29.6.2007 | 14:45
Já, ráðherra !
Þá er komið að enn einum kaflaskiptunum í lífi mínu, en í dag mun ég ljúka störfum hjá Mömmu ehf. til að hefja störf sem aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra.
Það er óneitanlega skrýtin tilfinning að hoppa með svo skömmum fyrirvara í djúpu laug stjórnmálanna, enda ríflega 5 ár síðan ég hætti sem borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og hef síðan átt afar skemmtilegan tíma sem markaðs- og sölustjóri hjá þremur öflugum fyrirtækjum á miklum umbrotatímum þeirra - Eddu útgáfu, 365 og Mömmu ehf.
Ekkert benti til annars en framhald yrði á þessari braut, enda á kafi í MBA-námi og framundan afar spennandi tími hjá Mömmu þar sem harðsnúinn og skemmtilegur hópur hefur undanfarið ár byggt upp öflugt þjónustu- og sölufyrirtæki sem á framtíðina fyrir sér. Ég mun sannarlega sakna þeirra góðu samstarfsmanna!
En tilboði um að starfa sem aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki hægt að hafna, hvað þá þegar verkefni hennar er ráðherradómur í því spennandi stjórnarsamstarfi sem nú er hafið. Ötulli og einlægari stjórnmálamaður en Jóhanna er vandfundinn og þau krefjandi og metnaðarfullu verkefni sem stjórnarsáttmálinn felur Félagsmálaráðuneytinu hljóta að kitla hvern þann sem getur hugsað sér að starfa á vettvangi stjórnmálanna og vill sjá hugmyndir verða að veruleika.
Ég hoppa því glaður í djúpu laugina, með barnslegan fiðring í maganum og einbeittan vilja um að gera mitt allra, allra besta. Allar þær góðu óskir og sú hvatning sem ég hef fengið undanfarna daga, bæði hér í bloggheimum og annars staðar styrkja mig mjög í þeirri för og ylja um hjartarætur. Kærar þakkir !
Eitt af því sem einkennir nefnilega stjórnmálin að mínu viti er skortur á hvatningu og jákvæðri endurgjöf þegar vel er gert. Atvinnulífið hefur fyrir löngu áttað sig á mætti hróssins í viðleitni við að ná betri árangri, en í stjórnmálunum virðast menn enn standa í þeirri trú að skammir og fúkyrði dugi best til að halda mönnum við efnið. Væri ekki ráð að breyta því ?
Pælum í því !
Athugasemdir
Til hamingju með nýja starfið Hrannar. Gangi þér vel. Kv. SGBergz
Snorri Bergz, 29.6.2007 kl. 15:04
Ég bara varð: Frá mömmu til ömmu. Bæði eru kotin góð og vel vísað.
Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 17:33
Sæll
Ég þekki þig ekkert en af því að þú vísar í Já ráðherra þá spyr ég ertu ekki búinn að fá þér þættina á DVD til að læra.
Einar
Einar Þór Strand, 29.6.2007 kl. 18:08
Óska þér alls hins besta á nýjum starfsvettvangi. Ég á von á að ekki muni skorta verkefnin hjá þér í þessu nýja starfi, allavega virðist það vera að henni Jóhönnu falli aldrei verk úr hendi. Sú kona hættir ekki fyrr en verkinu er lokið, svo mikið er víst. Og ekki vantar reynsluna og þekkinguna á málaflokknum hjá henni.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 18:11
Til hamingju með nýja starfið.Vel valið hjá Jóhönnu,hún mun reynast þér vel í einu og öllu.
Kristján Pétursson, 29.6.2007 kl. 21:37
Sæll og megi þér vegna vel í nýja starfinu - þú veist að við treystum á dugnað Jóhönnu í ráðuneytinu og með öflugt fólk sér við hlið þurfum við litlar áhyggjur að hafa. Þér á örugglega eftir að nýtast bæði menntunin sem þú aflaðir þér í Háskólanum á Bifröst og ekki síður sú sem þú ert enn að afla þér í háskóla lífsins og póltíkurnar til að sinna þessu starfi.
Kristín Dýrfjörð, 29.6.2007 kl. 23:40
Til hamingju nafni, gangi þér vel í nýju starfi.
Hrannar Baldursson, 30.6.2007 kl. 00:55
Blessaður Hrannar. Gangi þér allt í haginn í nýja starfinu!
Agnar Freyr Helgason, 30.6.2007 kl. 01:01
Til hamingju Hrannar. Gangi þér vel á nýjum vettvangi.
Taflfélagið Hellir, 30.6.2007 kl. 08:45
Sæll og blessaður
Til hamingju með nyja starfið og vegni þér vel í því.
Kveðja Davíð bróðir :)
Davíð (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 21:54
Til lukku Hrannar. Jóhanna er einn af þeim þingmönnum sem ég hef alltaf dáðst af í gegnum tíðina fyrir einurð sína, einlægni og heilindi í málfluttningi. Skiptir einu þó ég hafi ekki alltaf verið sammála henni (Þannig er bara pólitíkin).
Gangi þér sem allra best í þessu starfi. Og mikil afskaplega er ég innilega sammála þér varðandi jákvæða endurgjöf í pólitíkinni. Mér finnst pólitísk umræða vera svo mikill svart/hvítur skotgrafarhernaður að það hálfa væri nóg. Sannleikurinn er það fyrsta sem deyr í pólitískri debate. Mikið þættí mér vænt um ef hægt væri að breyta því.... Og við gætum farið að ræða pólitík með kurteysi, bros og virðingu fyrir skoðunum annarra að leiðarljósi, í stað skítkasts og fyrirlitningar. What a wonderful world it would be.
Sigurjón Sveinsson, 1.7.2007 kl. 03:33
Til lukku með nýja starfið Hrannar!
Óska þér alls hins besta í pólitíkinni og velsældar í framtíðinni.
Tómas Tómasson, 1.7.2007 kl. 11:22
Kærar, kærar þakkir !
Í ljósi umræðunnar í blogheimum, má ég til með að upplýsa ykkur um að mitt fyrsta verk verður að heimsækja Jafnréttisstofu á Akureyri í fylgd með þeim góðu konum Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra og ráðuneytisstjóranum Ragnhildi Arnljótsdóttur. Ég er viss um að meira að segja Sóley Tómasdóttir verður ánægð með þá forgangsröðun verkefna
Ég mun síðan gera mitt besta til að halda síðunni lifandi og í góðum tengslum við verkefnin framundan og vona að við verðum sem flest, samferða á þeirri vegferð.
Góðar hugmyndir, góð ráð og uppbyggileg gagnrýni verður alltaf vel þegin.
Bestu kveðjur,
Hrannar Björn Arnarsson, 1.7.2007 kl. 22:43
Innilega til hamingju með starfið. Vel valið hjá Jóhönnu eins og við var að búast af henni.
Marta B Helgadóttir, 2.7.2007 kl. 01:38
Blessunaróskir. Þér mun ganga vel í þessu nýja starfi. Kv. B
Baldur Kristjánsson, 2.7.2007 kl. 10:52
Innilega til hamingju með starfið Hrannar !
Þú munt sinna þessu með sóma eins og öðru sem þú hefur gert.
Hlökkum til að fylgjast með þér
Norðanfólkið (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.