Stoltur af Ólafi Ragnari !

Óskaplega er dapurlegt að fylgjast með nöldri ríkisstjórnaraflanna (Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins) vegna setu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta vors í Þróunarráði Indlands.

Maður hefði haldið að allir gætu fagnað af einlægni þegar einum okkar bestu bræðra er sýndur sá heiður og virðing að óska eftir framlagi hans til sjálfbærrar þróunar eins mikilvægasta hagvaxtarsvæðis heimsins. Þróunar sem mun ráða örlögum milljóna einstaklinga og hafa víðtæk áhrif á umhverfismál,  efnahagsmál og stjórnmál um allan heim á komandi árum og áratugum.   

 

Mér er nær að ætla að sjaldan eða aldrei hafi Íslendingi gefist tækifæri til að leggja lóð sitt á vogarskálar alþjóðamála með eins mikilsverðum hætti og Ólafi Ragnari gefst nú kostur á enda er vöxtur indverska hagkerfisins og sú iðnbylting sem þar á sér stað með slíkum ólíkindum að áhrifa hennar mun gæta um allan heim – líka hér á litla Íslandi.   

 

Um leið og ég harma smásálarskap ríkisstjórnaraflanna í þessari sókn að forsetanum dáist ég að framsýni og kjarki Indverja að setja á laggirnar ráð sem þetta og kalla þar til leiks þá aðila sem hafa á vettvangi alþjóðamála verið að beita sér fyrir hagsmunum heimbyggðarinnar allrar – bæði í loftslagsmálum (eins og Ólafur Ragnar hefur gert),  í baráttunni gegn fátækt (eins og Jeffrey D. Sachs hefur gert) og réttlæti í heimsviðskiptum (eins og Bjorn Stigsson hefur gert) , svo einhverjir af ráðsmeðlimunum séu nefndir. Þetta sýnir að Indverjar taka hlutverk sitt og ábyrgð í alþjóðasamfélaginu alvarlega og að þeir ætla sér að hafa sjálfbæra þróun í öndvegi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem framundan eru. Íslendingar gætu án efa talsvert af þeim lært í þessum efnum.  

 

Ríkisstjórnaröflin tala hinsvegar um þróunarráðið eins og einhverskonar útflutningsráð fyrir Indland og ýja að hagsmunaárekstrum vegna setu Ólafs Ragnars í ráðinu – hvílík della og röfl !! 

 Mikið vildi ég óska að þátttaka Ólafs Ragnars í Þróunarráði Indlands markaði vatnaskil í aðkomu Íslands að alþjóðamálum. Að framvegis yrði Ísland hluti af þeirri vaxandi sveit sem beitti sér af alefli fyrir umhverfismálum, friði, sanngjörnum leikreglum í viðskiptum og  síðast en ekki síst, bættum kjörum þeirra 1.100 milljóna einstaklinga sem búa við örbirgð í þeim löndum sem enn hafa ekki notið þeirrar iðnbyltingar sem við höfum gert.

Ég þóttist reyndar merkja slíka tóna úr Utanríkisráðuneytinu eftir að Valgerður tók þar við völdum – að nú ætti að leggja aukna áherslu á þróunarsamvinnu, friðargæslu og hjálparstörf ýmiskonar og gagnrýnislaus fylgisspekt við Bush í herleiðingu hans um heimsbyggðina væri á enda runnin.  

 

Nú er amk lag Valgerður – Ólafur Ragnar hefur reist íslenska flaggið á ný !  

 

Pælum í því !
mbl.is Embættið og persónan eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Gaman að sjá þig hér á blogginu, Hrannar.

Snorri Bergz, 1.2.2007 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband