6.2.2007 | 17:37
Enn um launamun kynjanna
Það urðu talsverðar umræður á fundi Femínistafélagsins og MBA námsins sem haldinn var í dag um 4 af tillögum nemenda um hvernig mætti minnka launamun kynjanna.
Fyrsta tillagan sem var kynnt gerði ráð fyrir stofnun Jafnréttiseftirlits í stað núverandi Jafnréttisstofu og að hin nýja eftirlitsstofnun myndi vinna með svipuðum hætti og Samkeppniseftirlitið vinnur í dag. Jafnréttiseftirlitið á þannig að hafa frumkvæðisskyldu og möguleika á mun harðari aðgerðum gagnvart þeim fyrirtækjum sem brjóta gegn jafnréttislögum heldur en Jafnréttisstofa hefur í dag. Hópurinn taldi hinsvegar ekki þörf á að breyta jafnréttislögunum að öðru leiti.
Önnur tillagan gerði ráð fyrir því að árlega myndi VR útnefna Jafnréttisfyrirtæki ársins. Útnefningin myndi byggjast á fjórum þáttum: Formlegu skipulagi í jafnréttismálum, upplifun starfsmanna á framistöðu fyrirtækisins í jafnréttismálum, því svigrúmi sem fyrirtækið veitti starfsfólki sínu til fjölskyldulífs og fjölda kvenna í stjórnunarstöðum. Hugmyndafræði tillögunnar byggir á því að umræða innan fyrirtækisins og sú jákvæða ímynd sem í útnefningunni myndi fylgja, myndi leiða til jákvæðrar þróunnar í þessum efnum.
Þriðja tillagan var unnin af mínum hóp og gerði ráð fyrir því að launaleynd yrði afnumin með lögum, þannig að allir starfsmenn sem hefðu unnið í amk eitt ár hjá sama launagreiðanda, fengju amk árlega upplýsingar um laun allra sem störfuðu hjá sama launagreiðanda. Jafnréttisstofu yrði falið eftirlitshlutverk með lögunum og fengju heimildir til beitingu dagsekta, allt að 20% af ársveltu viðkomandi fyrirtækis, þar til brotunum myndi linna. Hugmyndafræði tillögunnar gerir ráð fyrir því að núverandi lög um bann við launamismunun á grundvelli kynferðis dugi, almenningsálitið sé alfarið gegn kynbundinni launamismunun en það sem uppá vanti sé að brotin verði persónugerð - verði af holdi og blóði en ekki nafnlausar tölur í skýrslum. Um leið og laun allra innan sama fyrirtækis yrðu ljós gætu menn borið sig saman og "glæpurinn" þannig koma í ljós. Allir myndu í framhaldinu leita leiða til að koma í veg fyrir kynbundna mismunun - bæði launagreiðandi og launþegar.
Eitt helsta tromp hópsins var að benda á að eitt af framsæknustu smásölufyrirtækjum Bandaríkjanna, Whole Food Markets hefur um árabil starfað með opið launabókhald og lítur á það sem eitt af sínu mikilvægasta samkeppnisforskoti. Aðferðafræðin eyði tortryggni innan fyrirtækisins og gefi starfsmönnum þess skýr skilaboð um til hvers sé ætlast, enda sé umbunað fyrir slíkt í launakerfinu.
Fjórða tillagan fjallaði um að upplýsingar um launakjör í atvinnulífinu yrði mikilvægur hluti af námsráðgjöf HÍ. Þannig yrði umræða um launamun starfsstétta háværari og einnig er líklegt að upplýsingarnar myndu stýra námsvali nemenda, bæði kvenna og karla, í átt til hærri launa.
Ýmsar vangaveltur komu fram í umræðunum sem fylgdu, jafnvel um það hvort kynbundin launamunur væri raunverulega til staðar, en almennt voru fundargestir ánægðir með tillögurnar. Ekki síst lýstu fundarmenn ánægju sinni með að þessar tillögur kæmu frá MBA nemum, enda væru þeir vafalaust í hópi stjónenda framtíðarinnar.
Þeir sem vilja kynna sér verkefnið um afnám launaleyndar geta fundið það hér í heilu lagi. Næsta verkefni er væntanlega að koma sér í stöðu til að framkvæma tillöguna !
Pælum í því !
Athugasemdir
Áhugavert - Takk fyrir að leyfa okkur sem ekki komumst á fundinn að fylgjast með. Vonandi taka þessir núverandi og framtíða stjórnendur þetta með sér í sín fyrirtæki strax í dag.
Ég hélt að það væri sannað að kynbundinn launamunur er til staðar, þe að það þyrfti ekki að ræða það frekar. En er lausnin að afnema launaleynd raunhæf í ísl.samfélagi ?
Björg (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 18:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.