Hvað verður nú um prófið ?

Eitt af viðfangsefnum mannauðsstjórnunarinnar er, hvað eigi að leggja til grundvallar við ráðningu starfsmanna. Viðtölin spila stóra rullu, framkoma, fyrri störf, meðmæli, prófgráður og hitt og þetta er notað til að meta hvort einstaklingurinn eigi eftir að standa sig eða ekki. Í mannauðstíma í MBA náminu í síðustu viku voru við að ræða þessa hluti og þá vakti ég máls á þvi, hversu furðulegt það í rauninni er, hvað einkunnir , próf og umsagnir skólakerfisins mega sín lítils í þessu mikilvæga ferli.

Öll erum við hinsvegar alin upp við hið gagnstæða, sagt að góðar einkunir skipti miklu máli uppá framtíðina osfrv., en þegar kemur að mannaráðningum í raunveruleikanum, þá spyrja nánast engir um einkunnir og ótrúlega fáir meira að segja um prófgráður.

 Ef einhverjir ættu að geta gefið umsögn sem vit væri í vegna atvinnuumsóknar ættu það hinsvegar að vera kennarar. Umsögn sem tæki til persónueinkenna, hæfileika, námsgetu og félagsþroska – allur pakkin gæti verið undir og fátt í fari einstaklinga ætti að sleppa undan fráum augum kennaranna eftir samvistir í mánuði og jafnvel ár á skólabekk.  

 

Ég held að þarna eigi samfélagið ónýtta auðlind. Auðlind sem gæti nýst atvinnulífinu til að stórbæta árangur sinn við mannaráðningar og þar með kostnað við mistök í þeim efnum en ekki síður, auðlind sem gæti nýst skólakerfinu vel til að auka vægi skólastarfsins til mikilla muna. Hver myndi annars efast um réttmæti þess að það skipti máli að standa sig vel í skólanum, ef það yrði vinnuregla hjá atvinnurekendum landsins að hringja alltaf í kennarana þegar kanna ætti kosti og galla þeirra sem leituðu eftir vinnu hjá viðkomandi ?

Pælum í því !
mbl.is 476 kandídatar brautskráðir frá Kennaraháskólanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um framleiðni námsmanna

mba-fjaranÁtta spennandi nemendaverkefni voru kynnt í mannauðstíma MBA námsins í dag. Verkefnin spönnuðu mjög vítt svið mannauðsstjórnunar, allt frá starfsmannahandbókum á netinu og  starfsmannaráðningar, upptöku mannauðskerfa og  mannauðsstjóra  yfir í ítarlegra greininga á einstökum skipulagsheildum. Mjög fróðleg og yfirgripsmikil vinna hefur greinilega farið fram í hópunum undanfarnar 6 vikur.  

 

Á kynningardögum sem þessum veltir maður óneitanlega fyrir sér, hvurslags “power” er í svona hóp námsmanna og hversu miklu hann getur komið í verk og áorkað. Ég er nokkuð viss um að afrakstur þessara verkefna, sem flest eru unnin samhliða vinnu, meira að segja sem takmarkaður hluti námsins sem fram fer á sama tíma, myndi án efa kosta skipulagsheildirnar vel á annan tug milljóna, ef hefðbundnir ráðgjafar hefðu unnið þau. Á annan tug milljóna !

Þegar haft er í huga að flestir áfangar námsins eru byggðir upp með svipum hætti, yfirleitt 4 stór raunverkefni á hverju misseri, má reikna með að bein framleiðni hvers misseris sé ekki undir 50 milljónum króna , fyrir utan þá framleiðni sem felst í náminu sjálfu.  Í ljósi þess að allir þáttakendur í náminu eru þar af fúsum og frjálsum vilja og greiða reyndar vel á þriðju milljón króna fyrir að geta stundað það, má velta fyrirsér hvort ekki væri skynsamlegt fyrir fyrirtæki landsins að setja upp eða kaupa MBA nám eða eithvað svipað sem hentar þeirra starfsemi, beint fyrir sína starfsmenn. KB banki gæti t.d. haldið uppi 50 manna bekk allan ársins hring og látið starfsmenn sína með þeim hætti margfalda framleiðni sína á sama tíma og þeir myndu binda þá skipulagsheildinni enn betur. Gætu ekki flest stærri fyrirtæki tekið MBA námið sér til fyrirmyndar í uppbyggingu mannauðs innan sinna raða ?  

 

Pælum í því !
mbl.is 372 kandídatar brautskráðust frá Háskólanum á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað getur maður gert ?

430035A

Pælum í því !

 

 


mbl.is Ofbeldið að færast frá Bagdad til annarra hluta Íraks?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásarauður frá Uganda til bjargar Flateyri

kristjánMaður var ekki fyrr búin að uppgötva einn af bestu útrásarsonum landsins á ráðstefnu um fjárfestingar í þróunarlöndum (sjá eldri pistil minn), en sá hinn sami kemur sem bjargvættur Flateyrar á hvítum hesti.

Eftir að hafa hlýtt á áhugaverðann fyrirlestur Kristjáns um ævintýri hans í Úganda og fengið smjörþefinn af lífsviðhorfum hans getur maður ekki annað en óskað Flateyringum til hamingju. Þeir hafa fengið öflugan bakhjarl sem lætur ýmislegt annað ganga fyrir en gróðann. Yfirlýsingar hans benda einnig til þess að það sem ráði för sé frekar ást til æskustöðvanna en von um ávöxtun.

Reyndar læðist að mér sá grunur að sjávarútvegurinn þurfi í ríkari mæli á slíkum sjónarmiðum að halda í framtíðinnni. Framtíðin virðist ekki mjög björt á þeim vígstöðvum.

Pælum í því !


mbl.is Oddatá kaupir allar fasteignir og tæki Kambs á Flateyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju !

Fríða Rún Ég má til með að óska Fríðu Rún til hamingju með glæsilegan árangur á Smáþjóðaleikunum. Ekki síður er tilefni til að óska landi og þjóð til hamingju, enda ekki á hverjum degi sem hún sækir gull í greipar annarra þjóða í íþróttum.

Ég er reyndar langt í frá undandi á árangri Fríðu Rúnar, enda dugnaðurinn og áræðið slíkt að það eitt og sér er gulls í gildi. Mér er það t.d. minnisstætt að einhverju sinni þegar ég keyrði um Sundabrautina í brjáluðu veðri um miðjan vetur sá ég glitta í hlaupara sem hálfpartinn fauk í storminum. Ég trúði varla mínum eigin augum fyrr en ég sá hver var þar á ferð - Fríða Rún að undirbúa gullið !

Við getum nefnilega allt ef við ætlum okkur.

Pælum í því !


mbl.is Fríða Rún vann gull í 10.000 metra hlaupi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrásin er víðar en margan grunar

Það er greinilegt að Björgólfur Thor ætlar sér ekki að sitja við orðin tóm frekar en fyrri daginn. Straumur kominn með nýjann mann í brúnna sem þekkir væntanlega fjarlægari fjármálamið betur en sá fyrri. Heimurinn er undir í fjárfestingum Björgólfs.

En útrás íslendinga er víðar en okkur grunar. það fékk ég svo sannarlega að heyra á ráðstefnunni sem ég sótti fyrir nokkru, um Fjárfestingartækifæri í Þróunarlöndum. Fjórir íslendingar sögðu þar frá reynslu sinni af uppbyggingu og rekstri fyrirtækis í þróunarlöndum og ég verð að viðurkenna að fæst af því sem þar kom fram hafði ég heyrt um áður. Það er minna sagt frá þessari útrás okkar Íslendinga, en þeirri sem fer fram á fjármálamörkuðunum.  

 

Stefán Þórarinsson sagði frá fjölmörgum útgerðarverkefnum sem Nýsir hefur verið viðriðin, víða um Afríku. Mest hefur Nýsir starfað í Uganda og Namebíu en þar má segja að Íslendingar hafi nánast byggt upp sjávarútveg í þeirri mynd sem hann er stundaður í dag. Áður voru miðin á þessum slóðum ryksuguð upp af erlendum aðilum, einkum Spánverjum, en nú hafa heimamenn tekið við stjórninni og byggja á þeim grunni sem Nýsir lagði. Sigurður G. Bogason gengdi t.d. lykilhlutverki í að byggja upp mikilvægasta sjávarútvegsfyritæki Namebíu og sagði hann ráðstefnugestum þá lærdómsríku sögu. Aðeins ein höfn var í landinu, eitt þorp sem stundaði sjávarútveg og nánast allt í þorpinu var í eigu þeirra aðila sem áttu fyrirtækið. Það skilaði hinsvegar litlum sem engum arði og var á barmi gjaldþrots vegna óstjórnar þegar Sigurður og félagar komu að því. Endurskipulagningin tóks á endanum, en athyglisvert þótti mér að heyra, að erfiðasti þröskuldurinn í vegi endurskipulagningarinnar voru verkalýðsfélögin á staðnum. Réttindi verkafólks í Namebíu eru nefnilega meiri en á Íslandi samhvæmt Sigurði og nánast ómögulegt að reka fólk eða hliðra til. Ástæðu þessa má víst rekja til þess að Namebía var stofnað undir verndarvæng Sameinuðuþjóðanna og þar með voru að sjálfsögðu allir alþjóðasáttmálar þeirra lagðir til grundvallar og lögfestir í leiðinni. Ísland kemst víst ekki með tærnar þar sem Namebía hefur hælana í þeim efnum.  

 

Gunnar Sigmundsson frá Frostmarki sagði okkur síðan frá tveimur verkefnum í Uganda þar sem íslenskt hugvit var nýtt til að setja saman fiskvinnsluhús ofl. Þar þurftu menn að setja í annan hraðagír en almennt gerist hér á Íslandi, en verkefnið sem venjulega ætti að taka 6-8 mánuði, tók 3-4 ár á þessum slóðum. Engu að síður virðist Uganda um þessar mundir taka stórstígum framförum. Kristján Erlingsson hefur búið þar í vel á annan áratug, eftir að hann fluttist frá Flateyri með fjölskyldu sína alla. Á þessum tíma hefur hann gengið í gegnum ýmis ævintýri í atvinnurekstri á svæðinu og fylgst með hvernig þjóðfélagið hefur tekið stökk inn í framtíðina á undanförnum árum. Menntun er að stóraukast, fjármálakerfið að styrkjast og fleiri og fleiri fyrirtæki er að komast á legg. Sjálfur á hann og rekur langstærsta útflutningsfyrirtæki Úganda á grænmeti og vöruflutningum í lofti.  

 

Allir þessir aðilar voru sammála um að lykilþáttur í að ná árangri á þessum slóðum væri að nálgast samfélagið á þess eigin forsendum. Stofna til kynna og sambanda við heimamenn og hlaupa ekki hraðar en umhverfið leyfir. Í mörgum tilfellum töluðu þeir um að þekkingin og reynslan að heiman, hefði jafnvel orðið til trafala enda hafi hún villt mönnum sýn. Leiðirnar og lausnirnar séu vissulega til staðar á báðum stöðum, en þær séu ekki endilega þær sömu. Mér varð nú hugsað til þess þegar ég hlýddi á þessa kappa, að án vafa eru hundruð einstaklinga sem hingað flytja erlendis frá, að upplifa nákvæmlega sömu hlutina hér heima, af hendi okkar Íslendinga. Þeir sjá hvað við erum að gera hlutina “vitlaust” og hafa “borðleggjandi lausnir” á fjölda mála, en við bara viljum ekki breyta til.   

 

Pælum í því !
mbl.is Fyrrum yfirmaður hjá Bank of America verður forstjóri Straums-Burðaráss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem máli skiptir

Á fimmtudaginn sat ég afar fróðlega ráðstefnu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, Útflutningsráðs, Utanríkisráðuneytisins og Fiskifélags Íslands um Fjárfestingartækifæri í Þróunarlöndum. Viðfangsefnið var nálgast frá þremur ólíkum áttum og vakti ýmsilegt athygli mína. Í dag ætla ég að fjalla um einn þessara þátta og síðan kemur vonandi meira. Þróunarsamvinna er nefnilega eitt af mikilvægari verkefnum samtímas að mínu viti - eithvað sem við ættum að ræða miklu, miklu meira.

Fulltrúar þriggja banka fluttu erindi á ráðstefnunni. Keran Kelleher, frá World Bank, Ásmundur Gíslason frá Glitni og Baldur Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri  Þróunarbanka Evrópu. Bankarnir nálgast verkefni í þróunarlöndum með afar mismunandi hætti. Glitnir algerlega á viðskiptalegum forsendum, Þróunarbankinn á viðskiptalegum forsendum einnig, en þó með það að markmiði að taka meiri áhættu og hlutverk hans er að veita fjármunum til uppbyggingar og þróunar, einkum í austur-evrópu og fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna í Asíu. World Bank hefur síðan skýrt hlutverk í að vinna gegn fátækt í heiminum og veitir því lán og styrki jöfnum höndum til verkefna sem stuðlað geta að markmið hans.    

 

Það vakti sérstaka athygli mína í erindi Baldurs, að svo virðist sem lunginn af bankakerfi þeirra landa sem Þróunarbankinn starfar í sé kominn í hendur á erlendum aðilum. Í sumum löndum er eignarhlutur erlendra aðila orðin hátt í 100% Ég geri mér grein fyrir því, að bankakerfið í þessum löndum var nánast rústir einar og hamlaði frekar en studdi við uppbyggingu þegar löndin tóku að opnast, en er ekki eithvað skrýtið við að þessi lífæð nútíma þjóðfélags, bankakerfið, sé að öllu leiti í höndum erlendra fjarfesta ?    

 

Ef til vill ekki, og klárlega ekki ef leikreglur hins frjálsa hagkerfis myndu virka í einu og öllu. Þá á ekki að skipta miklu máli hvort eignaraðilarnir eru innlendir eða erlendir. Ég hef hinsvegar miklar efasemdir um að þannig sé það orðið og verði á næstu áratugum í ýmsum af þessum löndum. Verða þessir bankar etv eins og nýlenduherrarnir í upphafi aldarinnar á þessum slóðum ? Raka til sín afrakstrinum af uppbyggingunni og hverfa með auðinn úr landi ?  Við skulum vona ekki. Í augnablikinu gegna þeir amk lykilhlutverki í að rífa þessi þjóðfélög upp og gera þeim kleift að efla atvinnulífið og bæta lífskjörin. Þeir eru því í forystu lífskjarabyltingarinnar sem þróunarlöndin þarfnast.   

 

Pælum í því !
mbl.is Gore gagnrýnir áhuga fólks á slúðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumum ferst !

Ég veit eiginlega ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar maður les stóryrði Steingríms J. um að "Samfylkingin hafi hreinlega gefist upp á nýfengnum áhuga sínum á umhverfismálum." Þetta segir sami maðurinn og fyrir nokkrum dögum mætti í hádegisviðtal hjá stöð2 þar sem hann falbauð öll stefnumál VG í konsingunum, ef til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokk gæti komið. Þar var hann sérstaklega spurður út í stórðiðjuframkvæmdir í Helguvík og við Húsavík og í báðum tilvikum sá hann öll tormerki þess að hægt væri að stöðva þær framkvæmdir.

Þegar Samfylkingin nær því hinsvegar fram að "ekki verði farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir", að "Askja, Brennisteinsfjöll, Hvervellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Tofrajökull" verði algerlega friðuð fyrir raski eða nýtingu amk þar til rammaáætlun liggur fyrir árið 2009, að "vatnasvið Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni",  að  "stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna", að "Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum", m.a. loftlagsmálum og verndun hafsins og að umhverfisráðuneytið verð sérstaklega styrkt með auknum verkefnum, kallar Steingrímur það uppgjöf !

Ég segi nú bara - sumum ferst !

Pælum í því !


mbl.is Steingrímur: Samfylking virðist hafa gefist upp á umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt landslag í íslenskum stjórnmálum

428786ANý ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur tekið við völdum og með skipun ráðherra og þingflokksformanna hafa ríkisstjórnarflokkarnir mótað nýja ásýnd á forystu flokkanna. Breytingin hjá Sjálfstæðisflokki er reyndar ekki mikil í augnablikinu, en hjá Samfylkingunni er ljóst að breyddin vex og ný andlit verða gildandi. Á sama tíma þurfa stjórnarandstöðuflokkarnir að hörfa inná við og sleikja sárin eftir "hildarleik" undanfarinna vikna. Ekki síst á þetta við um Framsóknarflokkinn og VG, en forysta beggja flokka hefur skaðast mjög í eftirmála kosninganna og þarf án efa tíma til að ná áttum á ný. 

Nýtt landslag er því að mótast í íslenskum stjórnmálum.

Stjórnarsáttmálinn og sú uppstokkun sem boðuð er á verkefnum ráðuneyta boða spennandi umbrotatíma næstu misserin. Áherslan á málefni velferðar, loftlags, Evrópu, þróunarsamvinnu, jafnréttis, umhverfis og innflytjenda sýnir svo ekki verður um villst að Samfylkingin hefur sest í ríkisstjórn og málefni hennar eru komin á dagskrá. Ráðuneytaskipanin ætti síðan að tryggja eftirfylgni málefnanna með markvissum hætti.

Nýrri forystusveit Samfylkingarinnar í ríkisstjórn óska ég hjartanlega til hamingju með daginn og þjóðinni allri með nýja og frísklega ríkisstjórn.

Það er sannarlega vor í lofti í íslensku þjóðlífi.

Pælum í því !


mbl.is Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur - suðupottur framfara !

Það fór eins og flesta grunaði eftir að talið var upp úr kjörkössunum. Stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var í raun kosið út af borðinu og nú hefur forysta flokkanna horfst í augu við þá staðreynd.

Í ljósi þess að Steingrímur J. hefur f.h. Vinstri grænna hafnað vinstrasamstarfi með Samfylkgingu og Framsókn, er í raun bara einn kostur eftir í spilunum - samtarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Niðurlægjandi brotthvarf Steingríms frá öllum helstu stefnumálum VG í fjölmiðlum undanfarinna daga breytir engu í þeim efnum, nema ef vera skildi að undirstrika hversu varasamt gæti verið að mynda ríkisstjórn með 2 þingmanna meirihluta á svo ístöðulausu stjórnmálaafli.

Í mínum huga er það enda besti kosturinn í stöðunni að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi næstu ríkisstjórn, bæði í bráð og lengd. Flokkarnir hafa á bak við sig tæplega 2/3 þjóðarinnar og framundan er mikið umbrotaskeið í íslensku þjóðlífi sem þarfnast öfgalausrar og styrkrar stjórnar ef vel á að fara.

Þá er það einnig sannfæring mín að samstarf þessara tveggja flokka muni stokka upp þá stöðnuðu skotgrafaumræðu sem einkennt hefur stjórnmálin undanfarin áratug, áratug Davíðs Oddssonar í Íslenskum stjórnmálum. Evrópumálin, landbúnaðarmálin, endurreisn velferðarkerfisins, hlutverk hins opinbera og aðkoma einkageirans að ýmsum núverandi verkefnum þess, umhverfismálin osfrv. - allt mikilvæg málefni sem hafa læsts í skotgröfum stjórnar og stjórnarandstöðu en geta í samstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fundið sér skynsamlegan farveg í öfgalausri umræðu.

Ég trúi því og treysti að næstu daga muni Ingibjörg og Geir leggja grunn að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og að sú stjórn muni marka þáttaskil í þróun íslensks samfélgas. Framundan er gerjun, nýsköpun og framfarir - suðupottur í íslenskum stjórnmálum.

Pælum í því !


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband