16.9.2009 | 12:19
Forsætisráðherra og fjölmiðlar
Forsætisráðherrar eiga aldrei frí. Samt er það svo að í flestum öðrum löndum en á Íslandi er viðurkennt að þeir eigi rétt á að taka sér frí, a.m.k. einhvern hluta af venjulegum sumarleyfistíma. Það eru hins vegar engir venjulegir tímar á Íslandi og ráðherrar jafnt sem þingmenn hafa verið í nánast stöðugri vinnulotu síðan í október á sl. ári. Um núverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur gildir þetta reyndar um undanfarin rúm tvö ár. Það mætti því teljast eðlilegt að skilningur væri á því að forsætisráðherra væri utan Stjórnarráðsins nokkra dagparta í september til þess að safna kröftum fyrir þingbyrjun 1. október og veturinn sem allir vita að verður annasamur og erfiður. Því er ekki að heilsa eins og við sjáum í fjölmiðlum þessa dagana.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur undanfarna 7 mánuði leitt ríkisstjórnarsamstarf tveggja ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri Grænna á einhverjum erfiðustu og kröfuhörðustu tímum sem íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tíma starfað á. Afköst og árangur ríkisstjórnarinnar þennan tíma er án nokkurs vafa meiri en nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í lýðveldissögunni. Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi.
Á sama tíma ríkir einhugur og samstaða í Samfylkingunni og er flokkurinn óumdeild kjölfesta íslenskra stjórnmála eftir glæsilegan kosningasigur flokksins undir forystu Jóhönnu.
Hver forsætisráðherra hefur sitt eigið verklag eins og dæmin sanna. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gengið lengra í valddreifingu og samráði innan sinnar ríkisstjórnar en flestir forverar hennar. Sú staðreynd ætti enda að blasa við að tími forsætisráðherra er afar dýrmætur og verkefnum hans þarf því að forgangsraða. Forsætisráðherra svarar fyrir störf ríkisstjórnarinnar í heild. Í því felst að sjá til þess að þau verk sem stjórnin setur sér og henni eru falin af Alþingi nái fram að ganga. Ráðherrar stjórnarinnar fylgja eftir sínum sérsviðum og svara fyrir þau á opinberum vettvangi.
Gagnrýnt er að forsætisráðherra sé ekki nægilega á tali við fulltrúa erlenda fjölmiðla. Það er að sönnu ekki efst í forgangsröð ráðherrans en þar með er ekki sagt að erlent fjölmiðlafólk sé vanrækt af ríkisstjórninni. Þeir erlendu blaðamenn sem Morgunblaðið hefur til að mynda leitt fram á síðum sínum hafa fengið og tekið viðtöl við ráðherra í ríkisstjórninni og ekki annað vitað en að þeir hafi fengið umbeðin svör svikalaust.
Aðgengi að ráðamönnum á Íslandi er almennt heldur gott miðað við það sem annarsstaðar þekkist. Þegar litið er til baka verður ekki komist hjá því að álykta að núverandi forsætisráðherra gefi forverum sínum í embætti ekkert eftir þegar kemur að sýnileika og virkum samskiptum við fjölmiðla. Af þessu tilefni er rétt að undirstrika að forsætisráðherra hefur undantekningalítið haldið 1-2 fundi með íslenskum blaðamönnum í hverri viku undanfarna sjö mánuði. Á sama tíma hefur forsætisráðherra haldið fjóra fjölmenna blaðmannafundi með erlendum fjölmiðlum auk ýmissa annarra samskipta við erlenda fjölmiðla.
Undanfarinn hálfan mánuð hefur ekkert frést af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Á meðan er endurtekið kvartað yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé ekki nógu sýnileg þótt haldnir hafi verið tveir blaðamannafundir eftir ríkisstjórnarfundi í sl. viku. Stef af þessu tagi, þegar menn þykjast ekki sjá það sem gert er, eru kunnugleg úr pólitískri umræðu og þurfa því ekki að koma á óvart. Fólk getur velt því fyrir sér hvaða tilgangi það þjónar að hamra sífellt á því að forsætisráðherra sé ekki að sinna verkum sínum.
Þrjátíu ára ferill í stjórnmálum hefur sýnt að Jóhanna Sigurðardóttir vinnur sleitulaust í þágu almennings í landinu þótt það sé ekki alltaf í kastljósi fjölmiðla. Hún kann að stíga fram á réttum tíma með sinn boðskap. Þann tíma velur hún sjálf en hvorki fjölmiðlar né andstæðingar í stjórnmálum.
Pælum í því !
Fóru ekki tómhentir heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Hrannar
Ágætur pistill hjá þér til varnar Jóhönnu en er hinsvegar algjörlega úr takt við raunveruleikan. Ég og mín fjölskylda kusum Samfylkinguna vegna þess að við treystum orðum Jóhönnu um "að byggja skjaldborg um heimilin".
Það liggur í augum uppi að jóhanna var þröngvuð af samstarfsfóli sínu í Samfylkingunni í að taka við sem formaður flokksinns. En á þeim tíma var hún á leið úr pólitík. Það er öllum ljóst að Jóhanna ræður ekki við það embætti sem hún sinnir núna, vil hinsvegar taka fram að betri félagsmálaráðherra höfum við ekki átt.
Á tímum sem þessum er algjör nauðsyn að hafa sterkan leiðtoga sem sameinar þjóðina í réttlátum aðgerðum til endurreisnar. Því miður veldur Jóhanna því ekki
Virðingarfyllst,
Sigurður Pálsson
Sigurður Pálsson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 12:44
Til viðbótar:
Það sem einkennir þessar spurningar um Jóhönnu, er að allir virðast vera með lausnina. Tekjutengingu, flatar afskriftir, hamfaraskattar etc. Svo enda allir spurningarnar með því að slá í ríkisstjórnina, svona í leiðinni því hún liggur svo vel við höggi, líkt og í Gretlu forðum.
1. Ríkisstjórnin er að standa sig í efnahagsmálum - rústabjörguninni. Dag hvern koma upp ný mál sem þarf að taka á eða þétta krónuna. Velferðakerfið varið þannig að einstaklingur sem einungis er á grunnlífeyri eða ö-bótum hefur fengið 45% hækkun á einu ári. Raðstöfunartekjur x<200 þús hafa aukist um 15% á þessu tímabili, Vaxtatekjur etc.
2. Það ER verið að taka smátt og smátt á skuldahópunum. Fyrst þeim sem beinlínis voru komin í vandræði FYRIR hrun, með greiðsluaðlögun (reyndar líka frystingu sem ekki hefur tekist sem skyldi vegna þess að það fólk hefur ekki nýtt sér tímann sem skyldi). Lögun á greiðsluaðlögunarlögunum kemur fram 1. okt. Myntkörfulánendur (20% heimila) er verið að taka núna og færa yfir í krónulán óverðtryggt með 5% nafnvöxtum og til 5 ára í senn. (nema þeir sem beinlínis eru komnir á hausinn).
3. Næsti skuldahópur er sá sem einungis er með íbúðarlán á bakinu. Þar verður gefinn kostur á lengingu lána (allt að +20 ár)
Vafalaust endist ríkisstjórnin þangað til þetta verður komið í gegn og gullfiskaminni kjósenda (og kjósendur Borgarahreyfingarinnar) leiða stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknar til valda.
Verði ykkur að góðu...
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 12:45
Jóhanna hefur tönnlast á því að við verðum útskúfuð úr samfélagi þjóðanna ef við tökum ekki á okkur fjárhagslegar drápsklyfjar möglunarlaust.
Þegar hún síðan fær tækifæri til að tala beint og milliliðalaust við samfélag þjóðanna, koma á framfæri viðhorfi þjóðarinnar, þá hunsar hún boðið. Ítrekað.
Nú kemur einhver pistill frá húskarli hennar þar sem reynt er að telja fólki trú um að það sé eðlilegt og sjálfsagt að forsætiráðherra fái frið til að vinna sleitulaust í þágu almennings í einrúmi og samskiptaleysi.
Þetta eru óásættanleg vinnubrögð.
Sigurður Ingi Jónsson, 16.9.2009 kl. 13:08
Þetta er alveg rétt og sjálfsagt bara brandari. Í yfirfærðri og abstrakt merkingu
er þetta hinsvegar laukrétt. Jóhanna eins og menn þekktu hana fram að kosningum 2007
er auðvitað hvergi sýnileg.
Einar Guðjónsson, 16.9.2009 kl. 13:10
Það leynist orðið harla illa að hún hefur tæpast burði í að sinna þessu erfiða starfi. Þess er þó að vænta að Steingrímur leysi hana bráðum af, enda ekki við örðu að búast, en að hann fái eitthvað í skiptum fyrir að selja allar sínar hugsjónir.
Haraldur Baldursson, 16.9.2009 kl. 13:15
Þetta er hlægilegt yfirklór. Jóhönnu væri nær að velja þennan tíma til að vera sýnileg. Núna er ekki tíminn til að taka sér frí, ef það er það sem hún hefst að.
Gísli: Lausnir þessarar ríkisstjórnar í átökum hennar við þessi mál sem upp koma daglega eru allar á einn veg. Rangar. Nú á að ýkja vandann og bæta á. Nú á að tekjutengja lánagreiðslur. Þetta hvetur landsmenn eðlilega til að hafa eins miklar tekjur og nokkur kostur er. Nú hljóta landsmenn allir að vinna sig ráðalausa í tilraunum til að komast fram úr vandanum.
Það á ekki að taka smátt og smátt á skuldahópunum. Það liggja fyrir afar skilmerkilegar aðferðir hvernig þetta er gerlegt hratt og vel, all flestum til hagsbóta. Ég er afar spenntur yfir að geta brátt lengt húsnæðislán mín um 20 ár.
Það fyrsta sem þessum grautarhausum dettur í hug er að reyna að lækka laun landsmanna. Snillingar.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 16.9.2009 kl. 13:37
Að mínu mati hefur Jóhanna staðið sig einstaklega vel - sem og ríkisstjórnin í heild. Þetta er afar erfitt verkefni og virkilega ömurlegt bú til að taka við. Menn mega ekki gleyma því hverjir skópu helst þetta ástand - hið (algjörlega) óhefta frelsi einstaklingsins sem sjálfstæðismenn hafa lagt grunninn að í gegnum árin. Hverju skilaði það nú fyrir rest?
Heldur fólk að aðrir stjórnmálaflokkar hefðu reist hér allt við strax? Flata og almenna skuldaniðurfellingu t.d.? Þó að ég hafi ekki þá þekkingu sem margir vilja álíta sig hafa á þessu, þá finnst mér liggja býsna beint við að þá væri aðeins verið að velta þessum skuldum, og helst þeirra sem skulda mest, yfir á alla aðra - ákveðin jöfnun yfir okkur öll - líklega í formi skattaklafa til lengri tíma. Seðlabankinn gerði nefnilega úttekt á þessu! Er betra að þyngja enn á skuldum, jafnvel til framtíðarkynslóða?
Fyrir mér þá snúast leiðirnar um greiðslujöfnun og -aðlögun fyrst og fremst um það að hjálpa fólki að halda áfram að greiða inná lánin sín og létta þannig róðurinn í gegnum það versta - möguleg niðurfelling er kostur sem ætti að beita með varkárni og einungis fyrir þá sem alls ekki geta staðið undir sér lengur.
Eins og lánakerfið var hér þá stóðu fólki til boða lán sem oft stóðust hvergi greiðslugetu nema með verulegu ofmati. Lánakerfi í stjórnartíð sjálfstæðismanna hefur mótast þannig að það hefur best þjónað þeim sem þegar áttu fjármagnið en ekki þeim til handa sem þurftu að sækja sér lánsfé. Nú er von um að þetta breytist og að lánakerfi framtíðarinnar verði hér svipað og t.d. í Danmörku.
Annars er lýðræðis- og þjóðarást sjálfstæðismanna með eindæmum. Ekki hafa þeir t.a.m. hingað til verið reiðubúnir til að breyta stjórnarskrárákvæði um auðlindir í þjóðareigu - neibb, enn er verið að skara eld að köku vinanna, s.s. kvótagreifanna.
Við þurfum sterka ríkisstjórn sem reisir skútuna örugglega við - með réttum lausnum en ekki klafa til framtíðar. Ríkisstjórn sem er reiðubúin að líta til fjölbreytileika í styrkingu atvinnulífs - en ekki helst á stóriðju í áli.Auðvitað á þar fremst að fara forsætisráðherra sem vinnur og kann til verkstjórnar og valddreifingar. Þetta held ég að við höfum í dag - bestu kostina í stöðunni!
Herdis (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 13:45
Kæri Hrannar,
Ég hef alltaf borði virðingu fyrir Jóhönnu og því sem hún hefur staðið fyrir. Sú virðing er ekki til staðar í dag því miður.
Mér finnst hún ekki hafa staðið sig sem sá leiðtogi sem þessari þjóð vantar í dag. Hún hefur ekki stappað stálinu í okkur eða staðið upp fyrir okkur. Hún gat ekki komið okkur út úr þeim hamförum sem AGS er, hún( með Steingrími) gat ekki tekið á Icesave af festu og rögg fyrir hina íslensku þjóð. Því sérðu Hrannar einmitt þegar stjórnarskiptin voru höfðu Jóhanna og Steingrímur eðlilega ástæðu til að líta á Icesave upp á nýtt.
Hún hefur ekki staðið með heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Það veit ég heiman frá mér þar sem að hjá okkur er ekki ein einasta krónu til um mánaðarmót, samt eigum við ódýrt hús, ekkert bílalán og erum frekar skynsöm í eyðslu okkar. En við eigum 5 börn og framfærsla heimilisins hefur hækkað gífurlega. Við erum venjulegt fólk sem vorum ekki í útrás eða að fara hamförum í eyðslu, og við eigum greinilega að borga brúsann.
Fyrirgefðu að ég segi það Hrannar en þinn flokkur ásamt öllum hinum flokkunum hafa bara sýnt það og sannað að flokkakerfið er vanhæft til að taka á vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þið eruð því miður of föst í kerfishugsunarhætti og getið greinilega ekki meðtekið að þegar óhefðbundið ástand er til staðar að þá verði stundum að bregðast við með óhefðbundnum lausnum.
Virðingafyllst að Austan
Ásta Hafberg (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 13:55
OK, hún er að vinna uppstyttulaust og myrkranna á milli. Fróðlegt væri að fá lýsingu frá þér á einni vinnuviku JS.
Mættum við fá að sjá prógramm forsætisráðherra, eins og eina viku aftur í tímann takk? Bara svona passlega detaljerað en klukkustund fyrir klukkustund.
Fimmta valdið (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 14:08
Já það hreinlega rignir yfir mann sögunum af því hvað þau skötuhjú Steingrímur og Jóhanna vinni ógurlega mikið. Steingrímur sagði í drottningarviðtalinu um helgina að hann ynni 16 tíma eða eitthvað álíka á viku og nú stígur þú fram (ekki Jóhanna sjálf auðvitað!) og segir að Jóhanna sé að vinna svo ofboðslega að hún hreinlega sjáist ekki!
Og hvað eru þau eiginlega að gera? VIð höfum ekki séð neitt gerast. Ekkert sést af þessum rosalegu verkum. Hvar er skjaldborgin? (þetta er nú bara orðinn brandari :) ) Af hverju eru vextirnir ekki lægri? Búið að henda DO út og allt! Hefur einhver séð einhver úrræði fyrir önnur fyrirtæki en banka? Neibb!
Hvað eru þau eiginlega að gera? Moka mold fram og til baka? Það er ekki nóg að segjast vera að vinna allan sólarhringinn, það skiptir máli hvað er unnið.
Hamstar í búri hlaupa stundum í sama hjólinu klukkustundum saman. Er eitthvað svipað í gangi á stjórnarheimilinu?
Soffía (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 14:21
Það ER hlutverk þitt og upplýsingafulltrúa að "gera" forsætisráðherra sýnilega. Það er auðvelt, einfalt og létt verk. Árinni kennir illur ræðari.
Björn S. Lárusson (B.Lár) (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 15:01
Ég hef alla tíð litið á Jóhönnu sem öflugan stjórnmálamann og hef borið mikla virðingu fyrir baráttu hennar fyrir þá sem erfitt eiga, en eftir að hún komst að sem forsætisráðherra hefur varla sést tangur né tetur af henni, hún talar ekki við þjóð sína, nema í frösum á einhverjum örfáum blaðafundum.
Álögur á heimilin hafa aukist rosalega en ríkisstjórnin virðist enn í afneitun, það þarf að setja neyðarlög sem banna það að hægt sé að ganga að veðum í heimilum fólks næstu 10 árin a.m.k.
Fólk þarf handleiðslu fyrir fólkið í landinu þvi óöryggið er slíkt að verði ekki slegið á þessa óvissu innan skamms þá má búast við blóðugu borgarastríði hér á götum úti.
Heimildir frá ákveðnu sýslumanns embætti herma að erlendir kröfuhafar íslandsbanka fari fram á að 20.000 heimili sem eru með slæma fjárhagsstöðu ferði seld á nauðungaruppboði.... halló ... halló... reynið nú að vinna fyrir fólkið í landinu það er það sem samfélagið byggir á en ekki auðvaldið.
Steinar Immanúel Sörensson, 16.9.2009 kl. 16:48
Málið sem enginn innan eða í námunda við ríkisstjórnina eða þá flokka sem mynda hana virðist geta séð að fólk er ennþá að bíða eftir "skjaldborginni" og hlutum sem áttu að koma fram "í lok mánaðarins".
Það hafa orðið fáránlega margar tafir á aðgerðum ríkisins. Það hefur nánast allt hérlendis verið í frosti. Og jafnvel þó að þér, Jóhönnu og Steingrími finnist vera nóg að gera og mikið gerst þá er það alls kostar ekki sýnilegt.
Og það verður aldrei sýnilegt fyrr en að þið komið í fjölmiðla og greinið frá því eða hampið því. Ég hélt að þú værir einhver fræðingur í fjölmiðlasamskiptum eða ættir að sjá um þetta fyrir Jóhönnu. Þú átt að vita þetta.
Það er alveg sama hvað sannleikurinn er vinur, þangað til að þið komið fram og segið frá honum í fjölmiðlum þá verðið þið sökuð um yfirklór og seinagang og að þora ekki að tala við fjölmiðla sökum ráðaleysis.
Mér finnst ótrúlegt að fólk í æðstu stöðum landsins viti ekki eða skilji ekki að fólk verður órólegt þegar "leiðtogar" þess eru ekki að tala við það eða hughreysta. Jafnvel þó svo að ekkert sé að segja, þá verður að segja bara það sama aftur og aftur. Það þýðir ekki að loka sig af og setja einhvert skilti fyrir dyrnar um að engin viðtöl séu veitt vegna annríkis. Stjórnun þjóðríkis hefur ALDREI virkað á þann hátt og mér finnst það ótrúlegur barnaskapur að halda að það muni virka núna.
Núna VERÐUR Jóhanna að fara að koma fram og sýna sig. Svara nokkrum spurningum í einhverjum þætti (Silfrið?) og HUGHREYSTA FÓLK!
Og ég vil geta þess að ég kaus Samfylkinguna. En ég skil jafnframt að þið eruð að klúðra almannatengslunum á svo svakalega heimskulegan hátt að ég VERÐ að gagnrýna það...
Skaz, 16.9.2009 kl. 18:57
Merkileg túlkun á frammistöðu Jóhönnu sem stjórnmálamanns.
Ef hún kemst ekki í frí þá er það líkast til vegna þess að hún kann ekki að stjórna og dreifa ábyrg sem er í sjálfusér ekki ámælisvert vegna þess að hún hefur hvorki menntun né reynslu til það byggja á hvað þetta varðar.
Auðvitað myndi henni farnast betur ef hún hefði almennilega ráðgjafa hvað þetta varðar en það er lenska hér í stjórnsýslunni að velja aðstoðarfólk með tilliti til hollustu fremur en hæfni.
Hvað varðar frammistöðu ríkisstjórnarinnar er hún vægast sagt skammarleg. Eftir hrunið var það þrennt sem þurfti að verja til þess að tryggja framtíð komanid kynslóða:
Náttúruauðlindirnar
Halda skuldasöfnun í skefjum
Halda upp verðmætasköpun í landinu og tryggja samfélaginu arðsemina af henni
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur brugðist í öllum þessum atriðum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 16.9.2009 kl. 18:59
Fagna því að fá að skáskjóta orðum í belg til forsætisráðherra.
Ísland er vissulega eyland, en á auk þess gífurlega hagsmuni að gæta í alþjóðasamfélaginu. Trúverðugleiki landsins og stjórnvalda hefur orðið fyrir óbætanlegum skaða. Forsætisráðherra er æðsti ráðamaður eyjunnar, og er því litið á hann sem æðsta málsvara þjóðarinnar.
Á meðan forsætisráðherra gefur ekki færi á sér í eitt einasta viðtal við alþjóðlega fjölmiðla, (hef ekki séð fréttir af þessum fundum sem þú vísar til) mun alþjóðlega samfélagið enn halda að hér ríki glundroði, stjórnleysi og áframhaldandi spilling, sem virðist reyndar raunin.
Framganga ríkisstjórnarinnar í Æsseif málinu, er fullkominn skandall. Það er nákvæmlega engin sannfæring fyrir því á meðal almennings, að æðstu menn hafi barist með kjafti og klóm fyrir hag þjóðarinnar, þegar skrifað var undir þennan samning upphaflega.
Ef forsætisráðherra getur ekki séð af viðtalstíma við erlenda fjölmiðla 2-3svar í mánuði eftir atvikum, þá er hann ekki að ganga eins langt í valddreifingu eins og þú vilt vera láta.
Forsætisráðherra á bara að nota túlk,(af sama kyni) sem getur einmitt virkað mjög töff. Gorbachev og fleiri fóru aldrei í viðtal við erlenda fjölmiðla án túlks og töluðu á sínu móðurmáli. Hún getur þá látið móðan mása á okkar ástkæra ylhýra, sem jafnframt mun endurspegla persónutöfra hennar og heilindi.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.9.2009 kl. 00:58
Hrannar minn þú ert ekki að standa þig í djobbinu frekar en sú sem þú vinnur fyrir, það er annars merkilegt hvað þið samfylkingarmenn leitið í smiðju Göbbels þessa daganna, með því að hamra á því hvað ríkisstjórnin er frábær í von um að fólk fari að trúa því. Það versta er að flestir sjá í gegnum ykkur, það er allir nema þig sjálfir.
Einar Þór Strand, 17.9.2009 kl. 07:35
Er þetta ekki heldur langur og ósannfærandi spuni hjá yfirspunalækni Samfylkingarinnar.
Jóhanna vissi hverju hún átti von á og tók á sig þá ábyrgð. Það er eins gott að hún bakki ekki út úr því nú og fari svo til dæmis að snúa sér að loforðum sínum.
Nú hefur hún komið því þannig fyrir að kröfuhafar Íslandsbanka hafa yfirtekið hann og þeirra fyrsta verk er að gjaldfella lán á 20.000 heimili.
Hún hefur þegar valdið meiri skaða en gagni, fyrir það eitt að eyða verðmætum tíma í pípudraum samfylkingarinnar um inngönngu í EU. Nokkuð sem meirihluti þjóðarinnar hafnar og er þar að auki gersamlega ótímabært eins og raunin sýnir.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.9.2009 kl. 08:23
Í hvaða landi býrð þú vinur minn ?
Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi ???
Skoðum aðeins hver verkin hafa verið.
1. Verk reka Davíð.
- Rekum mannin sem hefur hvað mestu yfirsýn yfir íslenskt hagkerfi enda setið við stjórnvölin á því í 17 ár. Á hvaða grundvelli ? Jú hann er ekki hagfræði menntaður. Samt sagði IMF hann vera hæfann og þetta kom frá flugfreyju og steingervingafræðingi eða einhverju álíka vitlausu ???
2. Verk: ESB í óþökk þjóðarinnar.
- VG voru yfirlýst andvígir inngöngu í ESB og því gefur að skilja að kjósendur þeirra hafi ekki viljað ESB. Samfylkingin er eini flokkurinn sem hafði það á sinni könnu og þeir voru eingöngu með um 30% atkvæð. Þetta ákvað Jóhanna samt sem áður að gjörsamlega hundsa og taldi sig hafa meirihluta þjóðarinnar fyrir.
3. Verk: 17. júní ræðan
- Það sauð í kollinum á mér þegar Jóhanna vogaði sér að segja að við höfum komið okkur í þessa stöðu og að þetta ástand væri nánast okkur þjóðinni að kenna og því þyrftum við að axla þessa ábyrgð.
4. Verk: Icesave
- Gengið var algerlega framhjá íslensku þjóðinni. Jóhanna neitaði að leita réttar okkar og að standa á rétti þjóðarinnar. Tilhvers ? Til að styggja ekki ESB og IMF sem hafa kúgað þessa þjóð.
Þetta er ekki glæsileg frammistaða að mínu mati. Og stærsta hluta þjóðarinnar.
En þar sem þú hefur svona tröllatrú á þessari ríkisstjórn væriru kannski til í að leiðrétta mig ef ég er að fara með rangt mál hérna ???
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 10:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.