Stóryrði og staðreyndir

Mikið finnst mér dapurlegt þegar velmeinandi einstaklingar og samtök falla í þá gryfju að beita fyrir sig stóryrðum og hálfsannleik þegar staðreyndir liggja fyrir og yfirveguð umræða ætti ekki síður að geta þjóna málstaðnum. Yfirlýsing ASÍ, ÖBÍ og LEB finnst mér dæmi um þetta.

Lítum á nokkrar staðreyndir:

Hvað skyldi nú samkomulagið frá 17. febrúar sem samtökin segja að hafi verið svikið segja um hækkun bóta lífeyrisþega ?

"Bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög. Þá mun nefnd á vegum félags- og tryggingamálaráðherra sem hefur það meginverkefni að gera tillögur um róttækar breytingar á almannatryggingakerfinu í því skyni að einfalda það skoða leiðir til þess að setja ákveðin lágmarksviðmið í framfærslu."

Í samræmi við gildandi lög var í upphafi árs ákveðið að hækka lífeyri um 3,3% en sú prósenta var forsenda fjármálaráðuneytisins um launaþróun á árinu við gerð fjárlaga. Um áramótin fengu hinsvegar umbjóðendur ASÍ ekki neinar kjarasamningsbundnar hækkanir, enda ekki fyrirliggjandi samningur þá.

Eftir að kjarasamningur ASÍ og SA náðust og sú ánægjulega áhersla á hækkun lægstu launin lá fyrir voru forsendur fjármálaráðuneytisins endurreiknaðar til að tryggja lífeyrisþegum sambærilegar hækkanir. Á grundvelli upplýsinga frá ASÍ og SA liggur fyrir að meðaltalshækkun lægstu launa samkvæmt nýgerðum kjarasamningi sé um það bil 7% frá 2007. Vegna þessa bætti ríkisstjórnin við, þegar frá 1. febrúar, þeim 4% sem nú er rætt um eins og einu aðgerð ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör lífeyrisþega.

Samanlagt hefur lífeyrir almannatrygginga hinsvegar hækkað um 7,4% frá áramótum, á sama tíma og meðaltalshækkun lægstu launa hjá ASÍ hafa hækkað um 7%.

Þessu til viðbótar er rétt að halda því til haga að umrædd 7,4% hækkun lifeyrisgreiðslna almannatrygginga er aðeins hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í á þessu ári til að bæta kjör lífeyrisþega. Reyndar er það svo að 7,4% hækkunin mun færa lífeyrisþegum u.þ.b 4 milljarða á ársgrundvelli en aðrar aðgerðir sem ráðist verður í 1. apríl, 1. júlí, 1. ágúst og um næstu áramót munu færa lífeyrisþegum 5 milljarða til viðbótar á ársgrundvelli, þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Þeir sem vilja fræðast betur um þær aðgerðir og tímasetningar þeirra geta kynnt sér málið á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið um bætt kjör lífeyrisþega á þeim þremur mánuðum sem Jóhanna Sigðurðardóttir hefur verið félags- og tryggingamálaráðherra munu því færa lifeyrisþegum u.þ.b. 9 milljarða á ársgrundvelli, þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda í lok árs.

Nær væri því að tala um ríflega 15% hækkun á lifeyri aldraðra og öryrkja en 4% eða 4000-5000 krónur eins og gert er í yfirlýsingu ASÍ, ÖBÍ og LEB. Ég hygg reyndar að ríkisstjórnin hafi á þessum skamma tíma tekið ákvaranir sem munu bæta kjör hinna lægst launuðu meðal lífeyrisþega meira en þeir lægst launuðu hjá ASÍ munu hækka vegna nýgerðs kjarasamnings. En um það getum við skorið þegar líður á árið og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar koma til framkvæmda ein af annari.

Þá er einnig rétt að hafa í huga að félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigðurðardóttir hefur sagt að þau tvö stóru skref sem þegar hafa verið stigin til að bæta kjör lífeyrisþega séu aðeins þau fyrstu á langri vegferð. Í vikunni fól hún t.d. nefnd sem vinnur að endurskoðun lífeyristrygginga og á að skila tillögum sínum þann 1. nóvember nk. að flýta vinnu sinni hvað varðar mótun sérstaks lágmarksframfærsluviðmiðs og skila því af sér fyrir 1. júlí. Umrætt framfærsluviðmið var hluti af yfirlýsingunni sem gefin var út í tengslum við samninga ASÍ og SA og er hugsað af hagsmunaaðilum til að tryggja að lífeyrisgreiðslur þróist með svipuðum hætti og lægstu laun - amk ekki síðri.

Við skulum því spara stóru orðin, byggja málflutning okkar á staðreyndum og spyrja að leikslokum. Málstaður þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum lífeyrisþega er sanngjarn og góður. Stóryrði og hálfsannleikur bæta hann ekki.

Pælum í því !

 

 

 

 


mbl.is Segja ekki staðið við samkomulag um hækkun bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér kærlega fyrir hjálpina

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 11:56

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Ég hef fulla trú á því sem þið eruð að gera í Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, ég held að þar hafi aldrei verið betra fólk í þetta djobb. En það er þetta með þolinmæði magans... ef allt hækkar meira en lífeyririnn.

Við trúum á von og vor og betri tíma

Gangi ykkur vel

Ragga fjöryrki 

Ragnhildur Jónsdóttir, 29.3.2008 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband