23.3.2007 | 00:10
Frábært !
Þó eflaust verði ég hjáróma rödd í þeim umræðum sem vafalaust munu nú gjósa upp um kaupréttarsamninga Hreiðars Más og Sigurðar hjá Kaupþingi, þá má ég til með að nota þetta tækifæri og óska þeim félögum til hamingju - bæði með hagnaðinn af kaupréttarsamningunum en ekki síður með þann frábæra árangur sem þeir hafa náð í uppbyggingu Kaupþings.
Það er ekki lítils viðri fyrir Ísland, bæði efnahagslega og samfélagslega að slíkir afreksmenn í viðskiptum finni sér starfsvettang í íslensku atvinnulífi. Á örfáum árum hefur þeim tekist að breyta stöðnuðum og gamaldags banka og sjóðum úr ranni ríkisins í eithvert öflugasta viðskiptaveldi íslensks viðskiptalífs, viðskiptaveldi sem malar gull fyrir íslenskt samfélag.
Ætli margir átti sig á því, að hagnaður Kaupþings á síðasta ári var meiri en aflaverðmætis alls íslenska fiskiskipaflotans samanlagt á sama tíma !
Þeir félagar virðast síðan hvergi nærri hættir. Hafa gert nýja kaupréttarsamninga á núverandi gengi bankans og svipast um eftir næstu stækkunarmöguleikum með 300 milljarða í farteskinu - þrefalt verðmæti Kárahnjúkavirkjunar ef ég man þá tölu rétt.
Ég efast ekki um að þeir verða fengsælir í þessari innkaupaferð, hér eftir sem hingað til og án efa mun hún skila þeim sjálfum og hluthöfum bankans verulegum hagnaði af bréfunum sem keypt eru þessa dagana. Þegar sá hagnaður verður innleystur munu án efa verða nægir til að hneykslast á "ofurlaunum" þeirra félaga.
Sá sem hagnast mest er hinsvegar íslenskt samfélag - svo fremi að þeir verði ekki í millitíðinni kosnir úr landi.
Pælum í því !
Munar tæpum 600 milljónum á kaupverði og markaðsvirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.