svo mikið niður að lífskjör verða hér á pari við það sem gerist í fátækustu löndum Evrópu og slík lífskjör munu án efa valda stórfelldum landsflótta sem aftur gerir baráttuna við lánin þeim mun erfiðari. Niðurstaðan virðist vera sú að reyna að fá lán fyrir vöxtunum svo hægt sé að standa við afborganir en slíkt kallast líka ponzi-svindl og er dæmt til að hrynja með miklum afföllum. Kannski eru hinir erlendu lánadrottnar tilbúir til að láta Ísland tæmast með auknum afföllum til þess eins að þurfa ekki að afskrifa skuldir hér og nú en það er augljóst öllum sem vilja sjá það að grunnstærðirnar í íslensku hagkerfi ganga ekki upp sem síðan skýrir okkar lága lánshæfismat. Við getum horfst í augu við það í dag eða seinna en hið gjaldfall hins íslenska hagkerfis er óumflýjanlegt nema við fáum endursamið um skuldirnar okkar á þann hátt að við séum ekki neidd til að vera með meira en 15-20% jákvæðan vöru- og þjónustuskiptajöfnuð.
Héðinn Björnsson, 19.6.2009 kl. 20:22
Það sem oft gleymist í þessari umræðu er að í versta falli er eignasafn LB (gamla) 85% fyrir IC-skuldum, í besta falli 100%. Hafa menn pælt í því?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 22:28
Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, einn helsti sérfræðingur Íslendinga í löggjöf Evrópusambandsins, segir Icesave samninginn óvenjulegan og spurning sé hvort stjórnarskráin leyfi að hann sé samþykktur. Hann segir marga óvissuþætti í samningnum og að hann gæti hugsanlega skert fullveldi íslands. Þetta verði þingmenn að hafa í huga og þeir verði að meta hvort samningurtinn feli í sér svo mikið afsal fullveldis að um brot á stjórnarskrá gæti verið að ræða.
Icesave-samningurinn felur það í sér að eignir Landsbankans gamla gangi upp í Icesave-skuldina. En hverjar eru þessar eignir - enginn ábyrgur hefur stigið fram og tilgreint þær. En Pétur Richter verkfræðingur og bankamaður fór á heimasíðu Landsbankans og fann upplýsingar um þær þar. Rætt verður við Pétur í Spegli dagsins.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 20.6.2009 kl. 01:49
Ég frábið mér að að hafa verið með upphrópanir og gífuryrði út af uppkastinu af Icesave-samningunum. Ég hef skrifað eina færslu um málið. Þar velti ég fyrir mér hvar upphafleg víglína væri í málinu, gerði grein fyrir varnarþingi aðila og dómstóli og bar brigður á að eignasafnið væri eins gott og af er látið ég tel að það hafi verið allt málefnalegt og eðlilegt.
Hvar getur almenningur skoðað þetta eignasafn? Eru þetta bújarðir, framleiðslufyrirtæki, skipafélög eða hvað? Gott væri að fá upplýsingar um það.
Færsluritari spyr hvort ástandið sé orði virkilega svona slæmt o.s frv. Það eina sem ég get ráðlagt honum í því máli er að fara suður á Álftanes og spyrjast fyrir það mál á bæjum þar.
Og svo með þingi, er það örugglega löglega kosið og hvað ef það er ekki löglega kosið? Eru þá allar athafnir þess ónýtar og einskis virði?
Þorsteinn H. Gunnarsson, 20.6.2009 kl. 08:55
Hrannar, mér vitanlega er enginn að tala um að Ísland eigi ekki að greiða skuldir sínar. Hins vegar er verið að tala um að fá það á hreint hverjar skuldi landsins raunverulega eru! Þá fyrir dómstólum sem er hin eðlilega og siðsamlega leið þegar ekki er sátt um slík mál.
Það er hins vegar ekki siðuð leið að stór ríki kúgi lítið ríki með hótunum ef það fer ekki í öllu að eins og þau vilja og neiti að láta hlutlausa dómstóla skera úr deilumálum.
Kannski þarftu að líta í eigin barm áður en þú sakar aðra um upphrópanir, gífuryrði og öfugmæli?
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.6.2009 kl. 13:10
Dósent við Háskólann í Reykjavík segir að það sé ekki sjálfgefið að íslenska ríkið fái eignir Landsbankans til ráðstöfunar upp í Icesave-skuldirnar.
Þá höfum við það.
Ef ríkin tvö England og Holland ábyrgjast ekki friðarskyldu á eignum Landsbankans þá er þetta Icesave-uppkast einskis virði, og takið eftir ég kalla þetta uppkast en ekki samning eins og stjórnmálamennirnir eru að reyna blekkja fólk með að tala. Samningur er ekki samningur fyrr en búið er að staðfesta hann.
Þetta er alveg nýtt sjónarhorn, sem dósentinn setur fram. Geta lögfræðingar stefnt fjárkröfum á Landsbankann fyrir dómstóla eða ekki og þurrkað upp eignir hans. Þetta þarf að upplýsa.
Mér sýnist allt málið og þingið, sem á að taka ákvörðum standa á brauðfótum.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 20.6.2009 kl. 13:50
Fyrir utan allt annað er þetta mál alveg einstaklega illa undirbúið í alla staði ef hægt er að tala um undirbúning. Rétt eins og áform ríkisstjórnarinnar að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Ef þetta fólk getur ekki staðið almennilega að undirbúningi svona stórra mála, hvernig ætli vinnubrögðin séu þegar minni mál, en þó eftir sem áður mikilvæg, eru annars vegar?? Þetta er alveg ótrúlegt.
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.6.2009 kl. 14:52
Sæll Hrannar.
Ég held að gömlu stjórnarflokkarnir hafi gert sig að fíflum í þessari umræðu.
Tryggvi Þór hélt því fram að ef við myndum standa við icesave skilmálana þá myndi lánshæfi lækka. Tveimur dögum seinna þá kemur frétt á mbl.is þar sem Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Fitch talaði um að ef Íslendingar virtu ekki skuldbindingar sínar þá myndu þeir AFSKRIFA lánshæfi landsins.
Í gær þá hélt skuggaráðuneyti framsóknar (indefence) því fram Hollendingar myndu hirða af okkur Landsvirkjun ef af samningunum yrði. Seinna um daginn kemur frétt um að ríkið og Landsvirkjun hafi gert viðbúnaðarsamning vegna skuldsetningar fyrirtækisins og erfiðleika með endurfjármögnun. Ef lánshæfismatið yrði afskrifað þá fyrst myndi fyrirtæki á borð við Landsvirkjun vera hirt af lánadrottnum
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/19/landsvirkjun_og_rikid_gera_vidbunadarsamning/
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/06/19/einu_threpi_fra_thvi_ad_afskrifa_island/
Þessar fréttir stöldruðu mjög stutt við hjá mogga mönnum. Enda mjög óþægilegar skoðanabræðrum þeirra.
Andrés Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 15:35
Bendi á pistil Eyglóar Harðardóttur, sem einmitt spurði Jóhönnu Sigurðardóttur að þessu á Alþingi í fyrradag. Jóhanna gat ekki staðfest að eignir Landsbankans yrðu til ráðstöfunar upp í Icesave skuldbindingarnar. Samt er þetta helsta ástæðan fyrir því hvað þetta eru góðir samningar...
Jóhanna hefur semsagt staðfest ótta margra, að alls óvíst sé að eignir Landsbankans gangi upp í Icesave skuldina og alveg ljóst að fullyrðingar Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar um að 50 milljarðarnir á reikningi í Englandsbanka gangi beint upp í skuldina eru út í loftið.
Það er áhyggjuefni ef forystumaður samninganefndarinnar og fjármálaráðherra eru annað hvort að reyna að blekkja þjóðina, eða vita ekki betur.
http://eyglohardar.blog.is/blog/eygloh/entry/899073/
Sigurður (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 16:01
Flott og upplýsandi færsla hjá þér Hrannar, mér finnst þetta mál ekki flokkspólítískt í eðdli sínu. Þetta fjallar um heiður íslands og það að standa við skuldbindingar sínar og bera ábyrgð á sínum.
Mér finnst þetta svolítið eins og ef barnið mitt skemmir bíl nágrannans og ég mundi neita að borga..
Sigurbjörg Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 17:06
Takk fyrir pistilinn Hrannar,
Ertu ekki að gleyma aðalatiðinu Hrannar. Tryggingarsjóður innstæðueigenda er ekki og hefur aldrei verið með ríkisábyrgð. Tilskipun ESB kveður ekki á um ríkisábyrgð. Við vorum heldur ekki að mismuna á grundvelli þjóðernis enda voru innstæður Íslendinga og útlendinga tryggðar innanlands og að sama skapi voru innstæður Íslendinga og útlendinga EKKI tyggðar erlendis. Það að halda því fram að það sé verið að mismuna á grundvelli þjóðernis stenst því ekki skoðun.
Vissulega þarf að ná lendingu í þessu máli og semja en við eigum ekki að sætta okkur við þvinganir og hótanir. Það væri sérlega óábyrgt að ábyrgjast upphæðir sem ljóst er að við getum ekki staðið undir. Ef það er ágreiningur um túlkun skuldbindinga þá er það sjálfsögð og eðlileg krafa að fá niðurstöðu fyrir dómsstólum. Til þess þarf Ísland hins vegar kjarkaða og framsýna stjórnmálamenn - leiðtoga. Öll viljum við að áfram verði gott að búa á Íslandi og þessi samingur stefnir framtíð Íslands í hættu.
KK
Jón Helgi Egilsson
Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.