28.9.2008 | 10:33
En í hvað fara peningarnir ?
Sannarlega ánægjulegt að Kaupþing fái svona góð kjör og enn ein traustsyfirlýsing við bankann. Íslenskt efnahagslíf þarf svo sannarlega á því aðhalda um þessar mundir.
Ég verð hinsvegar að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á samhenginu í þessu hjá Kaupþingi. Fyrr í sumar buðu þeir út samskonar flokk og öfluðu bankanum 4,8 milljarða til húsnæðislána. Þá stóð ég í þeirri trú að útlán til fasteignakaupa myndu aukast verulega hjá Kaupþingi og loks sæi fyrir endan á því lánsfjárfrosti sem fram að því hafði ríkt í bankakerfinu um nokkurt skeið, þegar kom að fasteignalánum.
Ég lét mig dreyma um að aftur yrðri til virkur og lifandi húsnæðismarkaður með aðkomu bankanna enda hafði Íbúðalánasjóður þegar stigið fram og gert sitt í þeim efnum. Hækkað hámarkslánið í 20 milljónir og tekið upp markaðsviðmið í stað brunabótaviðmiðs.
En það gerðist ekki neitt hjá bönkunum - útlán þeirra voru í sögulegu lágmarki í júní og júlí samhvæmt tölum frá Seðlabankanum og samhvæmt Fasteignamatinu hafa engar markverðar breytingar orðið á fjölda kaupsamninga eða upphæð þeirra í ágúst heldur.
Heildarútlán alls bankakerfisins til fasteignakaupa í júní og júlí voru rúmar 400 milljónir í hvorum mánuði og Kaupþing hefur varla verið með meira en helming af því. Það virðist því ljóst að 4,8 milljarðarnir hafa farið í eitthvað allt annað en ný fasteignalán - amk sjást ekki merki þeirra á íslenska markaðnum, því miður.
Á þessu geta auðvitað verið eðlilegar skýringar. Ein gæti t.d. verið sú að ekki hafi verið eftirspurn eftir þessu fjármagni hjá Kaupþingi. Fólk hafi einfaldlega ekki viljað vextina sem í boði voru eða sé almennt að bíða með fasteignakaup. Í þessu sambandi er samt athyglisvert að horfa til þess að þær aðgerðir sem Íbúðalánasjóður greip til skiluðu sér strax í verulegri útlánaaukningu. Þörfin fyrir aukið lánsfé til fasteignakaupa virðist því vera til staðar.
Hvað sem þessu líður eru fréttir af nýjasta útboði Kaupþings ánægjuefni. Í því felst traustyfirlýsinga á bankann, vextir af íbúðalánaum bankans lækka og ef fjármagnið skilar sér út á fasteignamarkaðinn í þetta sinn, ætti það að hleypa auknu lífi í hrollkaldann markaðinn.
Pælum í því !
Kaupþing lækkar vexti á íbúðalánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nafni, markaðurinn tekur varla við sér fyrr en verðbólgan er komin á sæmilegt level. Kaupþing er að bjóða verðtryggð húsnæðislán á 6% vöxtum, sem þýðir að lánið mun hækka að minnsta kosti um 20% á einu ári miðað við verðbólguna í dag. Það er þetta sem frystir markaðinn, og það að fólk finnur ekki að verið sé að gera neitt í málinu. Þú ert í góðri stöðu til að koma hugmyndum til ráðherra eins og:
1) Bjóða óverðtryggð íbúðarlán á föstum vöxtum, t.d. 7%.
2) Fjórfalda vaxtabætur næstu 10 árin.
3) Stofna afskriftarsjóð lána.
4) Í samvinnu við sveitarfélög afnema eða lækka fasteignagjöld - a.m.k. af íbúðum eða húsnæði sem mikil lán hvíla á.
Þessi samsuða hugmynda er frá okkur Marínó G. Njálssyni komin, og bendi ég á greinar okkar í dag þessu máli til stuðnings.
Marínó: Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
Hrannar: Gætu óverðtryggð lán á föstum 7% vöxtum bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti?
Bestu kveðjur Hrannar B,
Hrannar B
Hrannar Baldursson, 28.9.2008 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.