14.2.2007 | 22:08
Mogginn veður gulan reyk !
70% af forsíðu Morgunblaðsins í dag voru lögð undir tæplega 8 ára gamla frétt. "Borgin hirti ekki um mengun við leikskóla" var fyrirsögnin og yfir henni gnæfði risamynd af bílum akandi í mengunarmistri, væntanlega í borginni skelfilegu. Ef ég hefði ekki þekkt lítillega til umfjöllunarefnisins þá hefði ég líklega haldið mig innandyra - ekki þorað út í þessa skelfilega menguðu og vanræktu borg sem þarna var lýst, enda tilgangur greinarinnar að draga upp mynd af langvarandi sinnuleysi borgaryfirvalda í loftgæðamálum.
En svo vill til að þekki talsvert til loftgæðamála í Reykjavík enda voru þau mál mér afar hugleikin þegar ég gegndi formennsku í Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur um ríflega tveggja ára skeið frá febrúar 2000 til maí 2002. Þennan stutta tíma voru loftgæðamál ítrekað á borðum nefndarinnar og í fljótu bragði get ég nefnt fjóra mikilvæga áfanga sem komu málaflokknum á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar á þessum tíma:
Desember 2000 - Samþykkt að tillögu minni að gera "úttekt á þeim úrræðum, sem borgaryfirvöld hafa tiltæk til að draga úr loftmengun í Reykjavík. "
Febrúar 2001 - Umhverfisstefna Reykjavíkur - staðardagskrá 21, samþykkt í Borgarstjórn með afar metnaðarfullum áherslum í loftgæðamálum "Reykjavík verði sú höfuðborg þar sem minnst loftmengun mælist í heiminum."
Maí 2001 - "Tillögur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar" lagðar fram í borgarstjórn - framhald samþykktarinnar hér að ofan. Meðal tillagana voru stórauknar mælingar (sbr. hér að neðan) og að kannaðir yrðu möguleikar á gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja.
Sept 2001 - Undirritaður samningur milli Hollustuverndar ríkisins og Reykjavíkurborgar um stórauknar loftgæðamælingar, fjárfestingar í mælitækjum og áframhaldandi samstarf um rannsóknir og upplýsingagjöf til almennings. Með samningnum var Íslandi gert kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um þessi mál.
Fljótlega eftir þetta urðu rauntímaupplýsingar úr loftgæðamælingum aðgengilegar almenningi í gegnum Umhverfisvef borgarinnar sem settur var upp og hafa verið það æ síðan.
Ég leyfi mér því að fullyrða að á þessum tíma hafi orðið þáttaskil í áherslum Reykjavíkurborgar í þessum málaflokki og í stað hirðuleysis sem Mogginn reynir að klína á borgina, hefur hún æ síðan leitt umræður, rannsóknir og aðgerðir í loftgæðamálum á Íslandi.
Mogginn veður því þykkan gulan reyk í þessu máli.
Pælum í því !
Borgin hirti ekki um mengun við leikskóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.