Hvað vilja Frjálslyndir ?

Ég verð að taka heilshugar undir varnaðarorð Ágústs Ólafs vegna hinnar ógeðfeldu stefnu í innflytjendamálum, sem Frjálsyndi flokkurinn virðist hafa sett í öndvegi. Ég segi "virðist" enda eru það aðalega ummæli og afstaða tveggja af forystumönnum flokksins, þeirra Jóns Magnússonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, sem vekja manni ugg í brjósti. Framhjá því verður hinsvegar ekki litið að báðir leiða þeir framboðslista Frjálslyndaflokksins og málfutningur þeirra hefur verið látinn óátalinn af öðrum forystumönnum flokksins.  

Málflutningur Jóns og Magnúsar Þórs ber skýr merki þjóðernishyggju og þar er því miður alið á fordómum og andúð í garð útlendinga. Málflutningur þeirra sver sig mjög í ætt við stefnur ýmissa hægri öfgaflokka víða um evrópu - flokka sem víðast hvar hafa dæmt sig úr leik við stjórnarmyndanir enda talist ósamstarfshæfir af öðrum flokkum, vegna afstöðu sinnar til innflytjenda. Með sama áframhaldi er líklegt að örlög Frjálslyndaflokksins verði þau sömu í íslenskum stjórnmálum - því miður.

Skoðum nokkur ummæli Jóns sem flest má finna á heimasíðu hans eða Frjálslyndaflokksins :

"Nú þegar verður að bregðast við og efla lögregluna til mikilla muna svo að hún geti tryggt öryggi borgaranna og komið erlendu glæpafólki úr landi. "

"Við verðum að fá að ráða því sem þjóð hverjum við bjóðum í heimsókn og hverjum við bjóðum að gista hjá okkur. "

" Með sama hætti þá er það óviðunandi að launakjör þeirra lægstlaunuðu skuli versna hlutfallslega vegna aðstreymis erlends vinnuafls."

“Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi Múhameðs sem hefur sín eigin lög og virðir ekki lágmarksmannréttindi og misbýður konum.”

"Enginn má engin skilja orð mín svo að ég sé á móti Pólverjum eða öðru kristnu fólki úr okkar heimshluta." 

Ég verð að viðurkenna að ég kem því ekki heim og saman, hvernig sá víðsýni og frjálslyndi Jón Magnússon, sem landsmenn hafa hingað til fengið að kynnast í gegnum ötula baráttu hans fyrir neytendur og almenn lýðréttindi umpólast að því er virðist, þegar kemur að málefnum innflytjenda. Hingað til hafa fáir verið jafn einarðir talsmenn opinna landamæra, amk þegar kemur að viðskiptum og innflutningi á vörum og þjónustu. Hversu oft hef ég ekki heyrt fulltrúa bænda núa Jóni um nasir að hann skeytti í engu um afkomu og örlög íslenskra bænda þegar hann hefur krafist afnáms ríkisstyrkja og innflutningshafta á erlendar landbúnaðarvörur svo eithvað sé nú nefnt.

Hvað hefur eiginlega breyst ? Afhverju þurfa Íslendingar skyndilega múra og innflutningshöft til að verjast hinum vinnufúsu höndum sem hingað vilja koma ? Eru bændur og heildsalar etv einu stéttirnar sem ekki má vernda fyrir erlendri samkeppni ?

Í mínum huga gengur dæmið amk ekki upp, nema frelsið virki í báðar áttir. Fyrir okkur Íslendinga til að sækja út og útlendinga að leita til Íslands. Það er síðan í okkar höndum nýta kostina sem í því felast. Í þessum efnum hugnast mér vel sú afstaða Jóns Magnússonar sem birtist í eftirfarandi tilvitnun í nýlegum pistli hans. Vonandi verður sú frjálslynda afstaða ofaná í Frjálslyndaflokknum.

 "Mér datt í hug af þessu tilefni það ástand sem varð fyrir 18 árum í Mið Evrópu þegar fólk sem bjó við ófrelsi Kommúnismans skildi Trabantana sína eftir og fór yfir landamæri Ungverjalands og Tékklands til að njóta frelsisins. Þegar fólkið í Þýskalandi sem var með múr þvert í gegn um höfuðborgina sína braut hann niður til að geta notið frelsis.

Þetta fólk sem braust þannig undan ófrelsi Kommúnismans að viðlagðri ábyrgð að lögum, vildi fá frelsi til að kaupa það sem það vildi og sömu kjör og fólkið bjó við vestan megin þess múrs sem ófrelsið hafði reist. Verða íslenskir neytendur ekki að grípa til álíka ráðstafana til að gæta hagsmuna sinna. Til að lifa af og njóta eðlilegra kjara. Brjóta niður múra ófrelsis á Íslandi. Taka lán í Evrum, kaupa mat á sama verði og boðið er upp á í Evrópu og brjóta niður tollmúra og innflutningshöft sem sett eru til verndar hinum fáu á kostnað þeirra mörgu. "

Pælum í því !


mbl.is Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Komdu sæll Hrannar Björn.

Það skal ég fúslega fræða þig um hér og nú að hvorki Magnús Þór né Jón Magnússon eru  boðberar " ógeðfelldrar " málefnaumræðu um málefni innflytjenda hingað til lands. Þeir eru hins vegar ágætlega upplýstir menn um þá þróun sem nágrannar okkar hafa gengið í gegn um varðandi aðstreymi innflytjenda og íslenskir stjórnmálaflokkar hafa komið sér hjá að ræða hingað til því miður algjörlega.

Íslendingar eru eins og oft áður, staðnaðir í umræðu um málefni líðandi stundar og fjölgun innflytjenda kallar á umræðu um aðstæður þeirra hinna sömu svo sem aðlögun og íslenskukennslu sem er forsenda aðlögunar fólks af erlendu bergi brotið fyrst og síðast, íslenskukennslu sem íslensk stjórnvöld hafa EKKI staðið fyrir því miður.

Frjálslyndi flokkurinn hefur yfir öflugu og dugmiklu fólki að ráða og einn af okkur er nú Jón Magnússon sem ákvað að ganga til liðs við okkur og við fögnum þvi,  sökum þess að við flokkum ekki fólk eftir skoðunum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.3.2007 kl. 00:45

2 Smámynd: Þarfagreinir

Ég verð nú að taka undir það að ekki er hægt að segja annað um þann málflutning að banna eigi öllum sem aðhyllast Islam að koma til landsins, að hann sé ógeðfelldur. Orðalagið "Kristið fólk úr okkar heimshluta" virðist meira að segja útiloka alla þá sem ekki eru kristnir! Jú, jú - auðvitað má alveg ræða þessi mál og það sjónarmið að sporna eigi gegn innstreymi erlends vinnuafls á svo sem rétt á sér þar, en ég tel því miður að það haft er eftir Jóni Magnússyni hér sé lítið annað en rasismi og fordómar af verstu sort.

Þarfagreinir, 26.3.2007 kl. 11:52

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þarfagreini til upplýsinga þá er Jón ekki að tala um að banna eigi öllum sem aðhyllast Islam að koma til landsins, heldur heittrúuðum öfgahópum. Ég stórefast um að nokkur kæri sig um að fá hingað til lands hópa fólks sem hafa það að markmiði að leggja vestræna lifnaðarhætti niður og taka upp Islamska siði. 

Það hefur líka komið í ljós í nýlegri launakönnun að í því launaskriði sem verið hefur að undanförnu eru tveir hópar sem skera sig úr vegna þess að laun þeirra hafa hækkað minnst en það eru verkamenn og iðnaðarmenn. Hvernig skyldi svo standa á því.  

Þóra Guðmundsdóttir, 26.3.2007 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband