Hænuskref gegn launaleynd - ekki afnám

Það er ástæða til að fagna framkomnum tillögum um breytingar á jafnréttislögum - flest þar horfir til framfara. Ég skil hinsvegar ekki hversvegna frumvarpið er ekki lagt fram strax og keyrt í gegn, heldur talað um að leggja það fram í haust. Þá veit enginn hver verður við stjórnvölinn og allt eins líklegt að núverandi félagsmálaráðherra verði utan þings - ef marka má nýjustu skoðanakannanir.

Ég sé að Samfylkingin hefur lýst sig reiðubúin til að flýta fyrir samþykkt þess nú þegar og trúi ekki öðru en að félagasmálaráðherra taki því fagnandi. Ef ekki getur bara tvennt komið til - að hugur fylgi ekki málinu í Framsóknarflokknum eða að Sjálfstæðisflokkurinn stöðvi málið og leggi stjórnarsamstarfið undir. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Mér finnst hinsvegar verra að frumvarpið virðist ekki eiga að afnema launaleynd, eins og yfirlýsingar ráðherra og fréttaflutningur af máinu ber með sér. Það eina sem frumvarpinu er ætlað í þessum efnum er að banna trúnað eða þangarskyldu um launakjör starfsmanna og gera starfsmanninn þannig ábyrgan fyrir því hvort hann gefur upp laun sín eða ekki. Þó vissulega sé þetta hænuskref í áttina, þá er fjarri því að samþykkt slíkrar tillögu muni afnema launaleynd að mínu viti. Reynsla Dana af samskonar ákvæði sýnir það einmitt glögglega.

Eina leiðin til að afnema launaleynd er að skylda launagreiðendur til að opna fyrir aðgang starfsmanna að launum allra innan sama fyrirtækis eða stofnunar og gera það ferli sjálfvirkt þannig að starfsmenn þurfi ekki að kalla eftir því í hvert sinn.  Ábyrgðin verður að færast frá launþeganum sjálfum yfir á launagreiðandann, annars breytir afar litlu hvort trúnaðurinn er um launin eða ekki.

Þessi sjónarmið hafa reyndar komið fram áður á þessari síðu, m.a. í MBA verkefni sem ég vann ásamt öðrum við Háskóla Íslands. Hvorutveggja má nálgast hér

Fordæmi Whole Food Market í þessum efnum talar síðan sínu máli. Stjórnendur þessa bandaríska stórfyrirtækis telja afnám launaleyndar innan fyrirtækisins eitt af því mikilvægasta í samkeppnisforskoti þess í slagnum um gott starfsfólk. Ætti það ekki líka að gilda hjá íslenskum fyrirtækjum ?

Pælum í því !


mbl.is Ráðherra varð að gera hlé á ræðu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hrannar,

ég verð nú að segja að ákvæði sem bannar launaleynd, þó svo slíkt fyrirkomulag setji það í hendur starfsmannsins að ákveða hvort launum verður haldið leyndum eða ekki, er töluvert meira en bara hænuskref. Í dag er staðan þannig amk. sums staðar, að starfsmönnum er gerð grein fyrir því þegar þeir undirrita ráðningarsamninga að uppljóstrun launakjara sé fyrirvaralaus brottrekstrarsök. 

Þá vil ég heldur fá að ráða því sjálf hvort ég greini frá launum mínum eða ekki. 

Elfur Logadóttir, 8.3.2007 kl. 16:32

2 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæl Elfur og þakka þér fyrir innleggið.

Það er vissulega rétt að breytingin er skref í rétta átt, en staðreyndin er sú að flestir launþegar eru ekki bundnir af trúnaðarákvæðum í sínum samningum í dag og því mun breytingin hafa lítil eða enginn áhrif hjá þeim.

Þá hefur reynsla Dana sýnt að þrátt fyrir sambærilegt ákvæði þar, hefur lítið þokast í rétta átt.

Í raun kristallast ástæðan fyrir því að ég kalla þetta "hænuskref" í lokaorðum athugsemdar þinnar. Flestir sem ekki þurfa að gefa upp launin sín kjósa að halda þeim leyndum, ekki síst ef þeir telja að það geti komið þeim ílla hjá launagreiðandanum að upplýsa um þau, t.d. þannig að hann lendi í vandræðum vegna samanburði á þínum launum og einhvers annars í fyrirtækinu.

Einmitt þessvegna er mikilvægt að mínu viti, að ábyrgðin á að upplýsa um launin færist frá viðkomandi einstaklingum til launagreiðandans sjálfs.

Bk.

Hrannar Björn Arnarsson, 9.3.2007 kl. 11:42

3 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Eftir lesturinn fór ég að velta fyrir mér hvar ég hafði heyrt um hvernig WMF hefði tekið á þessu og mundi þá að það var á kynningu nemenda í MBA-náminu um hvernig mætti minnka launamun kynjanna. 

En í fyrrgreindu frumvarpi finnst mér atvinnurekandinn einmitt sleppa ansi vel. Vissulega er það skref fram á við að launþega sé frjálst að tjá sig um laun sín, en mér finnst það þó aðeins hænuskref, í hæsta lagi gæsaskref, ef miðað er við það stóra stökk sem ætti sér stað ef ábyrgðin yrði færð til atvinnurekanda.

erlahlyns.blogspot.com, 12.3.2007 kl. 20:57

4 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Og þarna á að standa WFM... 

Mér finnst tími kominn til að maður geti leiðrétt athugasemdir sínar hér á moggabloggi í stað þess að þurfa að skrifa nýjar. 

erlahlyns.blogspot.com, 12.3.2007 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband