14.3.2007 | 01:13
Óþægilegur sannleikur
Samfylkingin bauð mér í bió um daginn til að sjá óskarsverðlaunamynd Al Gore um gróðurhúsaáhrifin, Hinn óþægilegi sannleikur. Ég taldi mig fyrirfram nokkuð meðvitaðann um umfjöllunarefnið en verð að viðurkenna að ég kom út úr bíósalnum í hálfgerðu sjokki og er varla búinn að jafna mig enn.
Einhverra hluta vegna var greinilega búið að telja mér trú um það, að loftslagsmálin væru langt í frá eins aðkallandi málefni og ýmsir umhverfisverndarsinnar létu í veðri vaka. Jörðin hefði gengið í gegnum sambærilegar sveiflur í hitastigi mörgum sinnum áður, náttúruleg framleiðsla gróðurhúsalofttegunda hefði alltaf verið sveiflukennd og menn mættu ekki grípa til vanhugsaðra aðgerða sem hefðu skaðleg áhrif á efnahag þjóða - amk ekki á þessu stigi.
Heimildarmynd Al Gore kippti mér hinsvegar rækilega niður á jörðina. Staðreyndirnar eru nefnilega þær, að aldrei fyrr hafa mælingar sýnt viðlíka hækkun á magni gróðurhúsalofttegunda og nú eru orðnar, helsta áhrifavaldinum á breyttu hitastigi jarðarinnar undanfarin árþúsund. Magn gróðurhúsalofttegunda í dag er mun hærra en það hefur verið í hæstu toppum amk 600.000 ár aftur í tímann og þróun hitastigs jarðarinnar stefnir hratt uppávið í samræmi við spár vísindamanna um samhengi gróurhúsalofttegundanna og hitastigs.
Á sama tíma eru árstíðir að færast úr skorðum. Vorið kemur fyrr, veturinn seinna og afleiðingarnar fyrir lífríkið eru þegar farin að sjást um allan heim. Sumar tegundir missa óðöl og lífsviðurværi, aðrar fæðu, enn aðrar tegundir eflast og styrkjast og allt kerfið tekur breytingum - ótrúlega hröðum.
Í vikunni fengum við síðan fréttir af langtíma mælingum bandaríska hersins, um að bráðnun heimskautaíssins er mun hraðari en áætlanir svartsýnustu vísindamanna hafa hingað til gert ráð fyrir. Nóg fannst manni nú samt um þær myndir sem Al Gore og félagar sýndu í bíómyndinni af ótrúlega hröðum breytingum á jöklum heimsins, ekki síst suðurskautslandinu sem virðist vera að molna niður og samhliða hækka yfirborð sjávar um allan heim.
Ég gæti haldið lengi áfram á þessum nótum, enda enn í sjokki. Mér er í öllu falli orðið ljóst að loftlagsmálin eru eitt af mest aðkallandi úrlausnarefnum mannkyns í dag. Þau koma okkur öllum við og okkur ber öllum skylda til að láta þau til okkar taka.
Evrópusambandið hefur tekið málið á dagskrá, ekki síst fyrir ötula baráttu Blairs og Verkamannaflokksins í Bretlandi og eftir að hafa horft á myndina verð ég enn stoltari af því mikilvæga frumkvæði sem Ólafur Ragnar hefur sýnt í þessum málum.
En við verðum öll að gera eithvað. Á netinu er þessa dagana verið að safna undirskriftum til að þrýsta á tafarlausar aðgerðir stórveldanna í G5 hópnum og þar með Bandaríkin sem eru mesti skaðvaldurinn í loftslagsmálunum í dag. Við getum t.d. byrjað á að undirrita þessa yfirlýsingu á slóðinni http://www.avaaz.org/en/climate_action_germany
En ætli við séum orðin of sein ?
Pælum í því !
Athugasemdir
Frábært Hrannar að þú skulir skilja um hvað málið snýst. Það væri betra ef fleiri gerðu það.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 14.3.2007 kl. 10:47
Frábær mynd.Erum við komin svona langt að eyðileggj móður jörð,hugsaði ég þungbúinn og áhyggjufullur.Af hverju fara ekki allir að taka til í sínum ranni,við getum strax gert stórátök í mengunarmálum,ekki bíða eftir hvað aðrir gera eða ríkisvaldið.Auðhyggjan og græðgin eyra engu,þau sjá ekki framtíðina og börnin okkar,ÞEIR SJÁ BARA SJÁLFA SIG.
Kristján Pétursson, 15.3.2007 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.