29.5.2007 | 10:55
Útrásin er víðar en margan grunar
Það er greinilegt að Björgólfur Thor ætlar sér ekki að sitja við orðin tóm frekar en fyrri daginn. Straumur kominn með nýjann mann í brúnna sem þekkir væntanlega fjarlægari fjármálamið betur en sá fyrri. Heimurinn er undir í fjárfestingum Björgólfs.
En útrás íslendinga er víðar en okkur grunar. það fékk ég svo sannarlega að heyra á ráðstefnunni sem ég sótti fyrir nokkru, um Fjárfestingartækifæri í Þróunarlöndum. Fjórir íslendingar sögðu þar frá reynslu sinni af uppbyggingu og rekstri fyrirtækis í þróunarlöndum og ég verð að viðurkenna að fæst af því sem þar kom fram hafði ég heyrt um áður. Það er minna sagt frá þessari útrás okkar Íslendinga, en þeirri sem fer fram á fjármálamörkuðunum.
Stefán Þórarinsson sagði frá fjölmörgum útgerðarverkefnum sem Nýsir hefur verið viðriðin, víða um Afríku. Mest hefur Nýsir starfað í Uganda og Namebíu en þar má segja að Íslendingar hafi nánast byggt upp sjávarútveg í þeirri mynd sem hann er stundaður í dag. Áður voru miðin á þessum slóðum ryksuguð upp af erlendum aðilum, einkum Spánverjum, en nú hafa heimamenn tekið við stjórninni og byggja á þeim grunni sem Nýsir lagði. Sigurður G. Bogason gengdi t.d. lykilhlutverki í að byggja upp mikilvægasta sjávarútvegsfyritæki Namebíu og sagði hann ráðstefnugestum þá lærdómsríku sögu. Aðeins ein höfn var í landinu, eitt þorp sem stundaði sjávarútveg og nánast allt í þorpinu var í eigu þeirra aðila sem áttu fyrirtækið. Það skilaði hinsvegar litlum sem engum arði og var á barmi gjaldþrots vegna óstjórnar þegar Sigurður og félagar komu að því. Endurskipulagningin tóks á endanum, en athyglisvert þótti mér að heyra, að erfiðasti þröskuldurinn í vegi endurskipulagningarinnar voru verkalýðsfélögin á staðnum. Réttindi verkafólks í Namebíu eru nefnilega meiri en á Íslandi samhvæmt Sigurði og nánast ómögulegt að reka fólk eða hliðra til. Ástæðu þessa má víst rekja til þess að Namebía var stofnað undir verndarvæng Sameinuðuþjóðanna og þar með voru að sjálfsögðu allir alþjóðasáttmálar þeirra lagðir til grundvallar og lögfestir í leiðinni. Ísland kemst víst ekki með tærnar þar sem Namebía hefur hælana í þeim efnum.
Gunnar Sigmundsson frá Frostmarki sagði okkur síðan frá tveimur verkefnum í Uganda þar sem íslenskt hugvit var nýtt til að setja saman fiskvinnsluhús ofl. Þar þurftu menn að setja í annan hraðagír en almennt gerist hér á Íslandi, en verkefnið sem venjulega ætti að taka 6-8 mánuði, tók 3-4 ár á þessum slóðum. Engu að síður virðist Uganda um þessar mundir taka stórstígum framförum. Kristján Erlingsson hefur búið þar í vel á annan áratug, eftir að hann fluttist frá Flateyri með fjölskyldu sína alla. Á þessum tíma hefur hann gengið í gegnum ýmis ævintýri í atvinnurekstri á svæðinu og fylgst með hvernig þjóðfélagið hefur tekið stökk inn í framtíðina á undanförnum árum. Menntun er að stóraukast, fjármálakerfið að styrkjast og fleiri og fleiri fyrirtæki er að komast á legg. Sjálfur á hann og rekur langstærsta útflutningsfyrirtæki Úganda á grænmeti og vöruflutningum í lofti.
Allir þessir aðilar voru sammála um að lykilþáttur í að ná árangri á þessum slóðum væri að nálgast samfélagið á þess eigin forsendum. Stofna til kynna og sambanda við heimamenn og hlaupa ekki hraðar en umhverfið leyfir. Í mörgum tilfellum töluðu þeir um að þekkingin og reynslan að heiman, hefði jafnvel orðið til trafala enda hafi hún villt mönnum sýn. Leiðirnar og lausnirnar séu vissulega til staðar á báðum stöðum, en þær séu ekki endilega þær sömu. Mér varð nú hugsað til þess þegar ég hlýddi á þessa kappa, að án vafa eru hundruð einstaklinga sem hingað flytja erlendis frá, að upplifa nákvæmlega sömu hlutina hér heima, af hendi okkar Íslendinga. Þeir sjá hvað við erum að gera hlutina vitlaust og hafa borðleggjandi lausnir á fjölda mála, en við bara viljum ekki breyta til.
Pælum í því !
Fyrrum yfirmaður hjá Bank of America verður forstjóri Straums-Burðaráss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ætli það hafi ekki verið til frambærileg íslensk eða útlensk kona í stöðuna - sem á ef til vill nokkrar "borðleggjandi lausnir" á fjölda mála en .....
Annars áhugaverð grein
Valgerður Halldórsdóttir, 5.6.2007 kl. 17:43
Heil og sæl Valgerður.
"Þeir" á við um útlendingana sem hingað koma, ekki "kappanna" íslensku. Á meðal þeirra eru ekki síður útsjónarsamar og klókar konur en karlar - ekki spurning !
Bk.
Hrannar Björn Arnarsson, 6.6.2007 kl. 16:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.