Guðrún Pétursdóttir klýfur Sjálfstæðisflokkinn !

Það var afar athyglisvert að fylgjast með Silfri Egils í dag. Veslings nýpólitíkusinn Bjarni Harðar, sem er vanastur því að geta komið í þáttinn og talað án ábyrgðar, sat einn undir þríeinni sókn "stjórnarandstöðunnar" og reyndi á sama tíma að virka "grænn" og "gagnrýninn" eins og venjulega - algerlega vonlaus staða fyrir Bjarna og ábyggilega lífsreynsla út af fyrir sig.

Félagi Össur fór hamförum og Lilja frænka líka og ekki komst hnífurinn á milli þeirra. Mikið vildi ég að hennar frjálslyndu viðhorf yrðu sterkari innan VG - þá myndi ekkert geta stöðvað framsókn stjórnarandstöðunnar í komandi kosningum !

En tiðindi þáttarins voru hinsvegar málflutningur Guðrúnar Pétursdóttur - fyrrverandi forsetaframbjóðanda og varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hún beinlínis hjólaði í Sjálfstæðisflokkinn og formann hans og skipaði sér kyrfilega á bekk með stjórnarandstöðunni. Skipbrot Sjálfstæðisflokksins í  umhverfismálum var henni sérstaklega hugleikið og vegna þess boðaði hún brotthvarf sitt úr flokknum. Hún gaf þeim reyndar einn séns, en sagði síðan í beinu framhaldi að hún hefði ekki mikla trú á því að hann yrði nýttur.

Ég spái því að Guðrún Pétursdóttir verði ásamt Ómari og Margréti í forystu hins nýja umhverfisvæna hægri flokks sem brátt mun líta dagsins ljós. Ég spái því jafnframt að hægri flokkurinn nýi muni höggva verulega í raðir Sjálfstæðisflokksins, enda eru lausatökin á flokknum sífellt að verða ljósari þeim sem á horfa. Gleymum því ekki að Davíðsarmurinn er enn í sárum eftir hreinsanir Geirs í forystunni að undanförnu ekki síst vegna brottreksturs Kjartans og niðurlægingu Björns í prófkjörinu. Þessi hópur mun ekki gráta klofning eða kosningaskell í fyrstu kosningum Geirs. Reyndar ýjaði Björn að slikum afleiðingum strax eftir tapið í prófkjörinu.

Guðrún Pétursdóttir hefur hingað til verið innvígður fulltrúi þessa hóps. Skyldi nú vera komið að skuldadögum ?

Pælum í því !


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég held samt að hægri-grænn flokkur taki fylgi ekki síður frá Samfylkingu og VG en Sjálfstæðisflokki. Jafnvel enn frekar. Þess vegna vona ég að ekkert verði af því framboði, eða að það verði bara sérframboð Margrétar Sverris.

Svala Jónsdóttir, 11.2.2007 kl. 22:53

2 identicon

Ég sá þennan þátt og mér fannst Guðrún ótrúlega beitt og gagnrýnin í garð sinna manna í Sjálfstæðisflokknum.  Benti á að flokkurinn hefur enga stefnu í umhverfismálum en margir af félagsmönnum hans hafa mikinn áhuga á þeim málflokki og því óeining í flokknum, það er nú ekki oft viðurkennt !  

Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast - stefnir í spennandi vor!

Björg (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 14:25

3 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Í fyrsta lagi er ekki til neinn Davíðsarmur í Sjálfstæðisflokknum. Það er ímyndun og óskhyggja andstæðinganna.

Í öðru lagi óskum við, sem stóðum næstir Davíð, Geir góðs gengis og styðjum hann heilshugar, allir sem einn.

Í þriðja lagi erum við öll umhverfisverndarsinnar. Við hægri menn viljum hins vegar vernda umhverfið með því að taka það með í reikninginn, verðleggja það og skilgreina eignarrétt að því, svo að hlúð sé að því. Við vitum, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 12.2.2007 kl. 18:24

4 identicon

Hirðir enginn um Seðlabankann?

Hannes segir að enginn hirði um það sem allir eiga. Nú eigum við öll Seðlabanka Íslands, - er það umhirðulaus stofnun? Í því goðfræðilega ljósi sem Hannes hefur fram að þessu sett yfirbankastjórann í, er óneitanlega dálítið sérkennilegt að gera hann að fórnarlambi á fórnarstalli klisjanna. Sama mætti segja um aðrar almenningseignir; Háskóla Íslands, -Kárahnjúkasvæðið og vatnasvæði Þjórsár. Eða Austurstrætið. Ætlar þessi bókhaldshugmyndafræði hægri manna engan endi að taka? Með kærlegri kveðju....Óskar Þorgils í Véum

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband