16.3.2007 | 13:50
Enn mun fátækum fækka !
Þó efnahagslegu hnignunartímabili Kína hafi lokið við fráfall Maós og valdatöku Teng Hsiao-ping árið 1976 þá var mikilvægur grunnur að framförunum lagður áratugina á undan. Almenn heilsugæsla og herferðir stjórnvalda gegn helstu farsóttum höfðu skilað miklum árangri og þjóðin því óvenju heilsuhraust miðað við efnahag, ólíkt afríku í dag. Gríðarleg uppbygging hafði einnig farið fram í grunninnviðum samfélagsins, svo sem vegum, drykkjarvatni, orkuverum, fjarskiptum, menntun o.þ.h. Síðustu ár Maó hafði einnig verið unnið mikið starf við að betrumbæta framleiðsluhætti í landbúnaðnum til að auka framleiðslugetuna þar, ekki síst með því að innleiða frjósamari korntegundir, áburð o.þ.h.
Þó lamandi hönd kommúnismans hafi hvílt yfir þjóðinni og hagvöxturinn því staðið á sér, var samfélagið á margan hátt vel undir það búið að taka til óspilltra málanna þegar kallið kom. Við fráfall Maís má segja að bændur landsins hafi að eigin frumkvæði ræst efnahagsvélina sem nú malar gull. Fram til þessa var akuryrkja jarðanna á ábyrgð samfélagsins sem bjó í nágrenninu og afurðirnar voru keyptar af ríkinu, langt undir markaðsverði. Á sama tíma tryggði ríkið öllum einstaklingum lágmarksframfærslu óháð framlagi. Samfélagið og ekki síður einstaklingurinn innan samfélagsins hafði því afar takmarkaðan hag af því að auka framleiðsluna og nýta gæði jarðanna sem best. Í valdatóminu sem myndaðist við dauða Maós og átökin sem fylgdu í kjölfarið fóru bændur landsins að skipta jarðnæðinu á milli fjölskyldna samfélagsins sem nýttu afraksturinn sér til hagsbóta. Afleiðingin varð sú að framleiðslan stórjókst og matvælin streymdu úr sveitum landsins. Borgarsamfélögin nutu því ávaxtanna ekki síður og því þjóðfélagið allt. Stjórnvöld létu því uppátækið óátalið og lögleiddu það þremur árum síðar, árið 1979.
Í kjölfar framleiðslubyltingar bændanna heimiluðu stjórnvöld að íbúar sveitanna yfirgæfu þær og flyttu til þéttbýlisins, enda framleiðslugeta sveitanna orðinn yfirdrifin. Í borgunum var á sama tíma hafin uppbygging iðnaðar og nútímalegra atvinnulífs, annarsvegar á vegum borganna sjálfra um allt land og hinsvegar á vegum erlendra fjárfesta á skilgreindum svæðum, svokölluðum efnahagssvæðum þar sem lagaumhverfi og umgjörð var mótað að þörfum alþjóðlegra fjárfesta. Hundruð milljóna Kínverja flykktust úr sveitum landsins og hófu störf í verksmiðjum og fjölbreyttu atvinnulífi borgarsamfélagsins og hjól atvinnulífsins tóku að mala gull. Það voru aðallega þrír fjármagnshópar sem riðu á vaðið; evrópsk og bandarísk iðnaðarfyrirtæki í leit að ódýru vinnuafli, brott flutt samfélög Kínverja af meginlandinu sem þekktu aðstæður og sáu tækifærin í breytingunum og opinberum stofnanir í Kína, sem fluttu fé úr landi og nýttu það aftur til að fjárfesta í efnahagssvæðunum sem erlenda fjárfestingu. En svæðin tóku fljótt við sér og þau hafa æ síðan gengið afar vel. Þeim er stöðugt fjölgað og erlent fjármagn streymir nú til landsins sem aldrei fyrr.
Tölurnar tala enda sínu máli. Árlegur hagvöxtur í Kína hefur allt frá 1978 verið u.þ.b 8%, þjóðartekjur á mann hafa 8 faldast á sama tímabili og útflutningur óx úr örfáum milljörðum dollara árið 1980 í 200 milljarða dollara árið 2000. Árið 2002 höfðu þessar efnahagslegu framfarir frelsað yfir 500.000.000 einstaklinga úr fátæktargildrunni, u.þ.b 70% af öllum þeim sem lifðu við örbirgð í Kína. Síðan þá hefur ástandið enn batnað og staðhæfa má að innan fárra ára mun örbirgð í Kína verða útrýmt með öllu.
Efnahagslegar framfarir Kína undanfarin 30 ár fela því í sér einhverja mestu lífskjarabyltingu sem mannkynið hefur upplifað.
Pælum í því !
Kínverjar samþykkja lög um eignarréttindi manna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.